Mundo er ferðaskrifstofa þar sem menntun, skemmtun, menning og þjálfun fara saman

Ekvador og Galapagos – síðsumarsferð 2017

200.000 Kr.689.000 Kr.

Framandi náttúra, dýralíf, menning og ævintýri einkennir þessa ferð til Ekvador og Galapagos.

Clear
SKU: N/A Category:

Innihaldsrík og fjölbreytt ferð til Ekvador og Galapagos eyja. Sannkallað ævintýri.

Ferðatímabil: 30. ágúst – 18. september 2017
Fararstjóri: Nicolas Blin
Verð: 889.000 kr á mann miðað við tvo saman í herbergi.
Innifalið: Flug, gisting, máltíðir samkvæmt ferðalýsingu, íslensk fararstjórn Nicolas Blin, enskumælandi leiðsögumaður úti.
Farþegafjöldi: Lágmark 12 – hámark 16.

Upplýsingar hjá margret@mundo.is eða í síma 691 4646

Ferðaáætlun: 

Flugdagur  (30 ágúst.): Flogið frá Íslandi til Quito með tveimur millilendingum.

Dagur 1 (31 ágúst): Komið til Quito

Lent verður á flugvellinum í Quito þar sem leiðsögumaður tekur á móti hópnum. Ekið verður með hópinn til Casa Kiliku, sem er í Cumbaya-dalnum í grennd við Quito. (Morgunverður/-/kvöldverður)

Dagur 2 (1 sept.): Kláfur, ávaxtamarkaður og skoðunarferð í Quito

Upphafsstöð kláfsins í Quito er í 2.950 m hæð og endastöðin í 4.050 m hæð yfir sjávarmáli, efst á hæðinni Cruz Loma sem er í hlíðum eldfjallsins Pichincha. Uppi á hæðinni gefst tækifæri til að ganga um og njóta stórkostlegs útsýnisins yfir borgina. Því næst er farið á ávaxtamarkað þar sem eru á boðstólum margs konar ávextir sem vaxa hvergi nema í Ekvador.

Síðdegis er farið í skoðunarferð um gömlu miðborgina í Quito, en hún hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá því 1978. Quito er í 2850 m hæð yfir sjávarmáli, við rætur eldfjallsins Pichincha og er ein af elstu borgum Suður-Ameríku. Skoðunarferðin hefst á torginu Plaza Grande, farið verður að forsetahöllinni, í kirkjurnar El Sagrario og La Compañía, á torgin Santo Domingo, La Merced og San Francisco. Af hæðinni „El Panecillo“ er dásamlegt útsýni yfir borgina og eldfjöllin umhverfis hana. Gist er í Casa Kiliku. (Morgunverður/-/kvöldverður)

Dagur 3 (2 sept.): Coca – um Baeza og Loreto

Lagt er af stað um morguninn og ekið með hópinn til Coca. Á leiðinni er farið um bæi á borð við Baeza og Loreto, og borðað á litlum veitingastað í hádeginu. Síðdegis er komið til Hostería Amazonas. Hópurinn býr sig undir siglinguna um fljótið með því að skoða bátinn sem siglt verður á og snæða kvöldverð um borð. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 4 (3 sept.): Regnskógarferð með Cuisine Sans Frontiere (sigling)

Morgunverður um borð í bátnum klukkan 8. Siglt verður af stað klukkan 9. Hádegisverður er borinn fram  í bátnum Farið verður á smábátum út í Apaeyju og til Pompeya, en þar er merkilegt fornleifa- og mannfræðisafn. Því næst tekur við klukkustundarsigling til Indillama. Þar verður boðið upp á kvöldverð og menningardagskrá. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður).

Dagur 5 (4 sept.): Regnskógarferð með Cuisine Sans Frontiere (sigling)

Dagskráin hefst með morgunverði um borð í bátnum klukkan 8. Klukkan 9 er siglt af stað til Panacocha þar sem þúsaldarþorpið verður skoðað. Kvöldverður og gisting í Panacocha. (Aðrir kostir: Tiputini eða Chiro isla.) (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður).

Dagur 6 (5 sept.): Coca – Martinica (Regnskógarferð með Cuisine Sans Frontiere)

Sigling til Martinica. Morgunverður og hádegisverður um borð. Á leiðinni verður siglt með hópinn á smábátum inn á Tiputini-fljót. Gist verður í húsum sem tilheyra sveitarfélagi Martinica. Þar verður boðið upp á kvöldverð og menningardagskrá. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður).

Dagur 7 (6 sept.): Regnskógarferð með Cuisine Sans Frontiere (sigling)

Þennan dag verður siglt með hópinn að lóni þar sem gefst tækifæri til að sjá bleika höfrunga. Síðan er haldið  til Santa Rosa. Hádegisverður um borð í bátnum.  Gisting og kvöldverður í Santa Rosa. Þar gefst tækifæri til að skoða annað lón sem er heimkynni pæmunnar (sp. paiche), eins stærsta vatnafisks í heimi. (Annar kostur: Nueva Rocafuerte). (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 8 (7 sept.): Til baka til Coca (sigling)

Dagurinn hefst snemma því lagt verður af stað til baka til Coca klukkan 6. Hádegisverður í Alta Florencia. Siglt er til Pompeya; þaðan fer hópurinn landleiðina til Coca. Gisting í Hostería Amazonas. Kvöldverður á veitingahúsi í grennd við gistihúsið. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 9 (8 sept.): Hvíldardagur í Coca

Þennan dag fær hópurinn tækifæri til að hvílast. Þeir sem vilja geta farið á Macco-safnið og ýmislegt fleira er hægt að gera sér til gamans. Gisting á Hostería Amazonas. (Mogunverður/-/kvöldverður)

Dagur 10 (9 sept.): Coca – Tena – Misahualli

Á leiðinni til Misahualli er höfð viðkoma í Tena. Í Misahualli er gist á Hostal France Amazonia. Þeir sem vilja geta fengið sér sundsprett í lóninu, farið í þorpið og heilsað upp á einstakklega þjófótta hettuapa eða heimsótt indíánaþorpin á þessum slóðum. (Morgunverður/-/-).

Dagur 11 (10 sept.): Misahualli – Puyo – Baños

Lagt verður af stað til Baños snemma um morguninn. Á leiðinni verður komið við í ýmsum bæjum. Í bænum Puyo, sem er kallaður „inngangurinn í regnskóginn“, gefst kostur á að skoða balsaviðarverksmiðju. Margs konar fallegir skrautmunir eru búnir til úr þessum sérstaka eðalviði. Þegar komið er til Baños, sem er líflegur pílagrímastaður í Tunguruhua-héraði og þekktur fyrir heilsusamlegar náttúrulaugar,  gist er á Hostal Chimenea, Casa Real eða Hostal Llanovientos. (Morgunverður/-/-)

Dagur 12 (11 sept.): Baños – Quito

Um morguninn gefst hópnum tækifæri til að skoða hina fögru dómkirkju, njóta landslagsins og bragða á einhverju af víðkunnu sælgæti bæjarins, svo sem melcocha. Síðdegis er flogið til baka til Quito þar sem gist verður í Hostería San Carlos í Tababela, rétt hjá flugvellinum. (Morgunverður/-/kvöldverður)

Dagur 13 (12 sept.): Flug frá Quito til Galapagoseyja – Baltra – Isabela

Um morguninn er flogið til Guayaquil og þaðan til eyjarinnar Baltra (lent um klukkan 9.30). Leiðsögumaður tekur á móti hópnum á flugvellinum og siglt verður með ferju til Isabela-eyjar. Á Isabela verður farið að Flæmingjavatni þar sem eru fleiri flæmingjar  en annars staðar á eyjunum. Gist verður á Hotel San Vicente eða Hotel Coral Blanco. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður).

Dagur 14 (13 sept.): Isabela – eldfjallið Sierra Negra – eldfjallið Chico – Concha y Perla

Þennan dag fylgir leiðsögumaðurinn hópnum að einu stærsta eldfjalli heims. Gígur eldfjallsins Sierra Negra er um 7 km í þvermál. Gengið er í 4 klukkustundir hjá þessum mikla sporöskjulaga gíg uns komið er að hliðargígnum Chico. Þegar horft er af gígbrúninni niður á gígbotninn sést nýja hraunið sem kom upp árið 2005 greinilega. Síðdegis gefst hópnum tækifæri til að snorka við Concha y Perla-ströndina. Ef heppnin verður með okkur getum við synt með sæljónum, mörgæsum og litskrúðugum fiskum. Gist verður á sama hóteli og nóttina áður. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 15 (14 sept.): Cabo Rosa, Los túneles – frjáls tími síðdegis

Um morguninn er farið í Los túneles, sem eru náttúruleg steingöng neðansjávar. Þarna er mikið um sæskjaldbökur og bláfættar súlur. Hópurinn hefur frjálsan tíma síðdegis. Gist er á Hotel San Vicente eða Hotel Coral Blanco. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 16 (15 sept.): Eyjan Santa Cruz – hálendi Santa Cruz – Tortuga-vík

Um morguninn tekur við 3 ½ klukkustundar sigling með hraðbáti til eyjarinnar Santa Cruz. Þaðan er ekið upp í hálöndin sem eru oft sveipuð þoku og svo frjósöm að þau eru nýtt til jarðræktar. Þar er tilvalið að skyggnast um eftir risaskjaldbökum. Því næst er farið með hópinn í klukkustundargöngu að dásamlegri strönd við Tortuga-vík. Á leiðinni má sjá finkur, pelíkana, flæmingja og græneðlur. Á ströndinni hefur hópurinn tækifæri til að synda í sjónum og slaka á. Gist verður á Hotel Pelikan Bay eða Hotel Deja vu.  (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 17 (16 sept.): Sigling til Seymor-eyjar eða Bartolomé-eyjar

Eftir morgunmat sækir leiðsögumaðurinn hópinn á hótelið og fer með hann í hraðbátinn. Um leið og allir eru komnir um borð er siglt af stað til annarrar hvorrar eyjunnar sem nefnd er hér að ofan. Gist verður á Hotel Pelikan Bay eða Hotel Deja vu. (Morgunverður/hádegisverður/kvöldverður)

Dagur 18 (17 sept.): Charles Darwin rannsóknarstöðin – Baltra-eyja (flugvöllur)- Flug til Guyaquil  (Hægt er að fara í rannsóknarstöðina ef flugið er eftir klukkar 12.30)

Um morguninn  verður farið í Charles Darwin rannsóknarstöðina þar sem meðal annars er stundað skjaldbökueldi. Siglt verður frá Puerto Ayora til Baltra-eyju, og flogið þaðan til meginlandsins. (Morgunverður/-/-)

Flogið heim með tveimur millilendingum.

 

Úr dagbók Nicolas Blin frá ferð sinni til Amazon:

Langþráður draumur okkar (aðallega minn) um ævintýraferð inn í Amazon frumskóginn var loksins að rætast.  Ég tónaði niður tilhlökkunina og lét eins og við værum bara að fara í enn eitt ævintýrið.  Dóra var farin að sýna kvíðaeinkenni í undirbúningnum en þáði þó ekki að vera eftir í Quito.   Fullur aðdáunar fylgdist ég með Irisi semja við senior Pedro eiganda Marco Polo Tours sem var með höfuðstöðvarnar í olíubænum Lago Agrio við enda vegarins inn í Amazon.  Iris samdi um fimm daga ferð með því að vitna verðlag sem var fyrir fimm árum.  Pedro virtist ósáttur við hennar kröfur en Iris hló og fussaði þegar Pedro nefndi einhver verð og hún bætti við kuldalega að hún tæki ekki þátt í svona túristagildru. Þegar símtalinu lauk hripaði hún niður á blað netfang ferðaskrifstofunnar og upphæðina sem þurfti að greiða strax.  Íris staðfesti að þetta væri miklu betra en þessar rándýru bandarísku ferðaskrifstofur og að Ekvadorbúar færu frekar í gegn um svona ferðaskrifstofur.  “Maturinn er meira lókal og þau fara ótroðnar slóðir lengra inn í skóginn langt frá öðrum túristum”. Verðið var um þriðjungur af því sem aðrar “gringo” ferðaskrifstofur buðu upp á.   Ég ljómaði af gleði við þessar fréttir um leið og ég horfði á kippi í andliti Dóru þegar hún reglulega hætti að anda um stund.  Ég google-transleitaði samskiptin við Pedro og kláraði að staðfesta og greiða ferðina.  Þetta var högghelt plan og við vorum í öruggum höndum innfæddra.

Daginn eftir hringdi Pedro og spurði hvort við værum grænmetisætur og hvort við ætluðum ekki að panta gistingu í skóginum sem var víst ekki innifalin í tilboðinu.  Ég leyfði Irisi að öskra smá á hann í símann og hneykslast á  honum en við sömdum um að hækka lokagreiðsluna .  Þetta var gott plan og við vorum í höndum innfæddra.

Við leigðum gamla Cherokee jeppann hans Davids leigðan og keyrðum niður Andesfjöllin.  Dóra og börnin voru bara að fara í enn eitt ævintýrið en ég trúði þessu varla og varð klökkur þegar frumskógurinn blasti við okkur út sjóndeildarhringinn með skýjabólstrum á stangli.  Þarna eru Píranafiskar, hvítir blindir höfrungar, Tarantúlur, smáapar, Gormur… ég er að koma!

Myrkrið kom okkur að óvörum eins og venjulega en við fundum hótelið Oro Negro í Olíubænum Lago Agrio.  Pedro sem verður okkar aðalleiðsögumaður í Amazon frumskóginum næstu 5 daga bauð okkur á ferðaskrifstofuna til að leggja fram lokagreiðsluna.  Þegar við komum var hann í hjólastól að klöngrast upp í þríhjólaskellinöðru með tvo gsm síma, einn í hvorri hönd og einhvern á línunni báðu megin að bíða meðan hann gaf skipanir til konunnar sinnar og sonar sem kinkuðu kolli og ruku til.  Þau voru öll glaðleg en augljóst að heilmikið skipulag þurfti fyrir ævintýrið framundan. Enginn talaði stakt orð í ensku svo ég sætti mig strax við að leiðsögumaðurinn okkar yrði ekki enskumælandi heldur.  Þetta yrði kærkomið tækifæri fyrir til  að ná loks framförum í Spænsku.  Ég þurfti sko ekki gúggletranslate til að skilja að mæting væri stundvíslega klukkan átta um morguninn “því annars lendum við í rigningunni sem dembist yfir skóginn eftir hádegi”.  Við fórum snemma að sofa og vöknuðum við sólarupprás til að ná morgunmatnum og reyna að versla örlítið meira af moskítóvörn og batterí fyrir vasaljósin.  Enginn var mættur á ferðaskrifstofunni klukkan níu svo ég hringdi og í Pedró sem sagðist vera alveg að koma.  Klukkan tíu var ég farinn að gúggla símanúmer hjá kvörtunardeild Amazon en þá mætti Pedró ásamt fjölskyldu með pallbíl hlaðinn birgðum. Við biðum samt í einn og hálfann tíma í viðbót eftir bensínbrúsa, bananakippu, hrúgu af yuka eða cassavarót, vatnsbrúsa og ýmislegt sem þarf fyrir 10 manns í 5 daga ævintýraferð inn í Amazon.  Börnin voru svöng og þurftu á klósett en við gátum hvergi stoppað þar sem ég átti í erfiðleikeikum með að fylgja pallbíl Pedrós sem var langt á undan okkur og gsm samband í Amazon takmarkað. Sem betur fer stoppaði Pedro í litlu olíuþorpi til að fá sér ís.  Börnin tóku eftir að hann var eini sem fékk ís. Ekki konan hans, börnin hans né hinir starfsmennirnir sem sátu úti á pallbílnum í sólinni.  Ég útskýrði að í þróunarlöndum tíðkaðist meira að stjórnendur og ráðamenn gætu verið ósanngjarnir og jafnvel sjálfhverfir eða dónalegir.  Börnin spurðu strax í einlægni hvort slíkt tíðkaðist nokkuð á Íslandi.  Ég sagði þeim bara að Pedró væri líka fatlaður og að þau ættu nú bara að hætta að spyrja svona mikið.

Eftir einn og hálfan tíma komum við að árbakka þar sem bátar voru hlaðnir.  Þar hittum líka samferðamenn okkar sem voru tvær ekvadorskar frænkur með þrjá stálpaða unglinga, einkaleiðsögumaðurinn þeirra og Yuki.  Yuki var Japanskur kjarneðlisfræðingur sem hafði nýlokið doktorsprófi og því í nokkurra vikna heimsreisu áður en vinnan tæki við það sem eftir ævinnar í Kyoto. Á þremur vikum var hann búinn með Evrópu, Ástralíu og Suðaustur Asíu og var að klára Suður-Ameríku á einni viku.  Við vorum strax sammála að Yuki væri eins og geimvera sem hafði tekið sér bólfestu í þennan japanskan líkama og að það væri ástæðan fyrir hvað hann átti enn erfitt með samhæfingu útlima.

Þegar við vorum búin að skrá okkur inn í þjóðgarðinn settumst við í bátana og fengum afhent byggingarplast sem átti eftir að koma sér vel því um þrjú leytið helltist volg rigningin og á þremur tímum urðum við öll blaut undir plastinu.

Á leiðarenda blasti við okkur risastór kofi og yfirbyggt veranda með eldhúsi og vatnsturn.  Sterkbyggður timburrampur með handrið sitt hvoru megin lá frá ánni upp að húsunum.  Pedró sem sat upp á kassastæðu á einum bátnum stýrði lönduninni en þegar allir voru komin í herbergin sín klöngraðist hann einn upp úr bátnum og setti á sig heimagerðar spelkur sem gerðu honum kleift að vagga sér  upp rampinn að skýlinu hjá eldhúsinu.  Hann gaf skipanir og dæla fór fljótlega í gang og þá tilkynnti hann að við mættum fara í sturtu og hvíla okkur áður en farið yrði í kvöldskógarferð. Við lágum undir netunum í kojunum okkar bak við skilrúmið okkar og hlustuðum fyrst á ekvadorsku frænkurnar skrækja yfir köldu sturtuvatninu en svo kom Yuki sem öskraði og orgaði af sársauka undir bununni.  Yuki var ekki lengur geimvera, hann var skemmtileg geimvera.

Göngutúr inn í frumskóg að næturlagi hljómar ljúft en staðreyndin er hinsvegar sú að ganga um Amazon frumskóg krefst einbeitingar því hver trjábolur eða trjágrein er með sveppagróður, bakteríur, eiturefni, ertandi broddar, ertandi klístur, kóngulær, maura, termíta eða eitthvað sem náttúrunni datt í hug að hanna til verjast ágangi túrista.  Hvergi er heldur æskilegt að staldra lengi við og hvíla sig þar sem flugur, moskito og önnur skordýr renna á hljóð og lykt.   Fyrsti göngutúrinn var í myrkri og gengnir um 3 hundruð metrar á tveimur tímum.  Þetta var stórkostlegt því á nokkurra metra fresti upplifðum við köngulær, froska, ókunn hljóð, sjálflýsandi “avatar” laufblöð.  Við stóðum í miðjum draumi… líffræðings.  Yuki var aftastur og hvarf oft úr augsýn því var svo lengi að taka myndir.  Við höfðum ekki miklar áhyggjur af honum þar sem við sáu myndavélaflassið lýsa upp skóginn reglulega en leiðsögumaðurinn þurfti reyndar að sækja hann tvisvar þegar Yuki fann ekki stíginn til okkar.
Snemma morguninn eftir var farið í 5 tíma leiðangur.  Siglt var um ánna og að Cuyabeno lóninu og svo gengum við lengst inn í frumskóginn í leit að öpum, drullu, leðju, termitaturnum, pollum, lækjum og maurum með sítrónubragði!  Dóra og börnin voru kannski ekki jafn spennt og ég Yuki sá um kvíðastillandi skemmtiatriði fyrir hópinn.  Mér fannst hann nokkuð kaldur að rölta bara einn út í buskann reglulega og vera alltaf jafn rólegur þegar leiðsögumenn komu að ná í hann eða færa hann fremst í röðina svo við gætum hjálpast að við að passa hann.  Við gengum lengi vel út fyrir almenna göngustíga Yuki náði að villast þrisvar og taka einn leiðsögumanninn með sér í bólakaf þegar hann datt í lækjarhyl.   Við fundum apahóp í trjátoppum og fengum öll karamellu í nesti. Yuki náði að rífa úr sér fyllingu með karamellunni sinni og var fljótlega farinn að láta á sjá.  Hann orgaði af sársauka, dróst aftur úr og týndist reglulega.  Aftasti leiðsögumanninn sá alfarið um hann en í eitt skiptið rauk hann fram úr okkur og þá vissi ég að Yuki væri án eftirlits.  Leiðsögumannaeðlið í mér fór þá að fylgjast með honum og þegar ég var hættur að heyra í sársaukastunurnar fór ég að lítast eftir honum og fann hann um fimm metra frá stígnum.  Hann var orðinn skrítinn á svipinn og ákveðinn léttir í stununum sem hann gaf frá sér.  Kinnin var svört niður á höku og dökkir sleftaumar láku niður á skyrtuna.  Hann gat varla talað en náði þó að útskýra að leiðsögumaðurinn hefði gefið honum rót til að tyggja sem olli þessa deyfingu.  Yuki fékk að fara á undan okkur í bátinn með aðalleiðsögumanninum svo við gætum leikið okkur í tarzan greinum.  Eftir hálftíma Tarzanleik komum við að bátnum tilkynnti skipstjórinn að aðal-leiðsögumaðurinn Chan væri að leita að Yuki sem hafði farið að taka myndir.  Adrew hinn leiðsögumaðurinn fór líka að leita en við voru beðin að bíða í bátnum.  Tuttugu mínútum síðar birtist Yuki glaður í bragði japlandi á rótinni en svo þvoglumæltur að það skildi enginn það sem hann sagði.  Geimverur eru krútt.  Seinni partinn fórum við sjá bleika höfrunga, og fórum í sund-eltingarleik í lóninu.  Einmitt þar sem Anaconda kyrkislöngur liggja í dvala á þessum árstíma.  Sund- eltingarleikur er þannig  að sá sem er´ann kafar í brúnleitt fljótið til að laumast undir hina og grípa um ökklana.  Þetta er ótrúlega spennandi þar til maður er´ann og þarf að kafa í áttina að anakondum og píranafiskum.  Í rauðglóandi sólsetri var þessi litli hópur manna og geimvera orðinn að einni stóri fjölskyldu.

Skipulagið er metnaðarfullt svo um kvöldið fórum við að leita krókódíla og næsta morgun var farið í fuglaskoðun við sólarupprás.  Morguninn eftir nennti engin nema ég og Yuki með 3 leiðsögumenn en engan sem gat þýtt úr indíánaspænsku yfir á ensku. Ég þýddi allt fyrir Yuki. “this is a big vegetarian monkey” this is a vegetarian bird”, this is a vegetarian fish”… og svo grínlaust á heimleið sá ég “hipstera” smáapafjölskyldu á trjágrein (örugglega vegan). Ég náði að horfa á þau í um fimmtán sekúndur eða þar til Yuki fældi þau burt með öskri.  Karldýrið ekki stærri en þumalfingur með ljósan makka og ljóst skegg stóð fremst á trjágrein sperrtur í sólinni.  Hann starði í augun á mér og gaf til kynna að þetta yrði okkar síðasta ef kæmum nær.  Á meðan laumuðust ungarnir og kvendýrin bak við lítið laufblað.  Ég náði engri mynd svo þessi sýn var eins og andleg vakning sem erfitt að miðla til annarra.

Eftir hádegi var farið í menningarferð í indíánaþorp.  Sjamaninn tók á moti okkur í fullum skrúða.  Hann með litað yfirvaraskegg og andlitið hvítt málaður eins og Mac Donalds trúðurinn.  Hann var í Cóca Cola bol að ofan en strápilsi að neðan og margar litríkar fjaðrir festra víðsvegar á honum.  Þótt þetta hljómi ekki traustvekjandi þá er virðingarverðasta starfið í mörgum indíánasamfélögum.  Einföld lýsing á starfi þeirra er að þau bera ábyrgð á líðan allra í þorpinu.  Einskonar blanda af lækni, presti, sálfræðingi og félagsráðgjafa.  Þeir viðhalda vitneskju um lækningaraðferðir gegn flestu kvillum,  þeir sjá um athafnir eins og manndómsvígslur eða að gefa fólk saman og jafnframt gefa blessun sína á sambúðarslit ef svo ber til.  Þeir hlúa að þeim sem þjást af þunglyndi eða hverskonar andlegri vanlíðan.  Starf shamans  getur hættulegt því ef þeir standa sig ekki eða verkefnin þeim ofviða þá geta afleiðingarnar orðið alvarlegar þar sem þorpsbúar geta átt til að snúast gegn shamaninn ef sjúkdómar herja á þorpsbúa eða ósættir vara lengi milli þorpsbúa.