Description
FKA á norðurlandi (5. – 8. mars 2020)
SKÍÐAHELGI FKA á Siglufirði. Er komið að því að vera virk í FKA? Láttu drauminn rætast og lentu í ævintýrum með FKA konum á Siglufirði frá fimmtudegi fram á sunnudag! Já þú átt það skilið! Þú getur slakað, dekrað við og stækkað tengslanetið, farið á skíði, hotjóga, magadans, gönguferðir – nefndu það!
Af því að áttundi mars er alþjóðlegur réttindadagur kvenna þá ætlum við að leggja gönguskíðabraut – 12 km – frá Þrasastöðum í Fljótum – yfir Lágheiðina þann 7. mars. Þar liggja söguslóðir Dalalífs enda bjó Guðrún frá Lundi þarna rétt hjá. Í hennar anda munum við gæta þess að tala saman – taka andköf yfir náttúrufegurðinni, drekka kaffi og alls ekki hafa tímatöku! Bara njóta en ekki þjóta!
Við fáum einstakt tilboð í þriggja nátta gistingu (fim til sun) með inniföldum þriggja rétta kvöldverði á föstudegi og laugardegi ásamt morgunmat á aðeins 39.900 kr (miðast við á mann – 2 saman í herbergi) á Hótel Siglunesi þar sem hinn víðfrægi marokkóski veitingastaður er. Um er að ræða 19 herbergi (þar af 10 með einkabaði) og fyrstur pantar fyrstur fær! Heitur pottur er á hótelinu og yfir 60 listaverk eftir listakonuna Huldu Vilhjálmsdóttur og er hótelið skreytt húsgögnum frá blómatíma Siglufjarðar.
Notaðu tækifærið og dekraðu sjálfa þig. Við munum gæta þess að þér leiðist ekki í eina mínútu!
Þar sem verðið er jafn gott og raun ber vitni er ekki ódýrara þó dvalið sé skemur en frá fimmtudegi fram á sunnudag.