fbpx

Heilsa og vellíðan kennara í fyrirúmi – rödd, sál og líkami.

Er ekki tilvalið að láta dekra við sig að utan sem innan í lok annasams vetrar, næra líkama, sál og anda? Hljómar það ekki unaðslega að sitja fyrirlestra um vellíðan í starfi, taka léttar æfingar með sjúkraþjálfara í sundlaug eða í fjallshlíðum, læra um heilbrigða raddbeitingu með margreyndri söngkonu, raddþjálfara og skemmtikrafti?

Ef svarið er já, skoðaðu þá gimsteininn í menntaferð Mundo með Andra Bjarnasyni sálfræðingi, Rósu Kristínu Baldursdóttur söngkennara og söngkonu og Unni Bryndísi Guðmundsdóttur, sjúkraþjálfara.

Fátt er mikilvægara í starfi með börnum og unglingum en að þeir sem að því standa, séu líkamlega og andlega vel á sig komnir og með jákvæða, sterka og heilbrigða sjálfsmynd. Sjaldan hefur starf kennarans verið jafn krefjandi og á okkar tímum. Kulnun í starfi verður æ algengari með líkamlegum og andlegum einkennum örmögnunar. Á þessu námskeiði verða kynntar margvíslegar leiðir til úrbóta og ekki síður til að fyrirbyggja slíkt ástand. Andri Bjarnason, sálfræðingur hjá sálgæslu-og sálfræðiþjónustunni Haf, býður upp á viðtöl, fyrirlestra og hópavinnu með jákvæðri sálfræðilegri nálgun að starfi kennarans. Í því felst að skoða styrkleika og sjálfsmynd í starfi, leiðir til að auka starfsánægju og sporna við streitu.

Vatnsleikfimi, streitulosandi æfingar, líkamsstöðuæfingar og gönguferðir undir handleiðslu Unnar Bryndísar Guðmundsdóttur sjúkraþjálfara í Gáska.

Röddin er eitt mikilvægasta atvinnutæki kennara og það skiptir máli að fara vel og skynsamlega með hana. Röddin er hins vegar líka hljóðfæri sem býr yfir endalausum möguleikum. Að kynnast henni betur og ná valdi á henni veitir mikla gleði, eykur sjálfstraust og almenna vellíðan. Boðið verður uppá fræðslu um þetta merkilega fyrirbæri sem við getum öll nýtt okkur en fyrst og fremst gerum við æfingar sem hjálpa til að skilja hvernig röddin virkar, hvernig við getum aukið raddsvið og styrk. Að sjálfsögðu prófum við okkur áfram með tengsl tal-og söngraddar; staðreyndin er sú að ALLIR sem hafa þokkalega heilbrigð raddbönd geta sungið! Söngurinn leysir úr læðingi heil ósköp af hamingjuhormónum og við nálgumst sönginn á léttan og leikandi hátt með forvitnina og húmorinn að vopni. Kennari er Rósa Kristín Baldursdóttir söngkona og prófessor í söngkennslu við Pädagogische Hochschule Stefan Zweig Salzburg.

Kennslufyrirkomlag:

Námskeiðið er í formi fyrirlestra, æfinga, hópavinnu og umræðna ásamt því að nýta umhverfið í göngu, hópefli, samtöl sem og önnur verkefni. Námskeiðið er frá 12-18 klst., allt eftir því þátttökufjölda og hve kennsludagarnir eru margir og skiptist niður í 90-120 mínútna kennslulotur. Í hverri kennslulotu er ákveðið þema tekið fyrir.
Námskeiðsstjórar bjóða einnig upp á einkatíma gegn aukagjaldi.

Námskeiðið er styrkhæft

Um námskeiðsstjórana:

Andri Bjarnason
Andri er cand.psych/M.Sc í sálfræði. Hann hefur undanfarin ár rekið eigin sálfræðistofu en var áður sálfræðingur hjá Reykjavíkurborg. Fagleg nálgun Andra byggir á grunni hugrænnar atferlismeðferðar, en einnig er sjónarhorn jákvæðrar sálfræði skammt undan, en í því felst sú afstaða að gagnlegt sé að vinna með styrkleika, vellíðan og heilbrigði fólks þegar feta skal veginn til betra lífs. Andri er mikill útivistarmaður; fjallaklifrari, hlaupari og veiðimaður. Þá hefur hann ástríðu fyrir klassískum söng.

Rósa Kristín Baldursdóttir 
Rósa, Mag.art B.Ed, er söngkona búsett í Salzburg í Austurríki. Hún er prófessor við Pädagogische Hochschule Stefan Zweig Salzburg en stjórnar líka kvennakór og treður upp á tónleikum og í leikhúsum. 5 barna móðir, amma og eilífðarstúdent sem hefur brennandi áhuga á bókmenntum og listum, matargerð og góðum vínum. Hún notar hvert tækifæri til að ferðast og talar ensku, þýsku og ítölsku, dönsku, sænsku og stundum meira að segja frönsku ef mikið liggur við.

Unnur Bryndís Guðmundsdóttir
Unnur hefur starfað sem sjúkraþjálfari í 11 ár, bæði á Íslandi og í Danmörku. Hún hefur unnið við vinnuvistfræði, meðhöndlun og fræðslu vegna stoðkerfiseinkenna, starfað með gigtarsjúklingum og hjartasjúklingum, ásamt því að þjálfa mismundandi hópa í vatni. Unnur hóf ung að starfa með björgunarsveitum og þar kviknaði áhugi hennar á útivist og fjallgöngum. Hún reynir að nýta hvert tækifæri til útivistar og tengingar við náttúruna, á milli þess sem hún grípur í prjónana.