Prjónað með Dagnýju: Bindifestivalurin – apríl 2026

8 Dagar

Færeyjar rísa úr hafi eins og grænir klettar í þokunni — eyjar vindanna og fuglanna, þar sem hafið talar við fjöllin og ljósið breytir litum á hverri stund. Lífið þar er mótað af náttúru sem er bæði villt og blíð.

Uppgötvaðu Bindifestivalin í Fuglafirði — einstaka handverkshátíð þar sem sköpun og hefðir lifna við í hjarta Færeyja. Þorpið fyllist af litum, hlátri og ullarangan, og gestir fá að kynnast list kvenna og karla. Hér mætist gömul tækni og ný hugsun — í samfélagi sem fagnar hægum takti, samveru og sönnum handverkssjarma.

Snemmskráningarafsláttur 12.000 kr ef staðfest er fyrir 10. nóvember 2025

  • Dagný Hermannsdóttir. Hún er handavinnukennari að mennt, forfallin handavinnukona og hefur séð um fararstjórn í prjónaferðunum okkar við góðan orðstír.
  • 13.-20. apríl 2026
  • 389.000 kr
  • 50.000 kr
  • 25% af verði ferðar
  • greiðist fyrir 1. mars 2026 - greiðsluseðill kemur í heimabanka
  • 16-24

Dagur 1 :
Haldið til Færeyja

Beint flug með Atlantic Airways til Færeyja. Brottför frá KEF kl 10:45, áætluð lending í Færeyjum kl 14:10. Rúta sækir okkur á flugvöllinn og ekur á Hótel Brandan í Þórshöfn. Það sem eftir er dags er frjáls tími. Það er kjörið að rölta í garnbúðir og skoða sig um í Þórshöfn. Þátttakendur fá ábendingar um spennandi garnbúðir. Í Þórshöfn er fjöldi notalegra veitingastaða og kaffihúsa og bærinn sjálfur er afskaplega fallegur. Á hótelinu er líka góður veitingastaður og notalegur bar.

Dagur 2 :
Navía, Kirkjubær og Signabögarður

Eftir morgunverð höldum við með rútu í skoðunarferð dagsins. Við byrjum á að fara til Navía á Tóftum, heimsækjum fjárhúsin, fræðumst um færeysku ullina og fáum smá hressingu. Að því loknu förum við í verksmiðjubúð Navía, þar sem er mikið úrval af garni og vélprjónuðum flíkum og okkur býðst 10% afsláttur. Verslunin er öll hin huggulegasta og þar er einnig aðstaða fyrir þær sem vilja þiggja kaffisopa eða tylla sér og prjóna og njóta glæsilegs útsýnis.
Þaðan höldum við til Kirkjubæjar sem er einn helsti sögustaður í Færeyjum. Við fáum leiðsögn um elstu kirkju Færeyja, Ólavskirkjan og Kirkjubømúrurin, tignarlegar rústir af stærstu miðaldabyggingu í Færeyjum. Á Kirkjubø er einnig elsta timburhús í heimi sem enn er búið í, Roykstovan, en það er rúmlega 900 ára gamalt. Það var biskupssetur á miðöldum en frá árinu 1557 hafa ábúendur á Kirkjubæjar jörðinni verið af sömu ættinni. Núverandi ábúandi, Johannes Patursson er 17. kynslóð Paturssona sem býr þar.  Hádegismatur í Roykstovunni áður en áfram er haldið.
Næsti viðkomustaður er Signabögarður en þar hefur verið stundaður sauðfjárbúskapur frá alda öðli. Við fáum við leiðsögn og fræðumst um sögu bæjarins sem verið hefur í sömu fjölskyldunni í margar kynslóðir. Einnig fræðumst við um færeyska smáhesta, færeyskar kindur og ull. Okkur verður boðið upp á kaffi og heimabakað góðgæti, getum prófað að spinna og til sölu er garn úr ullinni af kindunum þeirra, tölur úr horni og annað fallegt sem þau búa til á bænum. Núverandi ábúendur hafa mikla ástríðu fyrir því að bjarga færeysku smáhestakyni frá því að deyja út og við fáum að hitta færeyska hesta.
Komum aftur til Þórshafnar milli kl sex og sjö um kvöldið. Frjáls tími eftir það.

Dagur 3 :
Garnbúðir, kaffihús, Norræna Húsið

Frjáls dagur. Þetta er tækifærið til að þræða garnbúðirnar í Þórshöfn, kíkja í aðrar verslanir og hin ýmsu kaffihús og veitingastaði. Norræna húsið er opið kl 9-16 og þar er notalegt að sitja og prjóna og njóta útsýnis yfir bæinn.

Dagur 4 :
Bindifestivalurin!

Við mætum í morgunmat á slaginu 7:00 með prjónatöskuna og annað sem ætlunin er að nota þann daginn. Rúta frá hótelinu kl 7:30 sem ekur okkur til Fuglafjarðar þar sem við munum eyða deginum og fram á kvöld.
Á Bindifestival eru í boði fjölbreytt námskeið, fyrirlestrar og viðburðir af ýmsu tagi. Opið prjónakaffi, pop-up markaðir, tilboð í verslunum í bænum og nóg við að vera. Námskeiðin eru haldin í heimahúsum í Fuglafirði og stemningin er notaleg. Námskeið eru í boði bæði fyrir og eftir hádegi og hver og einn þátttakandi velur sín námskeið. Tvö námskeið eru innifalin í verðinu en hægt er að bæta við fleirum gegn gjaldi ef áhugi er á því. Hádegisverðarhlaðborð er innifalið og heitt á könnunni allan daginn í prjónakaffinu auk þess sem boðið er upp á kaffi og meðlæti á öllum námskeiðum.
Um kvöldið förum við í mat í heimahúsi, þangað er nokkurra mínútna ganga og að loknum kvöldverði röltum við í kirkjuna í prjónamessu. Eftir messu er rúta til Þórshafnar.

Dagur 5 :
Bindifestivalurin - dagur tvö

Morgunmatur á slaginu 7:00. Rúta til Fuglafjarðar frá hótelinu kl 7:45.
Námskeið, fyrilestrar, hádegisverðarhlaðborð, prjónakaffi og alls kyns viðburðir.
Um kvöldið er þríréttaður hátíðarkvöldverður í félagsheimilinu sem við látum auðvitað ekki framhjá okkur fara. Tónlist, skemmtiatriði, fjöldasöngur og fleira.
22:30 Rúta frá Fuglafirði á Hótel Brandan.

Dagur 6 :
Lokadagur Bindifestivalsins

Morgunmatur á slaginu 7:00. Rúta til Fuglafjarðar frá hótelinu kl 7:45.
Dagskrá Bindifestivalsins heldur áfram með vinnustofum og öðrum viðburðum, hádegisverðarhlaðborði, prjónakaffi og skemmtilegheitum.
17:30 Rúta til Þórshafnar á Hótel Brandan.

Dagur 7 :
Sunnudagur - frjáls dagur

Listasafnið og þjóðminjasafnið eru opin þennan dag og óhætt er að mæla með heimsókn þangað. Listasafnið er í stuttu göngufæri frá hótelinu okkar og á leiðinni þangað er fallegur garður sem gaman er að ganga um. Það er opið 11-16. Þjóðminjasafnið er opið 13 – 17 og er dálítið lengra labb frá hótelinu. Einnig er notalegt að rölta um miðbæinn og þó flestar verslanir séu lokaðar á sunnudögum eru einhver kaffihús og veitingastaðir opnir. Svo er líka hægt að skella sér í sunnudagsmessu. Fyrir þær sem vilja taka því með ró er líka notalegt að tylla sér á hótelinu og prjóna. Þær sem vilja koma með Dagnýju á veitingastað í miðbænum um kvöldið. Nauðsynlegt að skrá sig í það fyrirfram.

Dagur 8 :
Heimferð með hjartað fullt af góðum minningum og gleði

Eftir morgunmat er ekið á flugvöllinn í rútu. Brottför frá Færeyjum kl 10:25, lent í KEF kl 11:00 að staðartíma.

Þú getur sent fyrirspurn þína í gegnum formið hér að neðan.

Prjónað með Dagnýju: Bindifestivalurin – apríl 2026
Frá 389.000 kr.
/ Fullorðin