Námsferð til Vínar – Sköpun, gleði og hugrekki

Listin að gera mikið úr litlu

Viltu skora kjarkleysi á hólm? Langar þig að tengjast eigin sköpunarhæfni og öðlast kjark til að láta til þín taka og í þér heyra? Finnurðu fyrir síauknum kröfum um að þú eigir að leysa úr læðingi sköpunarkraft nemanda þinna eða annarra skjólstæðinga en finnur þinni eigin sköpun aldrei farveg? Þá ættirðu að skoða námskeiðið Sköpun, gleði og hugrekki þar sem söguhetjan í eigin lífi er ávörpuð og henni boðið í ferðalag sem þarfnast hugrekkis en veitir gleði. Með hvers kyns skapandi aðferðum er farið í gegnum helstu hugtök hugrekkisfræðanna á þann hátt að vinnan nýtist einstaklingunum sem sækja námskeiðið en ekki síður nemendum þeirra og skjólstæðingum þegar heim komið.  Að skapa er að búa til mikið úr litlu og sköpunarhæfni er því eitt hagnýtasta verkfæri hverrar manneskju, verkfæri sem þarf kjark til að nýta en gefur margfalt af sér sé það notað.

Ferðatímabil 8.-15. júní 2019

Námskeiðsstjórar: Björg Árnadóttir og Ragnhildur Vigfúsdóttir

Verð miðað við tvo saman í herbergi eða kr. 259.000

Aukagjald fyrir einbýli kr. 49.000

Lágmarksfjöldi í ferðina er 20 manns.

Staðfestingargjald kr. 70.000 (óafturkræft)

Skráningarfrestur til og með 19. apríl 2019

Nánari upplýsingar hjá Dagrúnu, dagrun@mundo.is eða í síma 7884646

Markmið vinnustofunnar er að þátttakendur öðlist hugrekki til að skapa, finni gleðina sem fylgir því og öðlist ný verkfæri til að takast á við störf sín í skólastofunni. Að skapa er að búa til mikið úr litlu. Sköpun fer ekki aðeins fram á sviði lista heldur nýtum við sköpunarhæfnina við úrlausn allra verkefna okkar og því er hún einn hagnýtasti eiginleiki sem við erum gædd. En kjarkur er forsenda sköpunar og leitað er í smiðju dr. Brené Brown um kjarkinn og Paul Rebillot/Joseph Campbell um ferð hetjunnar. Fjölbreyttar og skapandi aðferðir eru notaðar til að hjálpa þátttakendum að finna og skilgreina söguhetjuna í eigin lífi og fást við þær ögranir og hindranir sem á vegi hennar verða. Síauknar kröfur eru gerðar til kennara að leysa úr læðingi sköpunarkraft nemenda án þess að þeim sjálfum séu gefin tækifæri til að skilja og efla eigin sköpunarfærni. Í þessari vinnustofu gefst þátttakendum tækitæri til að veita athygli og hlú að skapandi hæfileikum sínum.

Innifalið:

  • Flug
  • Gisting á hóteli með morgunverði
  • Akstur til og frá flugvelli að námskeiðsstað
  • Námskeiðið Sköpun, gleði og hugrekki

Ferðalýsing:

8. júní 

Flogið frá Keflavík kl. 9:35 og lending í Vínarborg um kaffileytið að staðartíma.

Ekið sem leið liggur heim á hótel í Hainburg an der Donau, sem er gamalt munkaklaustur en hefur verið breytt í hótel.

9. júní – Hvítasunnudagur

Hvíldardagur

10. júní –  fyrsti kennsludagur í kennslusal hótelsins

HÓPEFLI OG FÉLAGSÖRVUN
Félagsörvun (sociometry) er árangursrík aðferð til að skapa öfluga liðsheild sem er forsenda starfsárangurs. Sterk liðsheild býr yfir samheldni, eindrægni og hreinskiptni í samskiptum sem grundvallast á trausti sem verður til, vex og dafnar í andrúmslofti þar sem liðsmenn þora að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og tjá sig um skoðanir sínar og afstöðu. Traust ýtir einnig undir vilja liðsmanna til að setja sig í spor annarra og sjá aðstæður frá sjónarhóli þeirra en það stuðlar að uppbyggilegri úrlausn viðfangsefna.

Hver dagur endar á yfirferð þar sem hver og einn veltir fyrir sér hvernig nýta má afrakstur dagsins í eigin starfi.

11. júní – annar kennsludagur í kennslusal hótelsins

SKÖMMIN – HELSTI ANDSTÆÐINGUR SKÖPUNARINNAR
Kynntar verða kenningar dr. Brené Brown um hugrekki og hugtökin berskjöldun (vulnerability), samkennd (empathy) og skömm (shame). Rætt um leikvanginn og hvað hindrar okkur þegar við ætlum inn á hann. Einstaklings-, para-og hópverkefni unnin með listrænum aðferðum.

12. júní – þriðji kennsludagur í kennslusal hótelsins eða utandyra.

FERÐ HETJUNNAR
Umfjöllun um hugmyndafræði Joseph Campbell og aðferðafræði Paul Rebillot um þá hugmynd að allar sögur séu í grunninn þær sömu, bæði þær skrifuðu og lifuðu (the monomyth), að sömu lögmál gildi og aðalhlutverkin séu þau sömu í sögum fólks og lífi. Hver þátttakandi skilgreinir söguhetjuna í eigin lífi og vinnur með hana með aðferðum leiklistar og myndlistar.

13. júní – fjórði kennsludagur í kennslusal hótelsins

SKAPANDI OG LÍKNANDI SKRIF
Aðferðir ritlistar notaðar til að tengja saman aðferðirnar tvær sem kynntar hafa verið. Lagðar eru fyrir ritlistaræfingar til að hjálpa þátttakendum að komast yfir óttann við hvíta blaðið, skapandi ritlistaræfingar og æfingar byggðar á aðferð Pennebaker um líknandi skrif.

14. júní – fimmti kennsludagur á vel völdum stað

LOKAVERKEFNI
Alla vikuna er í undirbúningi skapandi lokaverkefni sem þátttakendum gefst nú kostur á að ljúka við. Verkefnin geta hvort heldur verið einstaklings- eða hópverkefni. Afrakstur smiðjunnar verður sýndur að kvöldi lokadagsins ásamt yfirferð um ávinning hvers og eins af smiðjunni.

15. júní – heimferðardagur

Rúta sækir hópinn síðdegis á hótelið um kl. 03:30 og mæting á flugvöll kl. 04:20, flug heim um  kl. 06:20:00 og lending í Keflavík kl. 8:50.

Kennslufyrirkomlag:

Kl. 9:00-12:30 alla daga; vinnustofa – innlegg frá leiðbeinendum, einstaklingsverkefni, paravinna og hópavinna.

Kl. 14-15:30 alla daga – verkefnavinna, ígrundun, þátttakendur deila hugmyndum að notkun í vinnu.

Síðasta daginn verða leiðbeinendur til taks meðan þátttakendur leggja lokahönd á lokaverki sitt – og það verður svo kynnt síðdegis og fram á kvöld.

Um námskeiðsstjórana:

Björg er með M Ed gráðu í menntunarfræðum frá HÍ, er myndlistarkennari frá MHÍ og lagði stund á blaðamennsku við sænskan lýðháskóla. Hún hefur veitt þremur símenntunarmiðstöðvum forstöðu og kennt í framhaldskóla og fullorðinsfræðslu um árabil. Hún rekur nú eigið fræðslufyrirtæki, Stílvopnið – valdefling og sköpun þar sem hún kennir einkum ritlist. Björg hefur tileinkað sér  heildrænar aðferðir Paul Rebillot um ferð hetjunnar (The Hero´s Journey).

 

 

 

Ragnhildur er með MA gráðu í sögu og safnfræðum frá New York University og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Hún kenndi einn vetur við grunnskólann í Jökulsárhlíð og síðar við Skógaskóla, en fræðsla á vinnustöðum og fullorðinsfræðsla hafa notið krafta hennar hin síðari ár.  Hún er Certified Daring Way™ Facilitator og markþjálfi. Hún rekur eigið fyrirtæki og heldur fyrirlestra og námskeið um sterk teymi, jákvæðni og vellíðan í lífi og starfi og fræði Brené Brown.

Saman ritstýrðu þær Ragnhildur og Björg tímaritinu Veru um árabil.

Deila á facebook