Um ferðina:
Ási og Nanna hafa verið með vel sótt útinámskeið í nokkur ár og hafa mikla reynslu af því að nýta umhverfið til æfinga sem er einmitt það sem þau munu gera í þessari ferð.
Á hverjum degi verður boðið upp á val um að fara í hlaup/göngu eða taka æfingu og munu Ási og Nanna skipta þeim hópum á milli sín. Æfingarnar verða blanda af styrk- og þolþjálfun og allar byggðar þannig upp að hægt verður að skala þær upp og niður eftir getustigi hvers og eins. Markmið æfinganna er að láta fólki líða vel, fá púlsinn aðeins upp og að fólk fari endurnært inn í sólríka daga og njóti lífsins á meðan ferðinni stendur. Að sjálfsögðu er einn frídagur í ferðinni sem sniðugt er að nýta í hvíld eða jafnvel skella sér í borgarferð Barcelona en það tekur aðeins um 40 mínútur að fara þangað með lest frá Sitges.
Um þjálfara/fararstjóra:
Nanna Kaaber er menntaður íþróttafræðingur og hefur unnið sem einkaþjálfari í World Class á Seltjarnarnesi síðan árið 2014. Hún á og rekur fjarþjálfunina Kaaber – Heilsa sem býður upp á fjarþjálfunarprógröm fyrir konur sem hægt er að gera heima eða á líkamsræktarstöð. Nanna elskar að lyfta lóðum og hlaupa en skemmtilegast finnst henni að dansa. Nanna sérhæfir sig í að hjálpa fólki að koma hreyfingu inn í daglega rútínu og að hjálpa fólki að líða vel svo hreyfing verði til frambúðar.
Ási hefur starfað við einkaþjálfun í 26 ár, lengst af í World Class á Seltjarnarnesi þar sem hann starfar í dag. Ási er alæta á hreyfingu en skemmtilegast finnst honum að hlaupa. Ási hefur mikla ástríðu fyrir því að láta fólki líða vel og leggur sig allan fram við að finna leiðir til hámarka dagsdaglega vellíðan.
Um staðinn:
Sitges er lítill strandbær staðsettur tæplega 40 km suður af Barcelona (ca. 40 mínútna lestarferð í burtu). Í bænum er skemmtileg stemning og næg afþreying, góðir veitingastaðir o.fl. Gist verður á 4* hótelinu Ibersol Antemare við ströndina og munu þjálfararnir nýta umhverfið vel til æfinga auk þess sem einn hvíldardagur verður í vikunni án æfinga. Flogið er með beinu flugi til Barcelona að kvöldi 20. apríl og ekið þaðan beint til Sitges. Síðasta daginn, þ.e. að morgni 27. apríl, verður svo ekið aftur til Barcelona, fá þátttakendur að geyma farangur í rútunni og eyða deginum í þessari fallegu borg áður en haldið verður aftur heim á leið í beinu flugi (lending í KEF að kvöldi 27. apríl).