fbpx
 • Aðalheiður Jensen
  Aðalheiður Jensen Fararstjóri

  Aðalheiður Jensen er með diplóma á MA stigi í jákvæðri sálfræði og B.ed gráðu í leikskólakennarafræðum og hefur 19 ára starfsreynslu sem leikskólakennari. Hún lærði til rope-jóga kennarans hjá Guðna Gunnarssyni árið 2008 og sótti krakkajóga kennaranám árið 2008 og 2010 hjá Gururdass. Hún hefur sótt ýmis námskeið í núvitund, bæði fyrir sig persónulega sem og námskeið fyrir börn og unglinga á vegum Alúðar. Lokaverkefni hennar í jákvæðri sálfræði fjallaði um það hvernig mætti hlúa að vellíðan kennara og nemenda með núvitund og sjálfs-vinsemd.
  Síðustu fjögur árin starfaði hún sjálfstætt og ferðaðist á milli skóla þar sem hún bauð upp á námskeið fyrir börn og ungmenni sem byggja á jóga og núvitund. Hún er einnig partur af félagasamtökunum Veran sem beitir sér fyrir því að fræða kennara sem og aðra í því hvernig áhrif við getum haft á líf okkar með því að ástunda jákvætt hugarfar og efla jákvæðar tilfinningar.

  Aðalheiður hefur ástríðu fyrir líkamlegri og andlegri heilsu og vill leggja sitt af mörkum til að efla og hafa áhrif á vellíðan allra innan skólasamfélagsins.
  • ALI PARSI
   ALI PARSI Fararstjóri

   Ali Parsi fæddist í Isfahan í Íran og stundaði nám í arkitektur í Bretlandi. Hann hefur búið á Íslandi árum saman og síðan árið 2007 hefur hann verið fararstjóri með hundruði Íslendinga sem hafa áhuga á menningu og sögu Persíu. Ferðirnar hans eru persónulegar, hann forðast túristagildrur og uppsker í staðinn 100% ánægju þeirra sem hafa ferðast með honum undanfarin ár.

   • Anna Sigríður Pálsdóttir
    Anna Sigríður Pálsdóttir Fararstjóri

    Anna Sigríður starfar sem ráðgjafi einstaklinga og handleiðari fagaðila.   Anna Sigríður starfaði sem prestur hjá Þjóðkirkjunni á árunum 1997-2014 og sérhæfði sig í ráðgjöf til aðstandenda áfengis- og fíkniefnaneytenda og sálgæslu vegna ástvinamissis og skilnaða.  Einnig hefur Anna Sigríður sinnt handleiðslu til fagaðila frá árinu 2000 bæði á Íslandi og í Svíþjóð.
    Anna Sigríður er vígður prestur og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1996 og námi í Handleiðslu og handleiðslutækni frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2000.  Hún lauk kennaranámi frá Myndlista- og handíðaskólanum 1968. Á árunum 2016-2017 lærði Anna Sigríður áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody. Leiðbeinendur voru Sarah Bridge, LCSW og Chris John P.G. Cert., Adv. Dip. Con. BACP

    • ÆVAR AÐALSTEINSSON
     ÆVAR AÐALSTEINSSON Fararstjóri

     Ævar er fæddur í áliðnum maí mánuði árið 1961 og er því tvíburi. Hann tók sveinspróf í múrsmíði sem hann vann við í mörg ár en hóf fyrir nokkrum árum nám í HÍ þar sem hann lagði stund á Frístundafræði. Þar voru viðfangsefnin gjarnan útinám og útivist. Ævar hefur frá unga aldri verið virkur útivistarmaður. Skátar, Hjálparsveit, Ferðafélag Íslands og ýmis útivistarnámskeið hafa verið vettvangur hans og er hann útskrifaður gönguleiðsögumaður. Síðustu ár hefur hann verið fararstjóri og umsjónarmaður gönguverkefnisins „Eitt eða tvö fjöll á mánuði” hjá FÍ ásamt því að leiða ýmsa hópa á fjöll og jökla á Íslandi. Hann hefur gengið talsvert í Evrópsku Ölpunum, bæði göngu- og klifurleiðir á undanförnum árum. Ævar starfar nú sem verkefnastjóri útináms í frístundamiðstöðinni í Gufunesbæ ásamt ýmsum öðrum útivistarverkefnum.

     • Berglind Magnúsdóttir
      Berglind Magnúsdóttir Fararstjóri

      Berglind Magnúsdóttir er að ljúka B.A. gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og á árunum 2016-2017 lærði Berglind áfalla- og uppeldisfræði Piu Mellody. Leiðbeinendur voru Sarah Bridge, LCSW og Chris John P.G. Cert., Adv. Dip. Con. BACP. Hún hefur um árabil haldið fyrirlestra og námskeið um almennt heilbrigði, heilsu og meðvirkni og hvaða leiðir er hægt að fara til að ná varanlegum árangri í betri líðan. Berglind hefur einstakt innsæi í vinnu sinni með fólki ásamt djúpri þekkingu á afleiðingum meðvirkni í lífum einstaklinga og birtingarmyndum hennar. Tilfinningaleg og lausnamiðuð nálgun er ein meðferðarnálgun sem Berglind beitir í þerapíu sinni. Berglind hefur starfað sem einkaþjálfari, rekið sína eigin heilsuræktarstöð og unnið sem stjórnandi á sviði heilsuræktar bæði á Íslandi og í Noregi.

      • BRYNJAR KARLSSON
       BRYNJAR KARLSSON Fararstjóri

       Brynjar er fæddur 1964 í Reykjavík og er prófessor í Tækni- og verkfræðideild HR í aðalstarfi en hefur undanfarin ár búið stóran hluta ársins í San Sebastián í Baskalandi. Auk þess að leiðbeina nemendum í verkfræði og læknisfræði um undraheima eðlisfræðinnar hefur hann gripið í að vera leiðbeina útlendingum um Ísland í hjáverkum. Brynjar er Spænsku- og Frönskumælandi og er áhugamaður um mat, vín og menningu þessara landa. Undanfarið hafa hjólreiðar og gönguferðir um strendur, fjöll og hásléttu Spánar átt hug hans allan.

       • EINAR SKÚLASON
        EINAR SKÚLASON Fararstjóri

        Einar er BA í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA frá háskólanum í Edinborg. Hann stofnaði gönguhópinn Vesen og vergang árið 2011 og hefur skipulagt og leitt nokkur hundruð Vesenisgöngur. Hann skrifaði bækurnar: ´”Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur” og “Lóu með strá í nefi” og starfrækir gönguappið Wapp – Walking app sem er með leiðarlýsingum víða á Íslandi. Lífið snýst að mestu leyti um gönguleiðir og útivist og hann hefur sérstaka ástríðu fyrir gömlum þjóðleiðum.

        • ELÍNBORG STURLUDÓTTIR
         ELÍNBORG STURLUDÓTTIR Fararstjóri

         Elínborg Sturludóttir er B.A. í heimspeki og prestur í Stafholti í Borgarfirði og leggur nú stund á M.A. nám í guðfræði með áherslu á pílagrímaguðfræði. Hún hefur staðið fyrir pílagrímagöngum í Borgarfirði og Dölum á undanförnum árum og alloft leitt pílagrímagöngu á Skálholtshátíð. Hún er einn af stofnendum félagsins Pílagímar sem hefur m.a.  staðið fyrir því að stika pílagrímaleið frá Bæ í Borgarfirði í Skálholt.

         • GUÐRÚN HALLA TULINIUS
          GUÐRÚN HALLA TULINIUS Fararstjóri

          Guðrún er spænskukennari og áhugakona um alls kyns útivist. Um árabil hefur hún gengið um láglendi sem hálendi, einkum ef snjór og ís eru efst á toppum. Hún hefur verið afar virkur félagi í gönguhópnum Vinir og vinavinir, slæðst með þeim og dregið út um allt. Fyrir nokkrum árum gekk Guðrún Inkaveginn forna til Machu Picchu, hvött áfram af ljóðum Pablos Neruda. Mi amor americano.

          • GUÐRÚN HARPA BJARNADÓTTIR OG ERLENDUR PÁLSSON
           GUÐRÚN HARPA BJARNADÓTTIR OG ERLENDUR PÁLSSON Fararstjóri

           Guðrún Harpa og Erlendur eru náttúrubörn í eðli sínu sem líður hvergi betur en upp til heiða og inn til dala, hvort heldur sem er ein í fjallakyrrðinni eða í góðum félagsskap annarra fjallafíkla. Guðrún Harpa fæddist skáti og eyddi unglingsárunum í útilegur og fjallabrölt. Erlendur var fljótur að komast að því að eina leiðin til að fylgja konunni sinni eftir væri að tileinka sér sömu fíkn og hefur bara aldeilis gengið það vel!

           • HALLDÓR REYNISSON
            HALLDÓR REYNISSON Fararstjóri

            Halldór er starfandi rektor Skálholtsskóla en áður starfaði hann m.a. sem prestur í Neskirkju og í Hruna, auk þess að vera blaðamaður og forsetaritari. Hin seinni ár hefur hann starfað mikið að málefnum þeirra sem hafa orðið fyrir áföllum og sorg og verið formaður Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð.

            Halldór hefur leitt og tekið þátt í pílagrímagöngum innanlands og er sérstakur áhugamaður um lífstíl pílagrímsins; að einfalda líf sitt, ganga með sjálfum sér – og öðrum í sátt við umhverfi og náttúru.

            Hann er áhugamaður um skógrækt og stjörnugláp, og er enn í boltanum.

            • JÓHANNA ARNÓRSDÓTTIR OG HELMUT HINRICHSEN
             JÓHANNA ARNÓRSDÓTTIR OG HELMUT HINRICHSEN Fararstjóri

             Helmut hefur starfað í áratugi sem kennari, leiðsögumaður og þýðandi.
             Jóhanna er líffræðingur að mennt og starfar sem framhaldsskólakennari í efna- og líffræði.
             Veturinn 2014-2015 dvöldu þau við spænskunám í Santiago de Compostela. Þau gengu um fjöll og firði í Galísíu og hjóluðu þrjá Jakobsvegi, Camino Fisterra, Camino Invierno og Camino Portugués.

             • KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR
              KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR Fararstjóri

              Kristín er slysa- og bráðalæknir og kennir við læknadeild HÍ, en utanspítalaþjónusta, forvarnir og heilsuefling hafa lengi verið henni hugleikin.

              Stutt er í flakk- og ævintýragenið hjá Kristínu. Hún ólst upp í Bandaríkjunum, var skiptinemi Barcelóna og Aþenu og hefur unnið í Svíðþjóð, Bretlandi og á Spáni.

              Kristín hefur alla tíð sinnt kennslu og fræðslu, bæði innan spítala og utan. m.a. þegar hún var Kennslustjóri Slysa- og Bráðadeildar LSH.

              • LEIFUR GEIR HAFSTEINSSON, FRÍÐA AMMENDRUP OG AÐALBJÖRN ÞÓRÓLFSSON
               LEIFUR GEIR HAFSTEINSSON, FRÍÐA AMMENDRUP OG AÐALBJÖRN ÞÓRÓLFSSON Fararstjóri

               Leifur Geir er doktor í vinnusálfræði og gamalreyndur fótboltakappi og CrossFit þjálfari. Hann starfar hjá Hagvangi, stofnaði og rak fyrstu CrossFit stöð landsins og hefur unun af að upplifa ævintýri í þéttum hópi af góðu fólki.

               Fríða er íþrótta- og tölvunarfræðingur, starfar hjá Advania og er margföld afrekskona í CrossFit. Hún er sannkallaður ljúflingur með járnvilja og hefur einstakt lag á að laða það besta fram í öðrum.

               Aðalbjörn starfar hjá Íslandsbanka, er doktor í eðlisfræði norðurljósa og mun vafalaust ausa úr þeim fróðleiksbrunni þegar við á. Í honum mætist sjaldgæf og dýrmæt blanda af umhyggju og óskeikulli skipulagsfærni.

               Öll hafa þau tekið hjólasportið föstum tökum undanfarin ár og stefna á frekari landvinninga í þeim efnum.

               • ÖRVAR AÐALSTEINSSON
                ÖRVAR AÐALSTEINSSON Fararstjóri

                Örvar er fæddur 1961 í Reykjavík. Hann er menntaður trésmiður og starfar sem slökkviliðsmaður. Hann  fór að stunda útivist á unglingsaldri með skátunum og í Hjálparsveit skáta. Hann hefur farið í ótal fjallaferðir innanlands og lagt leið sína nokkrum sinnum í Alpana og klifið þar tinda. Útivist hvers konar eru hans ær og kýr: fjallgöngur, bakpokaferðir,  gönguskíði, fjallaskíði og hjólreiðar.  Saga, menning og þjóðfræði eru einnig hans áhugamál  sem og tónlist, en hann grípur í hljóðfæri sér til hugarhægðar. Örvar hefur starfað sem leiðsögumaður frá árinu 2010 og sér nú um skipulag gönguverkefna hjá Ferðafélagi Íslands og er fararstjóri í krefjandi ferðum á öllum árstímum.  Einnig hefur hann kennt  skyndihjálp í óbyggðum og fjallamennsku fyrir ferðamenn.

                • PÉTUR ÁSBJÖRNSSON
                 PÉTUR ÁSBJÖRNSSON Fararstjóri

                 Pétur er fæddur á því herrans ári 1956. Hann kláraði leiðsöguskólann 1987. Er lærður bifvélavirki, kerfisfræðingur og stúdent úr Iðnskólanum í Reykjavík. Er núna sérfræðingur í netkerfum hjá Landspítalanum. Hann hefur starfað í frístundum sem fararstóri og leiðsögumaður hjá Extreme Iceland, Ísafold Travel og Ferðafélagi Íslands. Áhugamál hans beinast flest að útivist; fjallamennska, klifur, hjól, hlaup ofl. Pétur hefur nokkrum sinnum komið í Alpana og m.a. gengið á Mt Blanc, Eiger, Munch og nokkur önnur fjöll. Hann byrjaði í skátum á unga aldri, að vísu sem ylfingur í því frábæra landi Kanada, síðan í Hjálparsveit Skáta Reykjavík og er enn að koma við þar þó það sé að mestu aðstoð við fjármögnun.

                 • Rósa Kristín Baldursdóttir
                  Rósa Kristín Baldursdóttir Fararstjóri

                  Rósa Kristín Baldursdóttir Mag.art B.Ed er söngkona búsett í Salzburg í Austurríki. Hún er prófessor við Pädagogische Hochschule Stefan Zweig Salzburg en stjórnar líka kvennakór og treður upp á tónleikum og í leikhúsum. 5 barna móðir, amma og eilífðarstúdent sem hefur brennandi áhuga á bókmenntum og listum, matargerð og góðum vínum. Hún notar hvert tækifæri til að ferðast og talar ensku, þýsku og ítölsku, dönsku, sænsku og stundum meira að segja frönsku ef mikið liggur við.

                  • SIGRÚN ÁSDÍS GÍSLADÓTTIR
                   SIGRÚN ÁSDÍS GÍSLADÓTTIR Fararstjóri

                   Sigrún Ásdís er mikil áhugamanneskja um heilbrigt líferni í hvívetna, sem felst í útivist, hreyfingu og neyslu á mat, víni og menningu í réttum hlutföllum og í samvistum við skemmtilegt fólk.  Hún er sérstakur unnandi Spánar og spænskrar menningar, hvort sem um er að ræða bókmenntir eða listir.  Á síðustu árum hefur Sigrún notið þess að ganga um Spán eftir að hafa byrjað með því að ganga Jakobsveginn – frönskuleiðina, sem er u.þ.b. 900 km. Á þessum göngum hefur hún kynnst fjölda skemmtilegs fólks og upplifað ný ævintýri. Sigrún Ásdís er með BS próf frá Háskóla Íslands í spænsku með áherslu á  spænskar bókmenntir og listfræði.

                   • ÞÓRHALLA ANDRÉSDÓTTIR
                    ÞÓRHALLA ANDRÉSDÓTTIR Fararstjóri

                    Þórhalla er menntaður sjúkraþjálfari og hefur starfað við sjúkraþjálfun og almenna líkamsræktarþjálfun. Hún hefur haft áhuga á lýðheilsu og fyrirbyggjandi þjálfun og verið með ýmsa hópa í þjálfun, skokkhópa, gönguhópa og líkamsræktarhópa.  Hún hefur trú á því að líta þurfi á manneskjuna í heild til þess að byggja upp góða heilsu og hefur sótt sér framhaldsmenntun í sínu fagi m.a. í neural manipulation ( tauga vinnu) og visceral manipulation ( innri líffæralosun).