Skíðagöngunámskeið Mundo hafa verið feykivinsæl síðustu ár og hlotið mikið lof þátttakenda. Nú langar okkur til að bjóða gönguskíðafólki upp á nýjung, en það er skíðaævintýri með Þóru Tómasdóttur á Siglufirði!
ATH. skíðaævintýrið er einnig í boði í styttri útgáfu (fös-sun) helgina 9. – 11. apríl. Sjá hér: skíðaævintýri 9. apríl – 11. apríl
Farnar verða tvær ferðir á utanbrautarskíðum/ferðaskíðum um helgina. Annars vegar verður farið frá Fljótum, yfir Lágheiðina og inn á Ólafsfjörð á föstudegi, og hins vegar út í Héðinsfjörð á laugardegi, en náttúrufegurðin er engu lík á þessum leiðum. Þóra Tómasdóttir stýrir skíðaævintýrinu og verða heimamenn með í för, hópnum til halds og trausts.
Gist verður á hinu margrómaða “boutique” hóteli sem skreytt er málverkum eftir listakonuna Huldu Vilhjálmsdóttur, Hótel Siglunesi, og þýðir það að þú verður í fæði hjá kokkinum landsfræga Jaouad Hbib en hann er maðurinn á bak við marokkóska veitingastaðinn á hótelinu. Uppbókað var hjá honum svo til hvert einasta kvöld í sumar en þessa helgi er staðurinn frátekinn fyrir þig!
Gert er ráð fyrir að þáttakendur mæti seinni part fimmtudags, komi sér fyrir á hótelinu og setji sig í gírinn fyrir skíðaferðir helgarinnar. Á föstudagsmorgni smyrja þátttakendur sér hádegisnesti á hótelinu til að taka með í skíðaferð dagsins. Þátttakendur verða keyrðir í Fljótin og fara á skíðum yfir Lágheiðina inn á Ólafsfjörð. Þangað verður hópurinn sóttur aftur og keyrður yfir á Siglufjörð. Eftir gönguna verður farið í jóga í heitum sal og endað í rjúkandi, krydduðum þriggja rétta kvöldverð á marokkóska veitingastaðnum á hótelinu. Einnig mælum við sérstaklega með að skella sér í heita pott hótelsins um kvöldið til að ná úr sér síðasta hrollinum. Á laugardagsmorgni verður farið í hot yoga, þá verður boðið upp á hádegisverð á hótelinu og eftir það fara þátttakendur á eigin bílum yfir í Héðinsfjörð og verður skíðað út þennan undurfallega eyðifjörð. Að skíðagöngunni lokinni er frjáls tími og um kvöldið verður annar dýrindis þriggja rétta kvöldverður framreiddur á marokkóska veitingastaðnum. Þar með er formlegri dagskrá helgarinnar lokið og þátttakendur tékka sig svo út af hótelinu á sunnudegi.
Hægt er að lengja dvölina á Hótel Siglunesi og bjóðum við þá sérkjör á gistingu og mat. Vinsamlegast hafið samband við mundo@mundo.is hafir þú áhuga á því og við setjum saman pakka fyrir þig.
Athugið að skíðaævintýri þetta er fyrir þá sem hafa grunn á skíðum og hentar því ekki þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á gönguskíðum. Við bendum hins vegar á almennu skíðagöngunámskeið Mundo viljir þú læra á slíkt.
Innifalið:
Ferðadagar: 29. apríl – 2. maí 2021
Verð pr. mann: