Er eitthvað að brjótast um í kollinum? Býr þér margt í brjósti? Frelsaðu hugann með ritsmiðju Mundo og komdu textum og hugsunum sem þú hefur borið með þér á blað.
Þetta námskeið snýst um að hjálpa þátttakendum að koma hugsunum sínum, tilfinningum, endurminningum og skoðunum á blað. Kynntar eru aðferðir til að komast yfir hugræna þröskulda og gerð er grein fyrir mismunandi formum ólíkra skrifa; smásagna, endurminninga og rökfærsluskrifa. Þátttakendur eru hvattir til að finna hugðarefnum sínum viðeigandi form. Umfjöllun um mismunandi form ritsmíða breikka og auðga umræðuna á námskeiðinu.
Áhersla er lögð á að hver þátttakandi líti í eigin barm og fangi viðfangsefnin sem brenna á honum. Til þess eru notaðar skapandi og valdeflandi æfingar sóttar í aðferðirnar Hero´s Journey, Theater of the Oppressed, Bibliodrama og Sociometry.
Námskeiðið er í formi fyrirlestra, samtala, hópæfinga, eigin skrifa og umræðna um skrifin. Venjulega fara fimm dagar í námskeiðið og eru daglegar samverustundir sex en einnig getum við boðið upp á að sérsníða lengd námskeiðsins að þörfum þess hóps sem um ræðir (lágmark er þó 6 klst.). Þátttakendur eru að sjálfsögðu hvattir til að nýta sér fegurð og frið staðarins sem verður fyrir valinu sem innblástur til frekari skrifa. Upplestrarstund er í lok námskeiðs þar sem þátttakendur deila völdum verkum og hópurinn ræðir um hverja ritsmíð. Þannig öðlast þátttakendur aukna færni í að greina skrif annarra.
Markmið námskeiðsins er að hjálpa þátttakendum að komast yfir hugrænar hindranir, að finna flöt á hugsunum sínum og að velja þeim form. Minni áhersla er lögð á endanlega útfærslu ritsmíða. Markmiðið er að þátttakendur öðlist aukið öryggi í eigin skrifum en einnig í hvers kyns kennslu sem tengist skrifum. Á hverjum degi er tekinn frá tími sem helgaður er umræðu um hvernig nota má aðferðir námskeiðsins í kennslu í mismunandi fögum á ólíkum skólastigum.
Leiðbeinandi:
Kennari á námskeiðinu er Björg Árnadóttir, stofnandi, framkvæmdarstjóri og aðalkennari Stílvopnsins, sem sérhæfir sig í námskeiðum á sviði ritlistar og félagsörvunar. Björg er rithöfundur, blaðamaður, kennari í skapandi greinum, auk þess sem hún er með MA í menntunarfræðum.
Hvenær er hægt að fara í ferðina? Þegar þér og hópnum þínum hentar.
Hvað kostar? Kostnaður er breytilegur eftir tímasetningu og lengd ferðar.
Fyrir nánari upplýsingar hafðu samband við Dagrúnu, dagrun@mundo.is eða í síma 788-4646.