Ferðatilhögun:
21. júní miðvikudagur
Flugtak frá Keflavík kl. 21:20 – flogið með WIZZ Air – W61774*
Flugtími 3.35 klst. Lending í Gdansk kl. 02:55, aðfaranótt 22. júní.
Rúta ekur með hópinn á Hampton by Hilton Gdansk Old Town (3* hótel í miðbæ Gdansk)
22. júní fimmtudagur
07:30 – 10:30 Morgunverður
Frjáls dagur
23. júní föstudagur
07:30 – 08:45 Morgunverður
09:00 – 15:00 Styrkleikar og jákvæð samskipti á vinnustað og í nemendahópum
Frjáls tími
24. júní laugardagur
07:00 – 08:45 Morgunverður
09:00 – 15:00 Styrkleikar og jákvæð samskipti á vinnustað og í nemendahópum
Frjáls tími
25. júní sunnudagur
07:00 – 08:45 Morgunverður
Frjáls dagur
26. júní mánudagur
07:00 – 10:30 Morgunverður
Tékkað út af hótelinu kl. 12 og farangur geymdur í farangursgeymslu hótelsins.
Rúta frá hótelinu kl. 15:00 á flugvöllinn.
Flugtak frá Gdansk kl. 18:45 – flogið með WIZZ Air W61773*
Flugtími 3.55 klst. Lending í Keflavík kl. 20:40
*Athugið að flugtímar geta breyst. Miðað er við útgefna flugáætlun Wizzair.
Um námskeiðið – Styrkleikar og jákvæð samskipti á vinnustað og í nemendahópum:
Unnið er með kenningar og módel jákvæðrar sálfræði með áherslu á VIA styrkleika, gildi og gildisvirðingu. Kynnt verður áhrifarík samskiptaleið sem nýtist til að byggja upp jákvætt samskiptamynstur í hópum og efla drifkraft, tengsl og sjálfstraust einstaklinga, jafnt í vinnu með nemendum sem og í starfsmannahópum eða einkalífi.
Við skoðum huga, tilfinningar og taugakerfi, hvað það er sem veldur því að þættir eins langvarandi streita, fullkomnunarárátta, fórnarhegðun og sjálfsniðurrif ná tökum á okkur og hvernig við getum beint athyglinni að þeim styrkleikum og kostum sem við búum yfir nú þegar og að því sem virkar vel. Við veltum fyrir okkur hvernig við getum unnið með taugakerfinu, tamið okkur mildara viðhorf í eigin garð og staðið með sjálfum okkur og gildum okkar þegar á reynir í samskiptum.
Þátttakendur kynnast aðferðum sem hjálpa okkur að aftengjast óheppilegum hugsanamynstrum og ná tökum á tilfinningaviðbrögðum með því að taka eftir og gangast við öllum okkar tilfinningum og hugsunum með sjálfskilning og vinsemd að leiðarljósi.
Við skoðum hvernig við getum nýtt verkfæri jákvæðrar sálfræði, VIA styrkleika og gildi til að auka velsæld og rækta tengsl og heilbrigð samskipti bæði við okkur sjálf og aðra.
Námskeiðslýsing:
Dagur 1, unnið í 6 tíma
Kynning á námskeiðinu og hópurinn hristur saman
Vinnustofa: Skoðað hvað gerist innra með okkur í samskiptum og hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif á þróun samskipta og samskiptamynsturs. Hvernig getum við, með aukinni sjálfsþekkingu og sjálfsstjórn, stýrt atferli og viðbrögðum í jákvæðan farveg í stað þess að detta í varnarhætti? Hvernig getur þekking á taugakerfi, tilfinningum og huga aukið sjálfstraust og bætt samskipti? Hvaða áhrifa hafa viðhorf og okkar og hugarfar?
Áhersla er lögð á heilbrigð samskipti, innra og ytra virði, jákvæð viðhorf og viðbrögð og að rækta góðvild bæði í eigin garð og garð annarra.
Dagur 2, unnið í 6 tíma
Vinnustofa: Hvernig getum við nýtt þessa þekkingu bæði til að efla okkur sjálf og í vinnu með nemendum? Hvað getum við gert til að brjóata upp óheppileg vanamynstur og efla virkni og áhugahvöt?
Styrkleikar, gildi og áhugahvöt: Farið verður yfir hvernig læra má að þekkja og nýta styrkleika sína og gildi betur og hvernig styrkleikar og gildi hafa áhrif á samskipti, áhugahvöt og viljastyrk.
Námskeiðsstjóri og fyrirkomulag:
Námskeiðið er í formi fyrirlestra, umræðna og sjálfsígrundunar. Þátttakendur fá gagnleg verkfæri sem nýtast til að efla sig í lífi og starfi og til að byggja upp jákvætt andrúmsloft og sjálfstraust í nemendahópum og í almennum samskiptum á vinnustaðnum.
Alla dagana verður boðið upp á slökun/hvíldarjóga fyrir þau sem hafa áhuga.
Leiðbeinandi: Ásthildur Garðarsdóttir
Ásthildur er með B.Ed. gráðu frá KHÍ og meistaragráðu í jákvæðri sálfræði frá Árósaháskóla. Hún hefur auk þess bætt við sig grunnþjálfun í ACT meðferðarforminu og yoga nidra kennsluréttindum.
Athugið að sams konar námskeið hafa verið styrkhæf hjá stéttarfélögum.