Mundo og fræðslufyrirtækið Saga – Story House bjóða upp á nærandi lærdómsríkt námskeið á Jakobsveginum dagana 5. – 13. september 2023. Námskeiðið samanstendur af fræðslu, 100 km göngu og djúpslökun. Á gönguleiðinni síðustu 100 km á Jakobsveginum, að Santiago de Compostela, munum við huga að því sem hlúir að og eflir jákvæða líðan og prófum verkfæri og leiðir sem sporna gegn neikvæðum áhrifum álags og streitu.
Markmið með námskeiðinu:
Hugmyndafræði
Námskeiðið byggir á gagnreyndum aðferðum þar sem stuðst er við hugmyndafræði iðjuþjálfunar, jákvæðrar sálfræði, kenningum um heilandi áhrif náttúru og núvitundar (mindfulness).
Námskeiðslýsing
Námskeiðið skiptist í ytra ferðalagið, sem er gangan sjálf, og innra ferðalagið sem er persónuleg vegferð hvers og eins. Þátttakendur fá frí frá daglegu venjubundnu lífi og leggja upp í spennandi lærdómsvegferð um þennan stórkostlega, sögulega stíg.
Fræðslunni er fléttað bæði inn í göngurnar og námskeiðsdagana. Gengið verður að hluta til í þögn á hverri dagleið þar sem þátttakendur fá beina reynslu af áhrifum núvitundar og náttúru á líðan og heilsu með þjálfun í leiddum núvitundargöngum. Á leiðinni um stíginn munum við hvíla okkur og styðja við endurheimt með leiddri djúpslökun/Yoga Nidra.
Eftir fyrstu tvo göngudagana verður staldrað við á göngunni og tekinn námskeiðsdagur í Casa Roan þar sem farið er í áherslur sem styðja við aukna sjálfsþekkingu og innsæi í eigin styrkleika, þarfir og langanir. Í sjálfri Santiago de Compostela, í lok göngunnar, munum við ígrunda reynslu og lærdóm vegferðarinnar um Jakobsveginn og njóta ferðaloka og fegurðar borgarinnar.
Leiðangursstjóri og kennarar
Leiðangursstjórar og kennarar eru Una Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Mundo, ásamt Guðbjörgu Björnsdóttur og Ingibjörgu Valgeirsdóttur eigendum heilsueflandi fræðslufyrirtækisins Saga – Story House.
Guðbjörg og Ingibjörg hafa áratuga víðtæka reynslu af endurhæfingu, stjórnun og fræðslu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, bæði hér heima og erlendis. Guðbjörg er iðjuþjálfi að mennt og Ingibjörg með MBA og BA í uppeldis- og menntunarfræðum. Báðar hafa þær lokið námi í jákvæðri sálfræði og yogakennaranámi.
Hér er um að ræða gönguferð fyrir þá vilja smjatta á lífinu á meðan við njótum þess að ganga síðustu 100 km á frönsku leið Pílagrímastígsins góða, þar sem skiptast á hólar og hæðir, skógar, landbúnaðarhéruð, borgir og bæir. Þessi ferð stendur svo sannarlega undir einkunnarorðum Mundo: menntun, skemmtun, menning og þjálfun. Sé þreyta komin í tær göngugarpa er alltaf hægt að hoppa upp í leigubíl eða hjálparbílinn okkar til að komast á næsta gististað. Leiðin liggur um Galisíu, eitt fallegasta hérað Spánar, frá bænum Sarria til Santiago de Compostela. Gistingin er hluti af upplifuninni þar sem hægt er og munum við m.a. njóta eins hvíldardags frá göngunni á námskeiðsdegi okkar í sveitasælunni í Casa Roan, sem framleiðir eigin osta og býður upp á mat úr héraði. Þá skemmir ekki fyrir að syndaaflausn bíður göngugarpa í Santiago de Compostela en ganga þarf 100 km á Jakobsvegi til að öðlast kvittun upp á slíkt.
5. sept:
Flogið frá Íslandi til Santiago de Compostela með einni millilendingu. Frá Santiago de Compostela er ekið á upphafsstað ferðarinnar í Sarria. (Matur ekki innifalinn þennan dag). Gist á Hotel Alfonso IX.
6. sept:
Gengið frá Sarria til Portomarín. Portomarín er einstaklega fallegt bæjarstæði sem stendur við uppistöðulón en gamli bærinn er að hluta til ofan í lóninu. Gist á Hotel Villajardín.
7. sept:
Gengið frá Portomarín til Palas de Rei. Hér dveljum við í yndislegri sveitagistingu Casa Roan (skammt frá Palas de Rei), njótum spænsku sveitasælunnar og þess að fá smá framlengingu á sumarið.
8. sept:
Námskeiðs- og frídagur í Casa Roan.
9. sept:
Gengið áfram til Arzúa. Gist á Hotel Arzúa.
10. sept:
Gengið frá Arzúa til o’Pedrouzo. Gist á Hotel Bello.
11. sept:
Gengið frá o’Pedrouzo til Santiago de Compostela. Gist á Hotel San Lorenzo sem er vel staðsett, í um 10 mínútna göngufjarlægð frá dómkirkjunni í Santiago.
12. sept:
Námskeiðs- og frídagur í Santiago de Compostela.
13. sept:
Heimferðardagur – flogið heim frá Santiago með einni millilendingu.