fbpx

Spænskunám á Spáni fyrir alla aldurshópa

Mundo hefur sterk tengsl við Spán og menntastofnanir þar í landi. Með stolti getum við boðið áhugasömum upp á sérsniðið spænskunám sem hentar hverjum og einum, hvort sem um ræðir einstakling, fjölskyldu, hópa, spænskukennara, vinnustaði o.s.frv. Margir skólar og staðsetningar eru í boði og ættu allir að finna eitthvað við hæfi.

Flestir skólarnir eru viðurkenndir af Cervantes-stofnuninni og bjóða margir þeirra upp á ECTS-einingar að námi loknu. Allir skólarnir vinna með litla hópa svo hver og einn ætti að fá eins mikið og hægt er út úr náminu.

Verð veltur á ýmsu, t.d. lengd náms, tímasetningu, gistingu o.fl. Hafir þú áhuga á að fá tilboð í námskeið sendu okkur þá línu á mundo@mundo.is og við reynum að koma til móts við þarfir þínar.

Hér fyrir neðan er stiklað á stóru varðandi staðsetningar og framboð spænskuskólanna: 

 

Santiago de Compostela:

Háskólinn í Santiago býr yfir um 500 ára reynslu og er ein virtasta menntastofnun Spánar. Í um 60 ár hefur skólinn boðið upp á tungumálakennslu fyrir erlenda námsmenn sem vilja læra tungumálið og kynnast landi og þjóð í gegnum menninguna. Spænska fyrir útlendinga er kennd allt árið um kring í mismunandi útgáfum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Borgin er falleg, skemmtileg og örugg, auk þess sem hún er lokastaður hins margrómaða Jakobsvegar. Hún er því stútfull af sögu, menningu og listum sem veita spænskunemum innblástur í námi sínu. Hægt er að stunda spænskunám þar frá 2 vikum upp í nokkra mánuði. Hér er um að ræða sannkallaðan suðupott fyrir tungumálanám, en fyrir utan spænskunám býður skólinn upp á námskeið í ensku, japönsku, arabísku, kínversku, þýsku, frönsku o.s.frv.!

 

Framboð námskeiða er mikið, t.d. er eftirfarandi í boði og tíndur til hluti af því sem nemendur fá að smakka á á meðan á námskeiði stendur:

 • Námskeið fyrir 50 ára og eldri (haldið í ágúst, 2 virkar vikur):
 • 20 tímar spænskukennsla á viku
 • Menningardagskrá og skoðunarferð(ir)
 • Þátttakendur kynnast Jakobsveginum (Camino de Santiago)
 • Vínsmökkun
 • Matarmenning og ferð á markaðinn
 • Iðnaður skoðaður (kol, gull og blúnda)
 • Skoðunarferð um borgina
 • Heimsókn í klaustur og sælgætisframleiðsla þar skoðuð
 • Bátsferð, tónlist, list o.fl.

 

 • Spænskunám og Jakobsvegurinn (f. 14-18 ára) (2 vikur)
 • Fyrri vikan felst í spænskunámi (ca. 16 tímar af kennslu) + menningardagskrá
 • 2 tímar í kennslu og 1 tími í menningardagskrá á dag
 • Seinni vikan felur í sér göngu á Jakobsvegi (í þessari viku læra nemendur spænsku, um pílagrímalíferni, sögu, listasögu, landafræði o.fl.)
 • Gengnir ca. 20 km/dag
 • Trúss og bíll með ef e-ð kemur upp
 • Gisting í fyrstu viku = hjá traustum fjölskyldum, fullt fæði, þvottur og straujun innifalin
 • Gisting í seinni viku = hostel/hotel, fullt fæði

 

 • Almennt spænskunámskeið allt árið um kring (spænska og spænsk menning) fyrir eftirfarandi hópa:
 • Sérútbúin námskeið fyrir spænskukennara
 • Spænskunám áður en haldið er í háskólanám á spænsku
 • Hópanámskeið fyrir áhugasama

 

Toledo:

Lítill og persónulegur skóli í fyrrverandi höfuðborg Spánar, Toledo, þar sem má segja að allt sé í göngufæri. Um ræðir forna og litla borg, sem stendur innan borgarmúra, og er umkringd á (sem m.a. er hægt að renna sér í aparólu (í öryggislínu) yfir!). Borgin er oft kölluð „the city of three cultures“ enda höfðust þar við kristnir menn, gyðingar og múslimar samtímis í sátt og samlyndi, sem skilar sér í ógrynni af menningarlegum verðmætum, s.s. arkítektúr, listum o.fl. Borgin er örugg og fólkið þar afskaplega vingjarnlegt svo auðveldara er að sökkva sér í spænskunámið. Auk þess er stutt að fara til Madridar, eða aðeins um hálftími með rútu eða lest.

Skólinn tekur á móti hópum eða einstaklingum og sérsníðir kennslu og dagskrá eftir því með menningarlegu ívafi, t.d. matreiðslunámskeiðum, „escape room“ á spænsku, skoðunarferðum o.fl. Gisting getur verið margs konar, en m.a. er boðið upp á heimagistingu, hótel, íbúð, nú eða gistingu í klaustri eða kastala!

 

Cuenca og A Coruña:

Þessi skóli býr yfir miklu úrvali námskeiða fyrir unglinga í tveimur fallegum borgum á Spáni. Úrval gistimöguleika er í boði, en í flestum tilfellum gista unglingar hjá fjölskyldum en það flýtir fyrir máltileinkun og stuðlar að innihaldsríkara spænskunámi.

 • Cuenca er lítil miðaldaborg, gríðarleg falleg, sem stendur á bjargi með þverhnípi hvort sínum megin. Þetta verður til þess að borgin er oft kölluð „borg hinna hangandi húsa“, þar sem mörg húsanna eru byggð utan í stórfenglega klettana sem umlykja borgarstæðið. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, sem engan skildi undra. Mikil gróska er í list og öllu listtengdu í Cuenca, en í borginni er frábært nútímalistasafn sem lætur engan eftir ósnortinn. Cuenca er lítil borg sem umlykur gesti sína. Auðvelt er að hella sér í spænskunámið þar sem enska er lítið töluð af hinum almenna borgara þar. Einnig eru góðar gönguleiðir í fjöllunum í kringum borgina og stutt er til stórborgarinnar, Madrid, eða um 50 mín lestarferð.
 • A Coruña er smáborg, nokkuð stærri en Cuenca, á norðurströnd Spánar. Hún er af mörgum talin ein fallegasta borg Spánar. Í borginni er iðandi mannlíf og mikil gróska viðskiptalífs, iðnaðar og verslunar, auk þess sem hún er stútfull af menningu, sögu og list (m.a. af keltneskum og rómverskum uppruna). A Coruña státar af mikilli matar- og vínmenningu og horfir yfir einar fallegustu strendur Spánar.

 

Námskeið sem m.a. eru í boði:

 • Spænskunámskeið með menningarlegu ívafi:
 • Frá 1 viku upp í 1 ár
 • Fyrir 12 ára og eldri
 • Spænska kennd hluta dags og svo farið í menningarlega dagskrá (t.d. skoðunarferðir eða námskeið)

 

 • Unglingurinn og Jakobsvegurinn:
 • 1 vika (rúmlega 100 km)
 • Fyrir 12 ára og eldri
 • Pílagrímalífernið kynnt fyrir þátttakendum
 • Spænska, list, saga, menning o.fl. kennt á leiðinni
 • Sniðugt að bæta við 1-2 vikum af spænskunámi í skólanum

 

 • Spænskunám og sjálfboðastarf eða starfsreynsla:
 • Frá 1 viku upp í 1 ár
 • Fyrir 18 ára og eldri
 • Grunnspænskukunnátta er nauðsynleg
 • Sjálfboðastarf til að auka samfélagslega ábyrgð ungmenna, t.d. hjá Rauða krossinum, Economic Kitchen o.fl.
 • Starfsreynsla er í boði hjá þekktum fyrirtækjum, m.a. fataframleiðandanum Zara.
 • Verðdæmi: 3 mánuðir (13 vikur) kosta 4.999 EUR (20 klst. af spænskukennslu og 20 klst. af starfsreynslu á viku, ásamt gistingu í einstaklingsherbergi í íbúð með aðgangi að eldhúsi).

 

 • Spænskunám og íþróttir:
 • Frá 1 viku
 • Fyrir 12 ára og eldri
 • Spænskunám hluta dags og íþróttir hluta dags
 • a. fótbolti, tennis, brimbretti, sigling, dans

 

Nerja:

Nerja er vingjarnlegur lítill bær við Miðjarðarhafið, umkringdur fallegum ströndum og fjöllum. Þar sem bærinn er lítill má segja að allt sé í göngufjarlægð, en stutt er í næstu borg (1 klst. til Malaga eða Granada). Bærinn státar af mikilli Andalúsíumenningu sem á vel við suðrænt loftslagið, en meðalhiti yfir árið er 20°C. Loftslagið býður upp á að kennsla fari að miklu leyti fram utandyra á verönd skólans. Smábær á borð við Nerja er tilvalinn til að sökkva sér í spænskunámið ásamt því að upplifa menningu heimamanna í bland. Ásamt spænskunámi er blandað saman ýmissri menningardagskrá, m.a. fyrirlestrum, skoðunarferðum, matreiðslutímum, strandíþróttum, heimsókn í forsögulega hella o.s.frv. Hægt er að stunda nám við skólann í allt að 8 mánuði og er gistingin margs konar, m.a. gisting í íbúðahúsnæði skólans, stúdíóíbúð, leiguíbúð eða hjá fjölskyldu. Námskeiðin eru fyrir 16 ára og eldri, en einnig er skólinn með sérnámskeið fyrir 50 ára og eldri. Námið fer fram í litlum hópum sem verður til þess að hver og einn fær meira út úr náminu.

 

 • Framboð náms er mikið, hér má sjá brot þess. Athugið að hægt að stilla upp spænskunámi að vild (m.a. boðið upp á einkakennslu) ásamt annarri dagskrá, t.d.:
 • Spænska + flamenco
 • Spænska + tennis
 • Spænska + salsa
 • Spænska + köfun (scuba diving)
 • Kennsla fyrir spænskukennara

 

Alicante, Barcelona, Granada, Madrid (og S-Ameríka):

Þessi spænskuskóli býður upp á nám og námskeið á fjórum stöðum á Spáni svo hér ættu allir að finna sér umhverfi við hæfi! Um ræðir Alicante, Barcelona, Granada og Madrid, en auk þess hefur skólinn tengsl við skóla í Suður-Ameríku svo einnig er hægt að bjóða upp á nám þar. Þetta þýðir líka að hægt er að ferðast á milli staðanna og halda áfram að læra á meðan maður ferðast.

 • Námskeiðin vefja saman spænskunámi (eftir þörfum hvers og eins) og menningarlegri dagskrá. Skólinn býður m.a. upp á eftirfarandi:
 • Almenn spænskunámskeið (grunnur eða lengra komnir) með menningarlegu ívafi
 • Kennsla fyrir spænskukennara
 • Sumarbúðir f. 12-17 ára á Alicante. Ungmennin læra spænsku og taka svo þátt í alls kyns skemmtilegri dagskrá ásamt spænskum ungmennum. Þannig nýtist spænskunámið enn betur og menningarlæsi eykst.
 • Öll fjölskyldan getur komið saman, lært spænsku við hæfi og tekið svo þátt í skemmtilegri dagskrá (saman eða í sitthvoru lagi, allt eftir því hvaða dagskrá um ræðir). Þessi valmöguleiki er tilvalinn til að blanda saman fríi, lærdóm, menningarupplifunum og almennum skemmtilegheitum fyrir alla fjölskylduna!