Mundo er ferðaskrifstofa þar sem menntun, skemmtun, menning og þjálfun fara saman

UPPSELT! Perú 2017 – Amazon og Machu Picchu – nóvember 2017

50.000 Kr.499.000 Kr.

Það er einstök og ógleymanleg reynsla að ferðast um Perú. Og ekki er verra ef hægt er að komast hjá að eyða miklum tíma í ferðir á milli staða eða langar biðraðir á vinsælustu ferðamannastöðunum. Hér er í boði ævintýraleg ferð til merkra staða í Perú sem eru þó ekki endilega þeir fjölsóttustu meðal ferðamanna.

Clear
SKU: N/A Category:

Ferðin hefst í höfuðborginni Líma og þaðan er flogið til Cusco daginn eftir, hinnar fornu höfuðborgar Inkaríkisins. Eftir tvo daga í Cusco hefst þriggja daga gönguferð eftir Salkantay-stígnum til Santa Teresa. Þaðan er haldið til Aguas Calientes og loks til Machu Picchu, hinnar helgu borgar Inkanna hátt uppi í fjöllum. Á leiðinni er gist í þægilegum tjöldum (hvert fjögurra manna tjald er ætlað tveimur), þar er einnig tjald sem gegnir hlutverki borðstofu, annað er baðherbergi og hið þriðja eldhús. Með í ferð eru fylgdarmenn með hesta og leiðsögumaður.

Næst er flogið aftur til Líma og frá Líma til borgarinnar Iquitos í Amasónhéraðinu. Eftir skoðunarferð um borgina er siglt inn í frumskóginn og gist í þrjár nætur á þægilegu gistihúsi. Þaðan er farið í gönguferðir og siglingar  um ár og vötn ásamt leiðsögumönnum sem þekkja vel jurta- og dýraríkið á þessu svæði. Á þrettánda degi er haldið langt inn í frumskóginn og gist á tjaldstæði þar sem aðstæður til að skoða fjölbreytt dýralífið eru sérlega góðar. Daginn eftir er haldið til hádegisverðar á gistihúsið og því næst til Iquitos, en þaðan er flogið til baka til Líma.

Ferðatímabil: 8.-23. nóvember
Fararstjóri: Margrét Jónsdóttir Njarðvík
Verð: 699.000 kr á mann m.v. tvo saman í herbergi/tjaldi. Aukagjald fyrir einbýli 50.000 kr.
Fjöldi: lágmark 12 – hámark 16

Innifalið:

 • Allar ferðir, flug til og frá Íslandi til Lima (millilending), flug innanlands í Perú samkvæmt ferðalýsingu
 • Hótel í gæðaflokki (lágmark 3 stjörnur)
 • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu
 • Skipulagning og gisting á Salkantay-leiðinni
 • Skipulagning og gisting í frumskógarferðinni
 • Fararstjórn. Enskumælandi leiðsögumenn
 • Aðgangseyrir að Machu Picchu

Ekki innifalið:

 • Drykkir
 • Þjórfé
 • Máltíðir sem eru ekki tilgreindar í ferðalýsingu (á einkum við þar sem margt er í boði)
 • Ferðatryggingar
 • Aðgangseyrir að öðrum stöðum en Machu Picchu
 • ESTA heimild til USA og eTA til Kanada (v/tengiflugs)

Ferðatilhögun:

Dagur 1: Flogið til Lima með einni eða tveimur millilendingum

Dagur 2: Lent eldsnemma að morgni í Lima. Þaðan er haldið beint áfram í innanlandsflugi til Cusco og beint á hótelið í San Blas hverfinu. Skoðunarferð um bæinn síðdegis. Matur ekki innifalinn.

Dagur 3: Frjáls dagur í Cusco en hægt er að skipuleggja skoðunarferðir fyrir þá sem þess óska, s.s. til Pisaq, á Inkarryi-safnið, fornleifasvæðið Tipón í Valle Sur, til Pikkillacta, fyrrum heimkynna Wari-indíána, eða til Andahuaylillas. Matur ekki innifalinn.

Dagur 4: Haldið frá Cusco klukkan fimm að morgni í áttina til þorpsins Mollepata. Þaðan komust við í Marcoccasa skarðið í 3400 metra hæð þar sem gangan hefst. Þar hittum við  teymið sem sér um okkur á göngunni.  Eftir að hafa komið farangri okkar fyrir á hestunum er gengið upp á Salkantay sléttuna í 3900 metra hæð. Tjaldbúðir verða reistar andspænis hrikalegum norðurvegg Salkantay-fjalls og við rætur hins snævi þakta Humantay-fjalls en ganga þangað upp er valkvæður aukaleggur upp í 4400 metra hæð. Unnt er að fara upp í hlíðar Humantay að lóni sem þar er því þaðan er undurfagurt útsýni yfir gilið. Matur innifalinn. Hækkun 500m – 6 stunda ganga.

Dagur 5: Gengið eftir Salkantay-skarði í 4600 m hæð en þaðan er stórbrotið útsýni yfir norðurhlíðar Salkantay. Síðan hefst gangan niður af hásléttunni uns komið er í hitabeltisskóginn í Challway, þar sem tjaldbúðir hópsins hafa verið settar upp. Í Collpapampa er hægt að slaka á í heitum laugum. Hækkun 600 m. Lækkun 1000 m. 7 klukkustunda ganga. Matur innifalinn.

Dagur 6: Gengið er niður að kakó-, kaffi- og ávaxtaekrum. Í dalnum vaxa orkídeur, brómelíur og fjölmargar aðrar hitabeltisjurtir. Heilsað er upp á heimamenn í Wiñapoco (2650 m) og La Playa (2100 m) þar sem við dveljum í tjaldbúðum. Í Lucmabamba gefst hópnum tækifæri til að kynnast kaffiræktendum og því flókna ferli sem kaffiframleiðsla er. Lækkun 1500 m. 7 klst. ganga. Matur innifalinn.

Dagur 7: Dásemdardagur. Gengið er upp að helgistaðnum Llaqtapata en þar er útsýnið stórkostlegt yfir Machu Picchu og skógi vaxna fjallstindana umhverfis. Þaðan er gengið niður að Hidroeléctrica og farið með lest til Aguas Calientes. Gist verður á hóteli (http://www.gringobills.com).  Hækkun 1000 m. Lækkun 1000 m. 5 klukkustunda ganga. Matur innifalinn.

Dagur 8: Farið á fætur fyrir allar aldir svo að hópurinn verði meðal fyrstu gesta dagsins í Machu Picchu, hinni helgu borg Inkanna. Leiðsögumenn sýna hópnum borgina og síðan geta gestir skoðað sig um að vild. Að lokinni heimsókn er ekið niður eftir með rútu og lest tekin til Ollantaytambo. Þaðan er farið með rútu til Cusco og komið þangað um kvöldið. Matur ekki innifalinn.

Dagur 9: Flogið til Lima snemma morguns og þaðan annað flug til Iquitos. Bærinn skoðaður og því næst er siglt á þægilegum báti í 3 klst inn í skóginn. Matur innifalinn.

Dagur 10: Morgunninn er notaður til gönguferðar um skóginn þar sem m.a. má sjá íkornapa, öskurapa og dvergapa og fjölmargar lækningajurtir sem vaxa á svæðinu. Eftir hádegisverðarhlaðborð verður farið í siglingu og hugað að hinum forsögulega sígaunafugli og píranafiskum. Sé heppnin með í för má ef til vill koma auga á jagúar eða flóðsvín eða tapíra. Á kvöldgöngu þetta kvöld eru froskarnir og körturnar áberandi, eftirlætisfæða kyrkislangna og tarantúla. Matur innifalinn.

Dagur 11: Haldið er áfram skoðun á dýralífi umhverfis gistihúsið. Sé heppnin með í för má ef til vill koma auga á jagúar eða flóðsvín eða tapíra. Matur innifalinn.

Dagur 12 og 13: Þennan dag förum við enn lengra inn í skóginn og gistum á afskekktu tjaldstæði. Þetta ævintýri veitir okkur tækifæri til að skoða stór spendýr í skóginum, fleiri dýr og plöntur. Á siglingunni til baka er höfð viðkoma í þorpinu San Juan de Yanayacu og heilsað upp á þorpsbúa. Gist verður á gistihúsinu. Matur innifalinn.

Dagur 14: Að loknum morgunverði í bítið um borð í bátnum er hægt að stinga sér til sunds í ánni þar sem hinir frægu bleiku höfrungar eiga heimkynni sín. Á þessum slóðum sést oft til stórvaxinna græneðla innan um risavatnaliljurnar. Eftir hádegisverð er siglt með hópinn til Iquitos og þaðan er flogið til baka til Líma. Morgunmatur og hádegismatur innifalinn.

Dagur 15: Frjáls dagur í Lima.

Dagur 16: Flogið heim með einni eða tveimur millilendingum.

 

greiða/staðfesta

staðfestingargjald, lokagreiðsla, aukagjald einbýli