Ævintýralandið Litháen býður upp á ógleymanlega blöndu af náttúru, byggingarlist, menningu og hefðum. Við bjóðum einungis 14 pláss í þessa ferð, til að hver og einn njóti sem best því sem við komum til með að upplifa.
Á ferðalaginu um þetta mjög svo litríka land, heimsækjum við fjóra staði sem eru á heimsmyndjaskrá UNESCO: hinn heillandi gamla miðbæ í Vilnius, módernískan arkitektúrinn í Kaunas, töfrandi sandhólana á Curonian Spit, og hina heilögu Hæð Krossanna. Njótum slökunar á óspilltri Amber ströndinni við Eystrasaltið eða njótum kyrrðarinnar í náttúruparadís. Heillandi bærinn Birzai (bjórhöfuðborg Litháen) setur svip sinn á ferðina með margra alda arfleifð þegar kemur að bjórgerð og bjórsmökkun. En töfrar Birzai eru mun meiri; uppgötvum dularfull jarðföll, skoðum kastala við kyrrlátt vatn, njótum lifandi menningar sem ferðamenn fá alla jafnan ekki að upplifa, hittum heimafólk og rúsínan í pylsuendanum er tónlistarhátíð sem ein af íbúum bæjarins skipuleggur á landareign sinni.
Þetta er ferðalag sem býður þér í spennandi könnunarleiðangur um land sem fáir þekkja, að komast í snertingu við menningu og heimafólk, með upplifun sem kemur á óvart.
Fararstjórar: Justinus Simanavičius leiðsögumaður í Litháen mun segja okkur allt sem við viljum vita um Litháen. Hann er fæddur og uppalinn í Birzai og hefur búið m.a. í Marokkó, Tyrklandi og á Íslandi.
Birna María Þorbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Mundo verður einnig með hópnum allan tímann.
Ferðatímabil: 17.-24. ágúst 2025
Verð: 365.000 kr á mann m.v. tveggja manna herbergi
Aukagjald fyrir einbýli: 85.000 kr
Staðfestingargjald: 91.200 kr (óafturkræft nema ferð falli niður)
Fjöldi farþega: lágmark 10 – hámark 14
Eftirstöðvar greiðast fyrir 3. júní 2025 – greiðsluseðill kemur í netbanka
Upplýsingar gefur Birna í s. 561 4646 netfang: birna@mundo.is
Ferðatilhögun:
Dagur 1 – 17. ágúst (sunnudagur):
Beint flug frá KEF til Vilnius með Play, lent í Vilnius kl 22:20 og ekið á 4* hótel í bænum. Hægt að fara beint að sofa eða taka rölt fyrir svefninn.
Dagur 2 – 18. ágúst:
Við kynnumst Vilnius og töfrum Trakai. Byrjum daginn á því að fara í skoðunarferð um Vilnius og stöldrum við kennileiti eins og Háskólann í Vilnius, kirkju heilagrar Önnu, röltum um gamla bæinn sem er á Heimsmynjaskrá UNESCO (oft nefndur Flórens norðursins) og heimsækjum KGB safnið þar sem við kynnumst flókinni sögu Litháen. Eftir hádegismat ökum við til Trakai þar sem við sjáum hinn mikilfenglega Trakai kastala sem stendur á eyju í miðju vatninu. Bátsferð um vatnið fullkomnar daginn. Frjálst kvöld í Vilnius þar sem upplagt er að fara á góðan veitingastað og kynnast matargerð borgarinnar.
Dagur 3 – 19. ágúst:
Við ökum til Kaunas, annarar stærstu borgar Litháen, og forum í ferðalag um módernisma og minningar. Við byrjum á að heimsækja safn og áberandi minnismerki um Helförina. Skoðum síðan módernískan byggingarstíl og göngum um gamla bæinn í Kaunas. Eftir hádegismat höldum við ferð okkar áfram til Amber strandarinnar, þar sem við komum okkur fyrir á heilsuhóteli staðsettu í fallegri náttúru Palanga héraðs, og njótum kvöldsins þar, en þarna dveljum við í þrjár nætur.
Dagur 4 – 20. ágúst:
Við notum daginn í að uppgötva hið hrífandi Curonian Spit, sem er á náttúruminjaskrá UNESCO. Við byrjum á því að heimsækja Amber safnið í Juodkranté, göngum upp á Hæð Nornanna, um heillandi skógarstíga þar sem sjá má viðarskúlptúra sem minna á goðafræði Eystrasaltslandanna. Við göngum á Dauðasöndunum og virðum fyrir okkur stærstu sandhóla í Evrópu. Endum svo daginn í Nida, sjarmerandi hafnarbæ, áður en við forum aftur á hótelið í Palanga.
Dagur 5 – 21. ágúst:
Frjáls dagur til að slaka á og kanna nágrennið. Njótum þess að hvíla okkur á hótelinu og njóta stranda Eystrasaltsins. Fyrir þau sem vilja gera meira þá er hægt að fara í heimsókn í Kretanga vetrargarðinn eða á geislandi Palanga ströndina.
Dagur 6 – 22. ágúst:
Við ökum til norðurhluta Litháens til að heilsa upp á Hæð Krossanna, magnaðan stað á Heimsmynjaskrá UNESCO, sem er í raun mikilfenglegt ták um andlega seiglu Litháa. Við höldum áfram þaðan til Birzai, bjórhöfuðstaðar landsins (sem New York Times útnefndi sem hvorki meira né minna en bjórhöfuðborg heimsins!), þar sem við förum í bjórsmökkum í einni af bjórverksmiðjum bæjarins. Við gistum þessa nótt og næstu á hóteli í bænum.
Dagur 7 – 23. ágúst:
Birzai: Dulúðlegt landslag og lifandi tónlistarveisla. Við byrjum á því að skoða náttúruundur Birzai, þar með talið Kirkilai turninn, dularfull jarðföll eins og “Karvés ola” og hinn fallega Birzai kastala. Göngum yfir lengstu göngubrú í Litháen og heimsækjum Jono kirkjuna. Síðar um daginn heimsækjum við dýraathvarf Gintu og kynnumst sögu hennar. Eftir það verður boðið upp á grillveislu að hætti heimamanna hjá fjölskyldu Justinusar, áður en farið er á einstaka tónlistarhátíð sem haldin er á landareign Gintu, en þar koma saman 25 hljómsveitir (m.a. frá Póllandi, Litháen og Lettlandi) og 1500 áheyrendur á aldrinum 18-80 ára. Gist á sama hóteli og nóttina áður.
Dagur 8 – 24. ágúst:
Tékkum út af hótelinu rétt fyrir hádegi. Förum síðan á útivistarsvæði þar sem við förum í stutta náttúrugöngu, þar sem við göngu berfætt á stíg sem samanstendur af steinhellum, sandi, sagi, steinum af allskonar stærðum og gerðum, trjáplönkum og fleirum, njótum ilmsins í skóginum og að finna náttúruna undir iljum okkar. Í orðsins fyllstu merkingu! Þaðan er ekið til Vilnius, á flugvöllinn, með viðkomu á stað sem við hittum grasalækni bæjarins sem segir okkur í stuttu máli frá því sem hann er að gera. Flogið heim með Play í beinu flugi, farið í loftið kl 23:20 og áætluð lending í KEF kl 00:30 (og þá er kominn 25. ágúst). Við komum heim með ógleymanlegar minningar um Litháíska menningu, fólkið sem við hittum, sögu og náttúrufegurð.