Dagur 1
Flogið frá Reykjavík til JFK – um kl 16:30 – síðar um kvöldið, eða rétt fyrir miðnætti er flogið til Lima í næturflugi.
Dagur 2
Lent í Lima klukkan 6 að morgni (8 klst. munur) og haldið áfram í flugi til borgarinnar Arequipa þar sem lent er um hádegisbil. Við hvílum okkur vel að loknu ferðalagi og söfnum kröftum fyrir ævintýri næstu daga. Í Arequipa tekur Daníel á móti okkur en hann verður fararstjórinn okkar næstu daga. Farið er í skoðunarferð um Arequipa en margir segja að hún sér fallegasta borg Perú, kíkjum mögulega á múmíusafnið, torg og markað, allt eftir því hvernig þreytustigi farþega er háttað. Oft er Arequipa nefnd hvíta borgin því húsin eru byggð úr steini sem er afar ljós. Tignarlegt er að horfa á eldfjallið Misti (rúmlega 5000 metra hátt) gnæfa yfir bæinn en hann liggur í 2300 metra hæð. Í Arequipa eru undurfalleg hús frá nýlendutímanum og iðandi menning. Dvalið er á hóteli í miðbænum.
Dagur 3
Morguninn er notaður til að skoða úthverfin La Campiña Arequipeña og Yanahuara sem og nokkur önnur leyndarmál borgarinnar. Eftir hádegismat á „picantería‟ er ekið til Colca og dvalið á hóteli þar sem er jarðhiti og eftirsótt spa. Þar er dvalið í 2 nætur og við njótum þess að baða okkur í heitum pottum. Colca gilið er 3850 metrar á dýpt, raunar mun dýpra en Grand Canyon.
Dagur 4
Snemma morguns leggjum við leið okkar í gilið Cruz del Condor, en uppstreymið í því er fullkomið fyrir hinn mikilfenglega fugl kondórinn sem er stærsti fljúgandi fugl á vesturhveli jarðar. Vænghafið spannar yfir 3 metra og nær hann allt að 11 kg þyngd. Á leiðinni til baka heimsækjum við tvö Inkaþorp og kynnumst lífi Inkanna í dalnum. Um kvöldið gefst tími til að fara í heita potta, nudd eða gönguferð.
Dagur 5
Um morguninn er frjáls tími, hægt að slappa af, fara í göngur o.fl. Eftir hádegismat förum við aftur til Arequipa. Um kvöldið förum við í gönguferð um borgina og höfum möguleika á að heimsækja Santa Catalina-klaustrið.
Dagur 6
Við fljúgum frá Arequipa til Cuzco um morguninn og höldum beint áfram í Dalinn Helga. Við höfum okkur annars hæg þennan dag til að venjast lofthæðinni, en dalurinn er í um 3000 m hæð yfir sjávarmáli. Mikilvægt er að borða ekki kjöt, ekki þungan mat og drekka mikið vatn til að þola lofthæðina.
Dagur 7
Við heimsækjum hinar ótrúlegu saltnámur sem hafa verið í notkun síðan á tímum Inkanna, auk þess sem við skoðum fornleifastaði þar sem Inkarnir beisluðu landið og stunduðu landbúnað í manngerðum stöllum og stunduðu merkar landbúnaðarrannsóknir. Að því loknu kíkjum við á keramikvinnslu í nágrenninu, heimsækjum fallega þorpið Pisac sem státar af fallegum markaði þar sem hægt er að fá handgerða listmuni og sjá hvernig konurnar vinna stórkostlegt handverk úr jurtalitaðri ull.
Dagur 8
Um morguninn heimsækjum við Ollantaytambo þar sem fyrirfinnast Inkarústir, áður en við tökum lestina til Machu Picchu sem er eitt af undrum veraldar, hin týnda borg Inkanna sem hefur varðveist svo undursamlega – einmitt vegna þess að hún var falin fyrir Spánverjunum. Deginum er varið í Machu Picchu og um kvöldið höldum við aftur í gistinguna í dalnum helga. Við fáum æðislegan smat að hætti innfæddra og meltum upplifun dagsins.
Dagur 9
Nú verður haldið til Cuzco og á leiðinni skoðum við nokkar minjar umhverfis Cuzco eins og Sacsayhuaman og Tambomachay. Í Cuzco förum við svo í skoðunaferð um þessa fallegu borg.
Dagur 10
Við höldum áfram að skoða hina fögru Cuzco-borg, förum á markaði, kynnumst heimamönnum, fylgjumst með vefnaði verða til og kíkjum á söfn.
Dagur 11/12/13/14
Um hádegi þess 16. apríl tökum við flug frá Cuzco til Puerto Maldonado (madre de Dios), sem er oft kölluð hliðið að Amazon.
Þessa daga upplifum við ævintýri á og í kringum Amazon-fljótið þar sem við förum í náttúruupplifun sem á sér engan líka. Farið er í magnaða siglingu á fljótinu í myrkri þar sem við horfumst í augu við krókódíla. Í sömu ferð er eins og við heyrum mennskan andardrátt í myrkrinu en þá er það bara fugl. Svona mætti lengi telja og er þetta ógleymanleg upplifun!
Þann 19. apríl höldum við svo með flugi til Lima og komum okkur fyrir í Miraflores-hverfinu.
Dagur 15
Farið er í skoðunarferð um Lima sem er ein stærsta borg S-Ameríku.
Dagur 16
Þennan dag mun leiðsögumaður leiða okkur um hverfin Barranco og Miraflores. Um kvöldið verður okkur ekið á flugvöllinn í Lima og við fljúgum til New York rétt fyrir miðnætti.
Dagur 17
Lent í New York snemma morguns. Deginum varið í stórborginni og haldið til Íslands kl 20 um kvöldið. Hægt er að framlengja í New York en slíkt þarf að taka fram við bókun ferðar. Lent á Íslandi að morgni næsta dags (23. apríl).