Upplýsingar gefur Una Helga í s. 778 4646 netfang: mundo@mundo.is
ATHUGIÐ AÐ UPPSELT ER Í FERÐINA – vinsamlegast hafið samband við mundo@mundo.is viljir þú vera á biðlista eða póstlista fyrir næstu Perúferð Mundo.
Perúferðin í ár höfðar sérstaklega til þeirra sem eru forvitnir, vilja fara til Machu Picchú, skoða menningu Inkanna, ferðast innanfrá um landið, njóta stórbrotinnar náttúru, sigla á Amazonfljótinu, veiða piranafiska, skoða letidýr og apa, á milli þess sem slappað er af á gullfallegum gististöðum sem margir hverjir eru með spa-aðstöðu. Ef þú átt stórafmæli, brúðkaupsafmæli, ert haldin/n mikilli ævintýraþrá eða vilt einfaldlega fagna sjálfum/sjálfri þér – þá gæti þetta verið ferð fyrir þig!
Fararstjóri:
Eyrún Ingadóttir er sagnfræðingur að mennt og starfar hjá félagi lögfræðinga á milli þess sem hún skrifar bækur fyrir unga jafnt sem aldna. Hún var m.a. fararstjóri í pílagrímagöngu Mundo frá Gullfossi til heiðurs Sigríðar í Brattholti en Eyrún skrifaði um hana bókina Konan sem elskaði fossinn. Eyrún býr yfir mikilli náðargáfu þegar kemur að skemmtilegum frásögnum og mun leiða hópinn í ævintýri þvers og kruss um Perú í þessari ferð.
Dagskrá:
Dagur 1 (10. apríl)
Flogið frá Íslandi til JFK (brottför kl. 17:00, lent í New York kl. 19:10). Áfram er haldið með flugi frá JFK til Lima (brottför kl. 23:05, lent í Lima kl. 06:00 þann 11. apríl).
Dagur 2 (11. apríl)
Lent í Lima klukkan 6 að morgni. Þar býður okkar rúta sem ekur hópnum heim á boutique-hótel í Miraflores-hverfinu og hittum við leiðsögumanninn okkar, hann Daníel sem verður með okkur alla ferðina og kynnir okkur fyrir öllu því besta sem Perú hefur upp á að bjóða. Eftir smá hvíld höldum við af stað í skoðunarferð um Lima sem er ein stærsta borg S-Ameríku. Í Lima skoðum við Huaca Pucllana, stöplapíramída úr leir sem gegndi stóru hlutverki í framgangi og uppbyggingu Lima-menningarinnar fyrr á öldum. Einnig verður farið á Larco-safnið í Lima, þar sem má sjá perúíska forngripi, auk þess sem við kynnumst perúískri matargerð.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Lima (4* eða sambærilegt)
Dagur 3 (12. apríl)
Haldið á flugvöllinn að morgni og flogið til Puerto Maldonado (flugið er um 1 klst. og 40 mín) sem oft er kallað “Hliðið að Amazon”. Hér lendum við í ævintýrum við Amazonfrumskóginn og -fljótið næstu daga og gistum í fallegum cabañas (bungalows eða tréskálar) sem staðsettir eru við fljótið. Hópurinn er sóttur á flugvöllinn og er farið með 45 mínútna bátsferð á undursamlega og umhverfisvæna gististaðinn okkar sem starfræktur hefur verið af Inkaterra frá 8. áratugnum. Eftir síðbúinn hádegismat er tími til að skoða umhverfið og göngustígana í nágrenninu í fylgd náttúrusérfræðinga á staðnum. Seinni partinn verður einnig boðið upp á bátsferð á ánni í ljósaskiptunum, þar sem heyra má í dýralífinu í kring. Kvöldverður á veitingastað gististaðarins.
Matur innifalinn: Morgun-, hádegis- og kvöldverður
Gisting: Ævintýralegt “bungalow”-resort með spa-i við Amazon-fljótið (Inkaterra Reserva eða Inkaterra Hacienda)
Dagur 4 (13. apríl)
Við byrjum daginn á snemmbúnum morgunmat og höldum svo í stutta bátsferð sem endar í stórkostlegri “jungle canopy”-göngu í um 40 metra hæð innan um laufskrúð frumskógarins. Hér kynnast þátttakendur dýralífi og náttúru sem hvergi sést annars staðar. Eftir hádegismat er haldið með báti uppeftir fljótinu að þjóðgarðinum Tambopata National Reserve. Þar göngum við eftir 3 km löngum stíg og virðum náttúruna fyrir okkur á leiðinni, áður en við komum að hinu fallega vatni Lake Sandoval. Við fáum prívattúr í fljótabát á vatninu og gefst þátttakendum sérstakt tækifæri til að skoða þau einstöku lífsskilyrði sem örloftslag staðarins býr til. Aldrei að vita nema við sjáum capuchin-, eða íkornaapaketti, leikgjarna otra eða caiman-krókódílana sem búa í vatninu. Að þessu loknu er haldið aftur á gististaðinn þar sem kvöldverður er.
Matur innifalinn: Morgun-, hádegis- og kvöldverður
Gisting: Ævintýralegt “bungalow”-resort með spa-i við Amazon-fljótið (Inkaterra Reserva eða Inkaterra Hacienda)
Dagur 5 (14. apríl)
Annar dagur stútfullur af ævintýrum við Amazon-svæðið.
Matur innifalinn: Morgun-, hádegis- og kvöldverður
Gisting: Ævintýralegt “bungalow”-resort með spa-i við Amazon-fljótið (Inkaterra Reserva eða Inkaterra Hacienda)
Dagur 6 (15. apríl)
Morgunmatur og að því loknu bátsferð aftur til Puerto Maldonado. Við heimsækjum “fiðrildahúsið”, en í Perú er að finna flestar fiðrildategundir í heimi, áður en haldið er með flugi til Cusco. Eftir lendingu í Cusco höldum við áfram í Dalinn Helga (e. The Sacred Valley) en stoppum á leiðinni við hinar ótrúlegu saltnámur sem hafa verið í notkun síðan á tímum Inkanna, auk þess sem við skoðum fornleifastaði þar sem Inkarnir beisluðu landið, stunduðu landbúnað og merkar landbúnaðarrannsóknir í manngerðum stöllum. Við höfum okkur annars hæg þennan dag til að venjast lofthæðinni, en dalurinn er í um 3000 m hæð yfir sjávarmáli. Mikilvægt er að borða ekki þungan mat og drekka mikið vatn til að þola lofthæðina.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Sacred Valley (4* eða sambærilegt)
Dagur 7 (16. apríl)
Í dag kynnumst við fólkinu sem stundar hinn hefðbundna litríka perúíska vefnað í bænum Chinchero, auk þess sem við skoðum fornminjarnar við Pisac og kynnumst perúískri matargerð hjá heimamanni.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Sacred Valley (4* eða sambærilegt)
Dagur 8 (17. apríl)
Um morguninn heimsækjum við þorpið og inkaminjarnar í Ollantaytambo, áður en haldið er með lest til bæjarins Aguas Calientes, en nú er aldeilis farið að styttast í heimsókn okkar til Machu Picchu! Við skoðum hinn fallega Mandor-foss og eyðum nóttinni í Aguas Calientes.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: 4* hótel miðsvæðis (4* eða sambærilegt)
Dagur 9 (18. apríl)
Nú er loksins komið að því að heimsækja hinar stórkostlegu rústir Inkanna í Machu Picchu, sem er eitt af undrum veraldar, hin týnda borg Inkanna sem hefur varðveist svo undursamlega – einmitt vegna þess að hún var falin fyrir Spánverjunum. Deginum er varið í Machu Picchu og fáum við leiðsögn um svæðið. Seinni partinn er svo haldið með lest aftur til Cusco.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Cusco (4* eða sambærilegt)
Dagur 10 (19. apríl)
Við eyðum deginum í og við Cusco, heimsækjum bæinn Andahuaylillas og kirkju staðarins, en San Pedro-kirkjan er frá 16. öld og er oft kölluð Sistínska kapella Andesfjallanna vegna loftmyndanna og barrokksins sem þar er að finna. Auk þess skoðum við Inkaminjarnar í Tipón og Pikillacta.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Cusco (4* eða sambærilegt)
Dagur 11 (20. apríl)
Við eyðum deginum í Cusco, röltum um hellulögð stræti og kíkjum á markaði þar sem finna má handverk heimamanna.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Boutique-hótel í Cusco (4* eða sambærilegt)
Dagur 12 (21. apríl)
Við tökum morgunflug frá Cusco til Arequipa. Farið er í skoðunarferð um Arequipa en margir segja að hún sé fallegasta borg Perú. Við heimsækjum klaustrið Santa Catalina sem er verndað af UNESCO. Þá kíkjum við mögulega á múmíusafnið, torg og markaði, allt eftir því hvernig þreytustigi farþega er háttað. Oft er Arequipa nefnd hvíta borgin því húsin eru byggð úr steini sem er afar ljós. Tignarlegt er að horfa á eldfjallið Misti (rúmlega 5000 metra hátt) gnæfa yfir bæinn en hann liggur í 2300 metra hæð. Í Arequipa eru undurfalleg hús frá nýlendutímanum og iðandi menning.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: 4* hótel (eða sambærilegt)
Dagur 13 (22. apríl)
Í dag er förinni heitið frá Arequipa til Colca gilsins en aksturinn þangað er ævintýri út af fyrir sig, sér í lagi þegar ekið er upp í þjóðgarðinn Agua Blanca þar sem sjá má hópa af villtum vicuñas-dýrum sem skyld eru llama-dýrunum. Colca gilið er stórfenglegt, um 3850 metrar á dýpt og raunar mun dýpra en Grand Canyon. Við stoppum við hæsta part gilsins, eða í um 4800 m hæð, þar sem við fáum jurtate og snarl áður en haldið er niður í dalinn, gegnum bæinn Chivay og meðfram landbúnaðarminjum frá tímum fyrir Inkana. Förinni er heitið á hótel okkar í Colca-dalnum þar sem er jarðhiti, heitar laugar og eftirsótt spa.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Colca Lodge Spa (4* eða sambærilegt)
Dagur 14 (23. apríl)
Í dag vöknum við snemma til að halda í leiðangur að útsýnisstaðnum Cruz del Condor þar sem við sjáum vonandi þennan tignarlega fugl á flugi. Uppstreymið í gilinu er fullkomið fyrir hinn mikilfenglega fugl kondórinn sem er stærsti fljúgandi fugl á vesturhveli jarðar. Vænghafið spannar yfir 3 metra og nær hann allt að 11 kg þyngd. Á leiðinni til baka heimsækjum við tvö Inkaþorp og kynnumst lífi Inkanna í dalnum áður en ekið er aftur til Arequipa.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: 4* hótel (eða sambærilegt)
Dagur 15 (24. apríl)
Frjáls dagur í Arequipa. Seinni partinn er flogið til Lima og þaðan til Íslands í gegnum New York.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Næturflug til New York
Dagur 16 (25. apríl)
Eftir miðnætti, þ.e. aðfaranótt 25. apríl er flug frá Lima til JFK í New York (brottför frá Lima kl. 00:30 og lent á JFK-flugvelli kl. 09:20). Nú eru farþegar á eigin vegum og geta eytt deginum í New York eða jafnvel framlengt dvöl sinni þar (ath. breytingargjald hjá Icelandair getur átt við). Flogið er svo frá JFK til Íslands kl. 20:25 og lent hérlendis kl. 6:15 að morgni 26. apríl.