Hefurðu gaman að því að prjóna og kynnast siðum og menningu í öðrum löndum? Elskarðu að læra nýjar aðferðir og tækni? Viltu verja tíma með fólki með sama áhugamál? Þá er þessi ferð mögulega draumaferðin þín.
Í þessari ferð förum við í ævintýralega prjóna- og menningarreisu. Sitjum námskeið á ýmsum stöðum svo sem söfnum, byggðasöfnum, menningarsetrum, handverkshúsum og víðar, lærum af lettneskum prjónakonum, fáum kynningar á siðum, söngvum, menningu og þjóðbúningum auk þess að smakka þjóðlegan mat og mun allt þetta gefa okkur innsýn inn í lettneska menningu. Heimsækjum handverkshús og vinnustofur listamanna og víða gefst tækifæri til að kaupa prjónavörur og annað vandað handverk beint frá handverksfólkinu sjálfu. Ferðirnar eru unnar í samstarfi við þjóðbúningamiðstöðina Senā Klēts í Riga en stofnandi hennar er Maruta Grasmane höfundur ,,Mittens of Latvia“. Verkefnastýra Sena Klets, Ziedite Muzis er með okkur stóran hluta ferðarinnar en hún er sérfræðingur í öllu sem viðkemur lettneskum þjóðbúningum og handverki tengdu þeim. Hótelin eru ekki af verri endanum en bæði í Liepaja og Riga gistum við á nýuppgerðum hótelum í gömlum og fallegum byggingum
Gott að vita
-
Dagný Hermannsdóttir. Hún er handavinnukennari að mennt, forfallin handavinnukona og hefur séð um fararstjórn í prjónaferðunum okkar við góðan orðstír.
-
7.-13. júní 2025
-
329.000
-
35.000
-
82.200
-
fyrir 25. apríl 2025 - greiðsluseðill sendur í heimabanka
Í Lettlandi sköpuðust einstakar hefðir í vettlingaprjóni. Hefðin var að ungar stúlkur prjónuðu fjöldan allan af vettlingum og söfnuðu í kistil til að eiga áður en þær gengu í hjónaband. Konur lögðu gríðarlegan metnað í að hanna mynstur og að prjóna einstaka vettlinga og munstrin voru fjölbreytt og full af táknum. Hefðin var að brúðurin færði brúðgumanum og fjölskyldu hans, presti og þeim sem höfðu hlutverk í athöfninni eða veislunni vettlinga við giftingu. Vettlingar tengdust einnig alls kyns hjátrú og siðum og mismunandi hefðir sköpuðust milli héraða. Vettlingar urðu líka að nokkurs konar gjaldmiðli og voru mikils metnir og gjarna notaðir sem greiðsla fyrir hitt og þetta. Skrautlegir vettlingar voru gjarna hengdir við belti sem skraut og eru mikilvægur hluti af þjóðbúningahefðum Letta. Í Lettlandi hafa því varðveist ótrúlega fjölbreytt og mörg vettlingamunstur. Enn í dag eru vettlingar mikils metnir í Lettlandi og áhersla lögð á að halda þekkingunni við og víða eru starfandi prjónahópar þar sem prjónarar geta lært hver af öðrum.
Við hefjum ferðina í Riga þar sem við förum á stærsta handverksmarkað ársins og heimsækjum helstu og skemmtilegustu garn og prjónabúðir í Riga. Stærstan hluta ferðarinnar dveljum við í indælum strandbæ sem heitir Liepaja og er í Kurzeme héraði, en þaðan eru varðveittir hvað flestir og skrautlegastir vettlingar. Við prjónum á nýjum stað á hverjum degi, kynnumst menningu og lærum um prjónahefðir. Það verður gert vel við okkur í mat og er hann innifalinn í verði utan tveggja hádegisverða og eins kvöldverðar í Riga.