fbpx

2019: Perú, Machu Picchu, Amazon o.fl.

Er komið að því að láta drauminn rætast? Langar þig í ævintýraferð og búa til minningar fyrir lífstíð? Ferð Mundo um Perú og Amazonfljótið er heldur betur til þess fallin! Machu Picchu er eitt af undrum veraldar, sigling á Amazonfljótinu kynnir þig fyrir framandi dýralífi, Colca gilið er mun dýpra en Grand Canon og Arequipa er talin fallegasta borg Perú svo ekki sé talað um hina undurmerku borg Lima. Við skipuleggjum ferðina þannig að þú færð tækifæri til að kynnast lífi innfæddra, kynnast því áhugaverðasta sem Perú hefur uppá að bjóða og fara út fyrir þægindaramman á örugga vegu. Þetta er ferð sem leyfir þér að ferðast innanfrá um Perú með Margréti Jónsdóttur Njarðvík spænskufræðingi og vinum hennar.

Ferðatímabil: páskar 2020, nákvæm dagsetning auglýst síðar
Fararstjóri: Margrét Jónsdóttir Njarðvík
Verð: tilkynnt síðar
Staðfestingargjald: tilkynnt síðar
Farþegafjöldi: lágmark 12 – hámark 20.

Upplýsingar gefur Margrét í s. 691 4646 netfang: margret@mundo.is

Perúferðin í ár höfðar sérstaklega til þeirra sem eru forvitnir, vilja fara til Machu Picchú, skoða menningu Inkanna, ferðast innanfrá um landið, njóta stórbrotinnar náttúru, sigla á Amazonfljótinu, veiða piranafiska og skoða letidýr og apa. Þetta er ferð fyrir þá sem vilja hjálpa okkur að gefa peninginn sem við eigendur Mundo – Hálfdán og Margrét – fengum í brúðargjöf og ætlum að nota til að láta gott af okkur leiða á lítilli eyju á Amazonfljótinu. Ef þú átt stórafmæli, brúðkaupsafmæli eða vilt einfaldlega fagna sjálfum/sjálfri þér – þá gæti þetta verið ferð fyrir þig. Ferðin í ár er þannig skipulögð að þeir sem vilja ganga Inkastíginn gera það á meðan hinn helmingur hópsins skoðar dalinn helga. Ferðin getur því bæði verið göngu og menningarferð eða einungis menningarferð. Þetta er til dæmis fullkomin ferð fyrir hjón sem eru í misgóðu líkamsformi – annað gengur og er í þeirri ferð í 3 daga en svo sameinast hóparnir. Því krefst ferðin þess ekki að þú sért í neinu sérstöku líkamsformi heldur einungis þess að þú sért forvitin/n, sveigjanlegur og skapgóð/ur.

Innifalið:

 • Allar ferðir, flug til og frá Íslandi til Lima (millilending), flug innanlands í Perú samkvæmt ferðalýsingu
 • Hótel í gæðaflokki (lágmark 3 stjörnur)
 • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu
 • Skipulagning og gisting í dalnum helga
 • Gönguferð eftir Inkastíg og fullt fæði á göngunni
 • Skipulagning og gisting í frumskógarferðinni
 • Fararstjórn. Enskumælandi leiðsögumenn
 • Aðgangseyrir og lest að Machu Picchu

Ekki innifalið:

 • Drykkir
 • Þjórfé
 • Máltíðir sem eru ekki tilgreindar í ferðalýsingu (á einkum við þar sem margt er í boði)
 • Ferðatryggingar
 • Aðgangseyrir að öðrum stöðum en Machu Picchu
 • ESTA heimild til USA og eTA til Kanada (v/tengiflugs)

Ferðalýsing:

Dagur 1
Flogið frá Reykjavík til JFK – um kl 16:30 – síðar um kvöldið, eða rétt fyrir miðnætti er flogið til Lima í næturflugi.

Dagur 2
Lent í Lima klukkan 6 að morgni (8 klst. munur) og haldið áfram í flugi til borgarinnar Arequipa klukkan 9:45 og lent kl. 11:20. Við hvílum okkur vel að loknu ferðalagi og söfnum kröftum fyrir ævintýri næstu daga. Í Arequipa tekur Daníel á móti okkur en hann verður fararstjórinn okkar næstu daga. Farið er í skoðunarferð um Arequipa en margir segja að hún sér fallegasta borg Perú. Oft er hún nefnd hvíta borgin því húsin eru byggð úr steini sem er afar ljós. Tignarlegt er að horfa á eldfjallið Misti (rúmlega 5000 metra hátt) gnæfa yfir bæinn en han liggur í 2300 metra hæð. Í Arequipa eru undurfalleg hús frá nýlendutímanum og iðandi menning. Dvalið er á hóteli í miðbænum.

Dagur 3
Morguninn er notaður til að skoða úthverfin La Campiña Arequipeña og Yanahuara sem og nokkur önnur leyndarmál borgarinnar. Eftir hádegismat á „picantería‟ er ekið til Colca og dvalið á hóteli þar sem er jarðhiti og eftirsótt spa. Þar er dvalið í 2 nætur og við njótum þess að baða okkur í heitum pottum. Colca gilið er 3850 metrar á dýpt, raunar mun dýpra en Grand Canyon.

Dagur 4
Uppstreymið í gilinu er fullkomið fyrir hinn mikilfenglega fugl kondórinn en það er stærsti fljúgandi fugl á vesturhveli jarðar. Vænghafið spannar yfir 3 metra og nær hann allt að 11 kg þyngd. Þennan dag ökum við út að Cruz de Condor og fylgjumst með þessum ótrúlega fugli. Á leiðinni til baka heimsækjum við tvö Inkaþorp og kynnumst lífi Inkanna í dalnum. Um kvöldið gefst tími til að fara í heita potta, nudd eða gönguferð.

Dagur 5
Morgunninn er frjáls og síðdegis er haldið aftur til Arequipa. Gist verður á sama hóteli þar og við fáum fínan kvöldverð.

Dagur 6
Við fljúgum frá Arequipa til Cuzco kl 8:10. Cuzco var höfuðborg Inkaveldisins sem Spánverjar brutu niður og lætur borgin engan ósnortinn. Við höfum okkur hæg þennan daginn enda þurfum við að venjast því að vera í 3400 metra hæð. Létt ganga um miðbæinn er passleg. Við gistum á Niños hótelinu en það er í gömlu nýlenduhúsi. Í stað þess að gista á fínni hóteli eins og í Arequipa gistum við í gömlu klaustri (hreint, fallegt, sögulegt og vel upp gert) og rennur allur hagnaðurinn af hótelinu beint til barna sem minna mega sín. Rekstur hótelanna tveggja styður við líf 600 barna og sér til þess að þau fái mat og menntun.

Dagur 7
San Pedro markaðurinn í Cuzco er heimsóttur og nokkar minjar umhverfis Cuzco eins og Sacsayhuaman og Tambomachay. Síðdegis er haldið í dalinn helga og fer því að styttast í að þið nálgist drauminn Machu Picchu. Í dalnum er gist hjá bændum þannig að við kynnumst kaffi og maísrækt og búskaparháttum. Gistingin er rekin af Þjóðverjum svo allt er tandurhreint og fínt.

Þeir sem ganga Inkastíginn taka daginn snemma og halda af stað hina frægu Salcantay leið. Allur farangur er trússaður á hestum sem fara með okkur ásamt leiðsögumönnum, gist er í tjöldum, kokkur er með í för og þurfum við einungis að bera það sem við þurfum fyrir daginn.

Dagur 8
Næstu tvo daga notum við til að skoða dalinn helga og skoðum Moray, Salineras, Pisa cog Ollantaytambo. Daníel býr í dalnum og munum við njóta gestrisni hans og þekkingar. Þar að auki kynnumst við lífi fólks í dalnum. Við brögðum á Chicha drykknum lærum sapiot leikinn og fleira. Lögð er áhersla á að ferðast innanfrá um dalinn og við fáum að næla í hádegismatinn okkar út í matjurtagarði.

Salcantay leiðin – gist í tjöldum

 

Dagur 9
Helgi dalurinn – menning og fornminjar.

Salcantay leiðin – gist í tjöldum

Dagur 10
Machu Picchu. Við höldum inn til Aguas Calientes með lest og fáum sérstakan leiðsögumann til að leiða okkur um þessar merku slóðir. Machu Picchu er eitt af undrum veraldar, hin týnda borg Inkanna sem hefur varðveist svo undursamlega. Deginum er varið í Machu Picchu og um kvöldið höldum við aftur í gistinguna í dalnum helga. Þar tekur andalæknir á móti okkur og verður hann með Pachamama (móðir jörð) athöfn fyrir hópinn.

Dagur 11
Haldið til Cuzco eldsnemma til að taka flug til Iquitos kl. 9:20. Iquitos er stórborg sem einungis er hægt að sigla til eða fljúga. Þangað liggja engir vegir. Í Iquitos bíður okkar bátur sem siglir með okkur á fljótinu að dásamlegu hóteli við fljótsbakkann Muyuna Lodge. Gist er í litlum húsum með mjög góðum fuglanetum. Farið er í göngu síðdegis.

Dagur 12
Farið er í siglingu eftir fljótinu og göngu þar sem dýralífið er skoðað. Hægt er að sjá letidýr, veiða píranafiska, sex tegundir af öpum og alls kyns dýr. Sérfróðir leiðsögumenn fara með okkur í ævintýri – eitt fyrir hádegi, annað eftir hádegi og svo að kvöldi til (þar sem við kíkjum á krókódílana í fljótinu)

Dagur 13
Siglt er til litlu eyjarinnar Buenos Aires – en þar búa nokkur hundruð manns. Íbúarnir lifa af landinu og komast þannig vel af. Hins vegar vantar allt til alls og ætla Margrét og Hálfdán að eyða peningunum sem þau fengu í brúðkaupsgjöf til að styðja við menntun barnanna á eyjunni. Farþegar sem vilja fá að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni, það er að segja – hjálpa okkur að eyða peningnum í gott málefni.

Dagur 14
Náttúruskoðun á Muyuna Lodge.

Dagur 15
Haldið er frá Muyuna og siglt aftur til Iquitos. Þar fáum við nokkra klukkutíma til að skoða Iquitos. Bærinn er merkilegur fyrir margra hluta sakir og þeir sem flytjast út úr frumskóginum flykkjast þangað. Hin þekktu fljótandi hús eru einmitt í Iquitos. Flogið til Lima klukkan 20:15 Gist í Miraflores hverfinu.

Dagur 16
Farið er í morgungöngu um Miraflores og skoðunarferð í miðbæinn.

Dagur 17
Frjáls dagur í og flogið til New York rétt fyrir miðnætti.

Dagur 18
Lent í New York snemma morguns. Deginum varið í stórborginni og haldið til Íslands kl 20 um kvöldið. Hægt er að framlengja í New York en slíkt þarf að taka fram við bókun ferðar. Lent á Íslandi að morgni næsta dags.

Deila á facebook