2019 haust: Íran – Hinn forni heimur Persíu

Í þessari rúmlega tveggja vikna ferð munu opnast fyrir ykkur hliðin að einni elstu og merkustu menningu heimsins. Sagan, byggingarlistin, heimspekin, bókmenntirnar og síðast en ekki síst vingjarnlegt viðmót og gestrisni heimamanna eru lyklarnir að þessum áhugaverða heimi sem Íran og Persía hin forna hafa að geyma.

Ferðatímabil: 27. september – 12. október 2019
Fararstjóri: Ali Parsi
Verð: 645.000 kr á mann miðað við tvo saman í herbergi. Aukagjald fyrir einstaklingsherbergi: 50.000 kr.
Staðfestingargjald: 159.000 kr. (óafturkræft)
Farþegafjöldi: lágmark 10 – hámark 20.

Upplýsingar gefur Una Helga í s. 778 4646 netfang: unahelga@mundo.is

Ali Parsi hlakkar til að fá að leiða ykkur um sínar gömlu heimaslóðir og kynna ykkur fyrir öllu því magnaða sem Íran hefur upp á að bjóða. Hann hefur margra ára reynslu af því að ferðast með íslenska hópa til Íran og leggur metnað sinn í að gera ferðina eins ógleymanlega og hægt er. Í ljósi fyrri ferða getur hann fullyrt að upplifunin af því að heimsækja þetta fjölbreytta land með sína ríkulegu sögu er algjörlega einstök.

Innifalið:

  • Vegabréfsáritun
  • Öll fargjöld til, frá og innan Íran
  • Gisting í Íran sbr. ferðalýsingu með morgunverði og hálfu fæði – þ.e. annað hvort hádegis- eða kvöldverði
  • Sérstakur hágæða langferðabíll fyrir hópinn með loftkælingu
  • Flutningskostnaður
  • Aðgangur að öllum sögulegum stöðum og söfnum
  • Akstur til og frá flugvöllum í Íran
  • Mjög góður enskumælandi leiðsögumaður í Íran
  • Umsjón Ali Parsi frá upphafi til enda ferðar

Vinsamlega athugið: Gert er ráð fyrir að hver ferðalangur geri ráð fyrir 100 evrum fyrir viðbótarþóknanir (tips) fyrir íranska leiðsögumanninn, ökumann og aðstoðarfólk sem greitt er á síðasta degi ferðarinnar.

Ferðalýsing:

dagur 1
Morgunflug frá Keflavík til París eða Amsterdam þaðan sem flogið er í gegnum Istanbul með Turkish Air til Shiraz.

dagur 2
Lending í Shiraz kl. 01.00. https://en.wikipedia.org/wiki/Shiraz
Fulltrúi ferðaskrifstofunnar tekur á móti hópnum og fylgir hópnum á hótel í Shiraz. Shiraz er þekkt sem borg ljóðskálda, bókmennta, víns og rósa. Heill dagur fer í að kynnast
borginni bæði með rútu og fótgangandi. Við heimsækjum Nasir Ol Molk moskuna, sem þekkt sem bleika moskan og er víðfræg fyrir risastóra steinda glugga og skreytingar. Vakil Bazaarinn sem er í hjartað gömlu borgarinnar. Þar er að finna fallega, falda garða, baðhús, áningarstaði og kaupmenn sem selja persnesk teppi, krydd, handverk og antík.
Fyrsti persneski hádegisverðurinn er snæddur á veitingastað í sögulegu húsi sem eitt sinn var í eigu auðugrar fjölskyldu.
Karim Khan virkið verður heimsótt síðdegis, en þar voru bækistöðvar Zand konungsættarinnar frá 18. öld.
Um kvöldið verða hinir fögru listigarðar Baqe Eram heimsóttir en þeir eru dæmigerðir fyrir persnesku paradísargarða hefðina og skarta einnig fallegur fornum byggingum m.a. frá 13. öld.
Gist er í Shiraz.

dagur 3
Lagt af stað snemma morguns í dagsferð til Persepolis sem er 60 km norðaustur af borginni og á heimsminjaskrá UNESCO. Þar eru stórfenglegar rústir halla Achamena konunganna og persneska heimsveldisins (550 – 330 f.Kr.).
Miðdegisverður á þjóðlegum veitingastað í Persepolis.
Dalur konunganna (Neqsh-e- Rostam og Rajab) heimsóttur en þar eru fjögur konungleg grafhýsi höggvin inn í bergið. Snúið til Shiraz þar sem gist verður um nóttina.

dagur 4
Lagt af stað um morguninn í átt til hinnar fornu borgar Yazd ( 300 km) sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Ekið er á jaðri eyðimerkurinnar og í gegnum magnað landslag. Í Abarkooh, sem er á hinni fornu silkileið snæðum við hádegisverð í lautarferð undir beru lofti og í skugga 3500 ára gamals sýprus trés. komið við í leiðinni hjá rústum hins 3000 ára gamla borgarvirkis við Bayazeh þorp.
Um kvöldið er áð í Karavansarai sem er ævaforn áningarstaður í miðri eyðimörkinni á gömlu silkileiðinni. Um kvöldið njótum við gestrisni Baluchi fólks með tónlist og dansi og því lýkur með stjörnuskoðun á þakinu. Upplifunin að gista á þessum stað er engu lík.

dagur 5
Um morgurinn er lagt af stað til Yazd ( 30 km) sem þekkt er fyrir einstakan eyðimerkur-arkitektúr og gamlan grafreit Zaraþústra (Zoroastrean) trúaðra, en borgin er einmitt miðstöð þeirra í Íran. Eldmusterið og Jemeh moskan eru meðal merkra staða sem skoðaðir verða þennan dag auk þess sem rölt verður um þröng stræti hinnar fornu miðborgar.
Hádegisverður í gömlu fallegu húsi sem áður var baðhús (hammam). Vatnssafnið heimsótt en þar er sýnt hvernig Persar bjuggu til neðanjarðar vatnsveitu fyrir 3000 árum og leiddu hreint vatn úr fjöllunum inn í borgina.
Gist í Yazd í gamla héraðsstjórahúsinu eða á sambærilegum gististað.

dagur 6
Farið frá borginni í morgunsárið og ekið í átt að þessu litla þorpi sem er í miðri eyðimörk (275 km). Stoppað til að borða þjóðlegan hádegisverð eyðimerkurfólksins í pálmalundi í Bayazieh. Hér má sjá einstakar rústir 3000 ára gamals borgarvirkis. Ekið (35 km) til Garmeh sem er ævaforn vin í Dashte- Kavir salt eyðimörkinni. Í þessari eyðimerkurvin hafa ferðalangar áð um þúsundir ára m.a. á leið sinni austur til Kína.
Kvöldinu er eytt í sama anda og áfram fetað í fótspor ferðalanga á silkileiðinni við varðeld, tónlist og dans í félagsskap stjarnanna.

dagur 7
Snemma morguns er lagt upp í ferðina til Isfahan (400 km). Á leiðinni er komið við í forna þorpinu Anarak og hádegisverður snæddur í lautarferð í Nain sem er fræg fyrir Jame moskuna – eina glæsilegustu mosku í Íran – og þá fyrstu sem byggð var eftir innrás Araba í landið. Nain er líka fræg fyrir hágæða teppi og ullarvefnað sem þar er búinn til. Við heimsækjum teppaverkstæði til að sjá hvernig teppin eru búin til og hver veit nema við fáum að hnýta okkar fyrsta hnút í persneska vefnaðinn sem hefur borið út hróður landsins um þúsundir ára. Ekið til hinnar fögru borgar Isfahan þar sem gist verður
um nóttina.

dagur 8
Deginum eytt í borginni, sem eitt sinn var höfuðborg Persaveldis og ein sú stærsta í heimi. Isfahan átti sérlega glæsilegt blómaskeið sem höfuðborgar landsins á 16. og 17. öld (Safavied tíminn) og sér þessa víða merki. Meðal þeirra staða sem við upplifum í borginni:
● Naqsh-e Jahan torgið, en það er annað stærsta torg í heimi og
er umkringt einstökum og sögulegum byggingum.
● Shah og Sheik Lotfollah moskurnar og fagrar hallir Aliqapou.
● Rölt um stærsta og litríkasta bazaar í Iran og endað í helsta
verslunarhverfi borgarinnar Chahar baq.
Gist á hóteli í Isfahan.

dagur 9
Annar heill dagur í borginni og meðal þess sem við sjáum er:
● Eftir morgunverð á hótelinu er ekið til aðal moskunnar (Friday mosque) í gömlu borginni og gengið í gegnum gamla bazarinn á leið til aðaltorgsins.
● Höll hinna fjörtíu súlna heimsótt.
● Um kvöldið verða hinar frægu brýr og fornir garðar heimsóttir sem tengjast ánni Zaiander Rood sem rennur í gegnum borgina. Þar er m.a. að finna hin ómissandi tehús sem eru svo sterkur þáttur í íranskri menningu.
Gist á hóteli í Isfahan.

dagur 10
Dagurinn tekinn snemma til að heimsækja Jolfa, þann hluta borgarinnar sem hinn kristni minnihluti Armena byggði í byrjun 17. aldar og þar sem þau búa enn. Vank dómkirkjan og skemmtilegu kaffihúsin í Jolfa heimsótt. Áfram ekið til borgarinnar Kashan (63km).
Uppruna Kashan má rekja aftur um ein 9000 ár og er hún sögulega þekkt fyrir framleiðslu á hágæða flísum og leirmunum. Í nútímamálinu er orðið fyrir flís ( kasha) dregið af nafni borgarinnar. Í borginni heimsækjum við hina fallegu Fin garða sem eru elstu þekktu garðarnir sem enn eru lítt breyttir frá gömlu Persíu, bazaar og merkar byggingar. Um kvöldið er ferðinni heitið til Tehran.

dagur 11
Dagsferð til höfuðborgar Tehran. Morgunheimsókn til Golestan hallar Qajar veldisins og svo til Niavaran hallar hins liðna Shah. Ef hægt er verður einnig farið til Saadabad hallarinnar ásamt National Museum of Royal Jewellry.
Gist verður yfir nóttu í Tehran.

dagur 12
Á þessum kafla ferðalagsins verður upplifað öðruvísi landslag í samanburði við aðra viðkomustaði ferðalagsins – Grænt landslag!
Snemma morguns verður haldið frá Tehran til norðurhluta Írans í átt að Kaspianhafinu. Á leiðinni verður stoppað í hinu víðfræga þorpi, Masouleh. Þetta þorp var byggt í brekku þar sem jarðhæð hvers húss er í hæð við þak húsanna fyrir neðan. Þak hvers húss er þá í raun garður eða verönd nágrannanna – þetta staðareinkenni hefur laðað að sér margan ferðalanginn.
Síðdegisferð meðfram Kaspianhafinu að Astara, bæjar sem stendur á landamærum Írans og Azerbaijan.
Gist yfir nóttu í Astara.

dagur 13
Morning Morgunferð til Tabriz, höfuðborgar Azzarbayejan í íran og stoppað verður einnig Ardabil.
Gist yfir nóttu í Tabriz

dagur 14
Skoðunarferð um Tabriz. Síðdegis ferðalag til þorpsins Kandovan sem er aðeins í klukkutíma fjarlægð.
Heimilin í Kandovan, sem kölluð eru “Karaan” af heimamönnum, eru grafin inn í hrauni líkt og í tyrkneska héraðinu Cappadocia.
Gist yfir nóttu í Kandovan.

dagur 15
Skoðunarferð um Kandovan og nærliggjandi svæði. Þegar kvölda tekur liggur leiðin aftur til Tabriz flugvallar þar sem förinni er heitið heim til Íslands.

dagur 16
Næturflug með Turkish Air til tengiborgar í Evrópu með millilendingu í Istanbul. Áfram til Íslands sama dag.

 

Deila á facebook