fbpx

Skiptinám Mundo

Flestum foreldrum reynist auðvelt að gefa börnum sínum rætur og öryggi en þegar kemur að því að ljá þeim vængi vandast málið. Mundo – ferðaskrifstofa þekkir þetta af eigin raun og leitast því við að skapa alþjóðlega reynslu í öruggu umhverfi. Skiptinám Mundo er frægt fyrir að blása ungmennum byr í brjóst, efla sjálfstraust og stútfylla krakkana af góðum minningum. Sannast hefur að við heimkomu gengur þeim betur í námi, þau tala reiprennandi erlent tungumál og skera sig úr hópnum á jákvæðan máta.

Mundo leggur metnað í persónulega þjónustu við skiptinema og foreldra/forráðamenn þeirra. Við höldum vel utan um krakkana meðan á dvöl stendur og undirbúum þau svo vel fyrir brottför að eftir er tekið.

Áratuga reynsla okkar af skiptinámi hefur kennt okkur að skiptinám hentar ekki öllum. Mikilvægt er að unglingurinn vilji fara sjálfur og sé ekki ýtt út í skiptinámið af foreldrum. Einnig er nauðsynlegt að allir aðilar geri sér grein fyrir því að skiptinám reynir á. Það er meira en að segja það að fara í burtu í 3-10 mánuði, búa hjá ókunnugri fjölskyldu, eignast nýja vini, fara í nýjan skóla og þurfa að standa á eigin fótum. Vitaskuld er ávinningur af skiptinámi mikill en það er líka vegna þess að ungmennin hafa lagt mikið á sig. Við hjá Mundo líkjum skiptinámi við það að fá gefins rándýra fiðlu. Verðmæti hennar er ekki mikið nema það takist að ná úr henni góðum hljómi. Það er einmitt vinna skiptinemans – að fá eins mikið út úr skiptináminu og hægt er.

Áður en umsóknargögn um skiptinám eru afhent þá tekur Mundo ungmenni og foreldra þeirra í viðtal og metur hvort viðkomandi sé góður kandídat í skiptinám. Þú getur sótt um að koma í viðtal með því að senda póst á mundo@mundo.is eða margret@mundo.is

Mundo er með skiptinám í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni. Unnið er með afar traustum aðilum í öllum þessum löndum þar sem trúnaðarmenn krakkanna eru starfsmenn en ekki sjálfboðaliðar.