fbpx

Jákvæð sálfræði, uppbyggjandi samskiptatækni og vellíðan.

Viltu finna vegvísi að kjarna góðra samskipta og leiðir til að beina hugsuninni í jákvæðan farveg? Viltu öðlast betra jafnvægi og læra að njóta augnabliksins og eigin verðleika í fallegu umhverfi, þar sem náttúran veitir innblástur og innri ró? Þá gæti þetta verið námskeið sem hentar þér.

Á námskeiðinu verður kennd áhrifarík samskiptatækni sem nýtist, til að efla jákvæð, uppbyggjandi samskipti og félagsleg tengsl og hentar jafnt í vinnu með nemendum sem í starfsmannahópum og einkalífi.

Námskeiðslýsing:
Inntak námskeiðsins er að efla samskiptahæfni, kenna þátttakendum að beina athyglinni að því sem vel gengur og vel er gert og að rækta jákvæðni í eigin garð og annarra.  Notuð eru módel til útskýringa, sem sýna á einfaldan hátt hvernig hægt er að bregðast við þegar bölsýnin lætur á sér kræla, hvað það er sem gerist og hvernig beina má huganum í jákvæðan farveg á ný.

Fyrirkomlag námskeiðs:

Námskeiðið er í formi fyrirlestra, æfinga og umræðna og náttúran verður nýtt sem orkugjafi og innblástur til að njóta nýrra upplifanna. Þátttakendur fá gagnleg verkfæri sem nýtast í hópastarfi og nemendaviðtölum. Þau eru auk þess hjálpleg í foreldrasamstarfi, inn í starfsmannahópa og ekki síst í einkalífi. Hver dagur hefst á þakklætishugleiðslu. Námskeiðið er frá 10-12 klst. og skiptist niður í 90-120 mínútna kennslulotur með skylduæfingatíma milli kennslulota. Í hverri kennslulotu er ákveðið þema tekið fyrir.

Hegðunarlitaspjald er notað til að útskýra viðbrögð og hegðun, hvernig forðast má að detta í varnarhætti ef upp kemur ágreiningur og byggja þess í stað upp jákvætt samskiptamynstur.

Unnið verður með VIA styrkleika og styrkleikakort notuð á fjölbreyttan hátt. Það eykur sjálfstraust og ánægju að læra að þekkja eigin styrkleika og að beina athyglinni meðvitað að þeim.

Námskeiðsstjóri:

Námskeiðsstjóri er Ásthildur Kristín Garðarsdóttir en hún hefur haldið fjölda sjáfsræktarnámskeiða og fyrirlestra fyrir fjölbreytta hópa, t.d. kennara, nemendur, foreldra, fólk í starfsendurhæfingu og opna hópa. Hún er grunnskólakennari með 18 ára kennslureynslu og meistaragráðu í jákvæðri sálfræði frá háskólanum í Árósum. Hún hefur einnig bætt við sig námskeiðum í núvitund og núvitundarkennslu út frá áherslum jákvæðu sálfræðinnar. Meistaraverkefni hennar snérist um að fræða kennara um aðferðir til að auka velferð nemenda með því að efla samskiptafærni, áhugahvöt og bjartsýnt hugarfar.

Hún er mikill náttúru- og útivistarunnandi og áhugamanneskja um heilbrigðan og skemmtilegan lífsstíl.