Description
Í þessari ferð verða gengnir fyrstu 300 km af Norðurleiðinni/Camino Norte. Sú leið er alls 850 km og liggur meðfram norðurströnd Baskahéraða Spánar alla leið til Santiago de Compostela, þar skiptast á hæðir og fjöll sem falla í sjó fram, klettahöfðar með sandströndum á milli, fallegir bæir og borgir. Þessi ferð er sannkölluð veisla fyrir augað og stórkostleg leið fyrir alla útivistarunnendur. Þessi ferð stendur svo sannarlega undir einkunnarorðum Mundo: menntun, skemmtun, menning og þjálfun.
Gistingin er allar tegundir af herbergjum en þó oftast tveggja manna, a.m.k. einu sinni mörg saman í stærri herbergjum til að upplifa ekta pílagrímastemmingu. Það er alltaf lín á rúmum, handklæði og sturta.
Fararstjóri: Sigrún Ásdís Gísladóttir
Brottför frá Íslandi 15. júní – heimferð 29. júní
Verð: 420.000 m.v. tvo í herbergi
Innifalið: flug, gisting, morgunmatur og hádegismatur, trúss (hámark 10 kg), leiðsögn, jóga.
Nánari upplýsingar: Margrét s. 691 4646 margret@mundo.is eða Birna s. 788 4646 birna@mundo.is
Ferðatilhögun:
Dagur 1: Haldið frá Íslandi. Nánari tilhögun ferðar auglýst síðar en flogið er út með einni millilendingu. Komum seinnipart dags á áfangastað. Pasajes de San Juan eru í raun tveir bæir; Pasajes og San Juan sem liggja sitt hvorum megin við lítið sund inn úr firði sem liggur í Biscayflóa.Við tökum bát yfir sundið. Þarna búa um 16.000 manns. Victor Hugo bjó þarna um tíma í húsi nr 59. Mörg góð veitingahús sem bjóða upp á fisk og við borðum á einu þeirra þetta fyrsta kvöld.
Dagur 2: Gengið frá Pasajes til San Sebastian 12 km, hækkun 220m. Göngum upp langar tröppur upp frá Pasajes og upp á Ulia fjall og göngum eftir fjallinu á áfangastað. Donostia San Sebastian hefur verið kölluð fallegasta borg á Spáni. Hún er Menningarborg Evrópu árið 2016. Liggur við Biscayflóa um það bil 20 km frá landamærum Frakklands og Spánar. Íbúar eru um 190 þús. Tapas menning Baska er löngu þekkt. Um kvöldið förum við í gamla miðbæinn, göngum á milli nokkurra tapas bara, smökkum og njótum lífsins.
Dagur 3: Við göngum frá San Sebastian til Getaria 25 km, hækkun 300m. Leiðin liggur úr borginni meðfram ströndinni. Förum upp í hæðirnar og horfum út á sjóinn á aðra hönd og á græna sveitina á hina.Förum niður í bæ sem heitir Zarautz og fáum okkur að borða. Þarna er stundum vindasamt og surfing er mikið stundað. Á milli bæjanna Zarautz og Getaria er skemmtileg leið meðfram ströndinni. Lengsta strönd á þessu svæði eða 2.8 km. Getaria og Zarautz eru fiskibæir sem báðir eiga sér sögu um hvalveiðar á árum áður. Íbúafjöldinn er um 3000, en þrátt fyrir það eru mörg frábær veitingahús sem bjóða upp á nýveiddan ferskan fisk.Þarna gistum við líklega á Iribar og borðum hjá Óskari í tilefni af 17. júní ( nánar auglýst síðar).
Dagur 4: Göngum frá Getaria til Deba 17 km. Höldum áfram göngunni upp á hæð fyrir ofan ströndina og göngum eftir stígum vel fyrir ofan og komum fljótlega niður í fallegan bæ sem heitir Zumaia, sem stendur við ánna Urola. Þessi bær varð til á 13. öld í kringum klaustur sem þarna er og varð jafnan fyrir árásum sjóræningja á miðöldum. Í Zumaia er upplagt að fá sér kaffi í bakaríinu. Við göngum áfram um sveitir Baskalands, 2 þorp verða á leið okkar til Deba sem er 5 þús manna bær við sjóinn.
Dagur 5: Göngum frá Deba til Markina 19 km. hækkun um 500m. Kveðjum hafið í bili. Göngum upp á við, tvö „fjöll“ eða hæðir. Þarna er stígurinn margskonar, klettóttur sums staðar og síðasta sumar var verið að ryðja skóg á þessu svæði. Göngum fram á nýlegt gistiskýli eftir ca 1.5 klst göngu. Öll nöfn hér eru á basknesku og heitir skýlið Izabide Aterpetzea. Þarna er gott kaffi og gott að stoppa því ekki er um aðra staði að ræða á þessari dagleið. Höldum áfram upp á næstu hæð og að lokum komum við til Markina. Markina er kölluð „The University of pelota“ sem er baskneskur boltaleikur, en þarna fara fram margir slíkir leikir. Minjar frá fornsteinöld hafa fundist í Markina.
Dagur 6: Göngum frá Markina til Gernika 25 km hækkun um 300. Í upphafi fylgjum við smá lækjarsprænu í áttina að þorpinu Bolibar og klaustri frá miðöldum sem heitir Zenarruza. Leiðin er skógi vaxin að hluta og frekar þægileg. Frelsishetjan Símon Bolivar fæddist í Bolibar. Hann leiddi sjálfstæðisbaráttu Venesúela, Kólumbíu, Ekvador, Perú, Panama og Bólivíu. Leiðin liggur til Gerniku sem er hvað frægust fyrir samnefnt verk Picassos og lýsir andstyggð hans á voðaverkum sem framin voru í borgarstyrjöldinni á tímum Francos þegar hann með aðstoð þjóðverja lét jafna þorpið við jörðu í loftárásum 1937.
Dagur 7: Göngum frá Gerniku til Lezama 18 km hækkun um 300m. Leiðin liggur uppá við í byrjun en lækkar síðan. Göngum eftir skógarstígum og sveitavegum alla leið til Lezama. Lezama er lítill bær sem liggur fyrir neðan fjallgarðinn sem við förum yfir næsta dag og leiðir okkur til Bilbao. Lezama er þekkt fyrir turnana þrjá frá miðöldum: Basabil, Arechavaleta og Lezama, en turnarnir voru kennileiti í hernaði miðalda.
Dagur 8: Göngum frá Lezama til Bilbao 12 km hækkun um 300m. Förum snemma á fætur. Morgunmat er hægt að fá frá kl 6 ef því er að skipta. Leiðin liggur í gegnum sveitina Zamudia og síðan yfir fjallið Avril. Þegar upp er komið göngum við í gegnum garð sem er uppi á fjallinu og sjáum þar vel yfir Bilbao. Gott er að hafa með sér smánesti og borða það í garðinum áður en lagt er af stað niður í borgina. Þægileg og skemmtileg ganga, borgin nálgast og leið okkar liggur í gamla bæinn þar sem er heitir Puerta de los peregrinos. Í dómkirkjunni sem heitir Catedral de Santiago fáum við stimpil í bókina okkar. Fáum okkur kaffi á torginu og höldum svo á hótel. Þarna opna veitingahús kl 18 og gott að fá sér að borða góða pílagrímamáltíð, fara snemma í háttinn og hvíla okkur vel fyrir morgundaginn.
Dagur 9: Njótum dagsins í Bilbao. Hvíldardagur. Skoðum Guggenheimsafnið. Röltum meðfram ánni og skoðum gamla bæinn.
Dagur 10: Göngum frá Bilbao til Portugalete 20 km hækkun 150m. Göngum út úr borginni meðfram ánni Nervión frá Guggenheimsafninu sem stendur við ánna. „Rétta“ leiðin er í gegnum iðnaðarhverfi og er ekki skemmtilegur kostur. Þægileg ganga í áttina að sjónum. Portugalete er um 50 þús manna bær, fallegur og stendur alveg niður við ánna þar sem hún rennur í sjó fram.
Dagur 11: Göngum frá Portugalete til Castro Urdiales 28 km. hækkun um 200m. Göngum í áttina að Pobena, sem er lítill bær á þessari leið. Göngum upp margar tröppur sem leiða okkur upp eftir klettóttri ströndinni. Við tekur síðan gamall slóði eftir lest sem flutti járngrýti til sjávar fyrir margt löngu. Hægt er að velja um tvær leiðir inn til Castro Urdiales, veljum þá fallegri og auðfarnari sem er meðfram ströndinni. Það er frábært útsýni til sjávar síðustu km á þessari leið sem endar niður á strönd og göngum við síðasta 1.3 km inn í bæinn eftir þeirri leið. Castro Urdiales er bær við Biscayflóann með um 40 þús íbúa og er í Cantabríu, þetta er nútímalegur ferðamannabær, fiskiðnaður er mikill, bæði sardínur og ansjósur eru hér fullunnar.
Dagur 12: Gengið frá Castro Urdiales til Laredo 30. km. Hækkun um 250m. Hér er fjölbreytnin í fyrirrúmi. Fyrst er gengið eftir mjúku hæðóttu landslagi, með útsýni yfir strönd og haf. Síðan er gengið eftir þjóðvegi inn í land og í stað sjávar höfum við fjallasýn á meðan gengið er eftir grænum dalvörpum. Að lokum liggur leiðin úr Liendo dalnum niður á sendna ströndina. Liendo er lítill bær þar sem tilvalið er að fá sér að borða. Eftir 6-7 km til viðbótar er komið á áfangastað. Laredo er um 12 þús. manna bær sem stendur við 5 km langa strandlengju, einn af mikilvægustu bæjum Cantabríu.
Dagur 13: Göngum frá Laredo til Guemes 29 km. Hækkun um 50m. Næst síðasti göngudagurinn. Byrjum á því að taka ferjuna yfir til Santona. Eftir stutta göngu í gegnum Santona, er farið að ströndinni á eina af fegurstu leiðum göngunnar, Playa de Berria, farið í gegnum kjarrivaxið landslag í framhaldinu. Gengið um aðra strönd Playa de Trengandín sem er ekki síður falleg. Seinnihluti þessarar dagleiðar liggur af sendnum ströndum á steinlagða gangstíga meðfram sveitavegum þar til komið er að Guemes Alberque, þar sem verður væntanlega gist.
Dagur 14: Gengið frá Guemes til Santander 17. km. engin hækkun. Frá Guemes er gengið að sjónum og meðfram honum þar til komið er að ferjustað. Oft þegar komið er inn í borgir þarf að ganga í gegnum iðnaðarhverfi allt að 10 km en þarna er þess ekki þörf, farið er með ferju frá Somos og yfir til Santander, falleg og auðveld leið. Stoppum í Somos og fáum okkur að borða áður en haldið er til borgarinnar en Somos er lítill og rólegur hafnarstaður. Santander er höfuðborg Cantabriu, 180 þús manna borg og er þriðja stærsta borgin á Camino Norte.
Dagur 15: Heimferð. Flogið heim með einni millilendingu.