4. til 8. desember 2024
Við gistum á yndislegu hóteli í hjarta gamla bæjarins í Riga, förum á þrjú ólík handverksnámskeið, heimsækjum einstaka spunaverksmiðju, fáum gönguleiðsögn um gamla bæinn í Riga, heimsækjum jólamarkað, smökkum jólalegt gúmmelaði að hætti heimamanna og njótum aðventunnar í borginni.
Í Riga er skemmtilegur jólamarkaður á Dómkirkjutorginu. Þar er mikil stemning, allskyns matur, handverk og fleira skemmtilegt til sölu – tilvalið að gera smá jólagjafainnkaup.
Fararstjóri er Dagný Hermannsdóttir.
Hún er handavinnukennari að mennt, forfallin handavinnukona og hefur séð um fararstjórn í prjónaferðunum við góðan orðstír.
Ferðatímabil: 4. – 8. desember 2024
Verð: 191.900 kr./mann miðað við tvo í herbergi.
Aukagjald fyrir einbýli: 18.000 kr.
Staðfestingargjald: 33.000 kr. (óafturkræft nema ferð falli niður)
Fjöldi farþega: lágmark 12 – hámark 20
Eftirstöðvar greiðast 6 vikum fyrir brottför
Upplýsingar í s. 5614646 netfang: birna@mundo.is
Gamli bærinn er einstaklega fallegur og stutt að ganga á milli allra helstu staða. Þar er fjöldi verslana og gnægð veitingastaða og kaffihúsa. Í nágrenninu er Central Market, en það er gríðarlega stór markaður, bæði innan- og utandyra. Þar verslar heimafólk mikið og gaman að kíkja þangað. Einnig er stutt í verslunarmiðstöðvar ef áhugi er á að líta við þar. Í Riga eru mörg áhugaverð söfn, þar er fallegt óperuhús og oft er boðið upp á tónleika í kirkjum í gamla bænum. Það er svo sannarlega nóg við að vera en einnig er Riga kjörinn staður til að slappa af og njóta fegurðarinnar.
Miðvikudagur 4. desember
Flogið er með beint með Air Baltic til Riga frá Keflavík. Þar bíður rúta sem fer með hópinn á Hotel Konventa Seta, 4ra stjörnu hótel, skemmtilega staðsett í gamla bænum. Þangað komum við um kvöldmatarleytið. Þá er tilvalið að litast um og prófa einhvern þeirra fínu veitingastaða sem eru í næsta nágrenni við hótelið.
Fimmtudagur 5. desember
Eftir staðgóðan morgunverð á hótelinu göngum við saman að þjóðbúningamiðstöðinni SENĀ KLĒTS, sem er í 450 m fjarlægð frá hótelinu. Þar verður boðið upp á tvær vinnustofur yfir daginn og gönguleiðsögn um gamla bæinn. Í hádeginu eigum við frátekið borð á litlum veitingastað rétt við SENĀ KLĒTS.
Fyrir hádegi fáum við leiðsögn í að gera lettneskt jólaskraut sem unnið er úr hálmstráum. Boðið upp á kaffi og lettneskt gúmmelaði.
Eftir hádegisverðinn er í boði klukkutíma löng gönguleiðsögn um gamla bæinn.
Á seinni parts vinnustofu dagsins verða prjónaðar handstúkur með fallegu og óvenjulegu mynstri. Aftur er boðið upp á kaffi og nú fáum við lettneskt jólabakkelsi með kaffinu.
Föstudagur 6. desember – Ferð til Limbaži
Að loknum góðum morgunverði hittumst við í anddyri hótelsins. Þaðan förum við saman með rútu til Limbaži, sem er um 80 km norðaustan við Riga. Fyrsta stopp verður í hinu þekkta bakaríi “Lielezers” en þaðan er selt mikið af hefðbundum brauðum og þjóðlegu bakkelsi um allt Lettland. Við kíkjum í búðina, fáum smakk og getum gert smákökuinnkaupin fyrir jólin.
Svo tekur við vinnustofa í bandvefnaði að hætti heimamanna. Þaulreyndur kennari leiðbeinir um vefnaðinn. Við fáum allt í hendurnar; garn og vefgrind og njótum þess að vefa saman. Vefgrindina fáum við með okkur heim svo okkur er ekkert að vanbúnaði að halda áfram með vefnaðinn síðar. Boðið upp á kaffi og smákökur og nemendur í tónlistarskóla bæjarins leika fyrir okkur á lettneska strengjahljóðfærið Kokle.
Innifalinn er síðbúinn hádegisverður á veitingastað í bænum. Eftir það heimsækjum við hina frægu spunaverksmiðju Limbažu Tīne sem opnar dyr sínar fyrir hópnum. Þar er meðal annars unnið bandið sem mest er notað í lettneska vettlinga og ofið efni í þjóðbúninga bæði fyrir Lettland og nágrannalöndin. Einnig eru ofnir hördúkar og ullarteppi í verksmiðjunni. Við fáum að skoða verksmiðjuna og býðst að versla framleiðsluvörur þeirra.
Komið aftur til Riga fyrir kvöldmat.
Laugardagur 7. desember
Frjáls dagur með sameiginlegum hátíðarkvöldverði á Gutenbergs.
Fyrir hádegið verður boðið upp á göngu í hina vinsælu verslun HobbyWool sem er meðal annars þekkt fyrir skemmtilegar gjafapakkningar með vettlingauppskriftum og garni. Þar og í fleiri vinsælum garnverslunum, fáum við allt að 15% afslátt af uppsettu verði.
Það er gaman að rölta um gamla bæinn í Riga og njóta jólastemningarinnar, hvort sem er að vinda sér í að kaupa jólagjafir, tylla sér á kaffihús og prjóna, skoða Central Market eða dunda sér á jólamarkaðinum og fá sér heitt vín.
Síðasta kvöldið okkar í Riga verður hátíðarkvöldverður á veitingastaðnum Gutenbergs. Þar fáum við þriggja rétta máltíð með drykkjum – innifalið í ferðinni. Frá salarkynnum Gutenbergs er fallegt útsýni yfir gamla bæinn. Veitingastaðurinn er við Dómkirkjutorgið þar sem jólamarkaðurinn er og því er tilvalið að skoða sig um á markaðinum fyrir eða eftir matinn.
Sunnudagur 8. desember
Við tökum morgunverðinn í fyrra fallinu, tékkum okkur út af hótelinu og förum með rútu á flugvöllinn. Flugtak er 10.35 og lending í Keflavík 12.40. Dásamlegt að eiga góðan sunnudag heima við til að ganga frá eftir ferðina og setja nýja jólaskrautið á sinn stað á aðventunni.