Bóka/greiða staðfestingargjald
Staðfestingargjald er 146.000kr./mann
Langar þig í ævintýraferð og búa til minningar fyrir lífstíð? Ferð Mundo um Perú og Amasonfljótið er heldur betur til þess fallin! Machu Picchu er eitt af undrum veraldar, sigling á Amasonfljótinu kynnir þig fyrir framandi dýralífi, Colca gilið er mun dýpra en Grand Canyon og Arequipa er talin fallegasta borg Perú svo ekki sé talað um hina undurmerku borg Lima. Við skipuleggjum ferðina þannig að þú færð tækifæri til að kynnast lífi innfæddra, kynnast því áhugaverðasta sem Perú hefur uppá að bjóða og fara út fyrir þægindarammann á öruggan hátt.
Ferðatímabil: 14. – 30. apríl 2025
Fararstjórar: Erlendur Pálsson og Danielle Salhazhar
Verð: 989.900.- kr. m.v. gistingu í tvíbýli
Aukagjald fyrir einbýli: 184.000 kr.
Staðfestingargjald: 146.000 kr. (óendurkræft nema ferð falli niður)
Lokagreiðsla: 6 vikum fyrir brottför
Farþegafjöldi: lágmark 10 – hámark 16.
” Ferðinn uppfyllti allar villtustu væntingar um skipulag, upplifun og skemmtilegheit – kærar þakkir”
“Ferðin til Perú með Mundo var ævintýri líkust frá upphafi til enda. Fengum tækifæri til að upplifa einstaka náttúrufegurð, dýralíf og kynnast lífi fólks upp til fjalla. Fengum mikla fræðslu um menningu, listir, fornminjar, náttúru og lifnaðarhætti fyrr á öldum, ásamt því að kynnast einstöku handverki heimamanna. Fararstjórn og allt skipulag til mikillar fyrirmyndar. Alltaf var séð til þess að öllum liði vel í hópnum og að skipulagið væri við hæfi allra. Gleði og góð stemning einkenndi hópinn.”
“Perúferð Mundo er draumaferð í alla staði. Ferðin okkar í apríl 2024 var vel skipulögð og vel var haldið utan um hópinn. Góð stemmning myndaðist á milli ferðahópsins, fararstjóra og leiðsögumanna. Allir áfangastaðir voru áhugaverðir, hótel vel valin og veitingastaðir góðir. Ferðin var í stuttu máli ein allsherjar upplifun þar sem hver dagur var öðrum betri með einstakri náttúrufegurð, fróðleik, menningu og hæfilegri afslöppun. Takk fyrir mig.”
“Ferðin til Perú með mundo.is var ein yndislegasta ferð sem ég hef farið á ævinni. Perú er ótrúlegt land og samsetning ferðaáætlunarinnar var frábær vel skipulögð. Ég get ráðlagt öllum að fara í þessa ferð”
Erlendur Pálsson er víðförull fjallamaður. Hann hefur lengi fylgt íslenskum hópum á fjöll með Fjallafélaginu og Tindum. Hann hefur klifið fjöll í
Nepal, Afríku og er langt kominn með að stíga á hæsta topp hvers lands í Evrópu. Einnig hefur hann gengið með hópa nokkra hringi í kringum Mont Blanc (TMB) .
Danielle Salhazhar er heimamaður sem mun fylgja hópnum alla ferðina í Perú. Hann er heimspekingur ásamt því að læra guðfræði og kennslu. Daniel eins og hann er kallaður hefur verið að leiðseigja gestum Perú í 20 ár en þar á undan var hann munkur í 16 ár.
14 og 15 apríl – ferðadagar
Lagt af stað frá Keflavík kl 17:00 og lent í New York kl 19:15. Þaðan er næturflug til Perú, lagt af stað kl 00:20 og lent í Lima kl 07:25. Hópnum er ekið á hótelið í Miraflores hverfinu sem er um 45 mínútna akstur. Við getum strax tékkað inn á hótelið, fengið morgunverð og hvílst í nokkrar klukkustundir. Eftir hvíldina á hótelinu snæðum við hádegisverð og förum í skoðunarferð um Miraflower hverfið. Annars verður þetta léttur dagur til að ná sér eftir langt ferðalag.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Antigua Miraflores Hotel í Lima 4* eða sambærilegt16. apríl – dagur 2
Í dag er farið í skioðunarferð um Lima sem er stærsta borg S-Ameríku. í skoðunarferðinni heimsækjum við Plaza de Armas sem er í hjarta borgarinnar og Parque del Amor ástargarðinn. Einnig verður farið á Larco-safnið í Lima, þar sem sjá má perúíska forngripi. Að lokum verður farið til Huaca Pucllana stöplapýramída sem gegndu stóru hlutverki í framgangi og uppbyggingu Lima-menningarinnar fyrr á öldum. Þar kynnumst við perúískri matargerð, fáum kvöldverð að hætti heimamanna og horfum yfir meistaraverk Inkanna.
Matur innifalinn: Morgunmatur og sameiginlegur kvöldverður.
Gisting: Antigua Miraflores Hotel í Lima 4* eða sambærilegt
17. apríl- dagur 3
Eftir góðan morgunverð er skundað á flugvöllinn og flogið til Puerto Maldonado, sem oft er kallað “Hliðið að Amazon”, og tekur flugið um 1 klst. og 40 mín. Hópurinn er sóttur á flugvöllinn og er farið í 45 mínútna bátsferð á undursamlega og umhverfisvæna gististaðinn Reserva Amazonica sem hefur verið starfrækt af Inkaterra frá 8. áratugnum. Við munum gista næstu 2 nætur í fallegum cabañas (bungalows eða tréskálar) sem staðsettir eru við Amason fljótið. Hér lendum við í ævintýrum við Amazonfrumskóginn og -fljótið næstu daga. Eftir síðbúinn hádegismat er tími til að skoða umhverfið og göngustígana í nágrenninu í fylgd náttúrusérfræðinga. Í ljósaskiptunum verður boðið upp á bátsferð, þar sem heyra má í fjölbreyttu dýralífi í og við fljótið. Kvöldverður á veitingastað gististaðarins.
Athugið: þar sem það er takmarkað pláss í bátnum þarf hópurinn að vera klár með það sem þarf að nota næstu 3 daga í bakpoka og verður farangurinn sem eftir verður, geymdur í bænum.
Hér má sjá vefsíðu gististaðarins Reserva Amazonica www.inkaterra.com
Morgun-, hádegis- og kvöldverður er innifalinn á meðan dvalist er á staðnum.
Gisting: Reserva Amazonica.
18. apríl- dagur 4
Áfram er dvalist á þessum ævintýralega stað við Amazonfljótið. Á þessum dögum verður farið í stórkostlega “jungle canopy”-göngu í um 40 metra hæð innan um laufskrúð frumskógarins. Hér kynnast þátttakendur dýralífi og náttúru sem hvergi sést annars staðar. Þá verður farið með báti uppeftir fljótinu að þjóðgarðinum Tambopata National Reserve. Þar göngum við eftir 3 km löngum stíg og virðum náttúruna fyrir okkur á leiðinni, áður en við komum að hinu fallega vatni Lake Sandoval. Við fáum einkatúr í fljótabát á vatninu og gefst þátttakendum sérstakt tækifæri til að skoða þau einstöku lífsskilyrði sem örloftslag staðarins býr til. Aldrei að vita nema við sjáum capuchin-, eða íkornaapaketti, leikgjarna otra eða caiman-krókudílana sem búa í vatninu.
Morgun-, hádegis- og kvöldverður er innifalinn á meðan dvalist er á staðnum.
Gisting: Reserva Amazonica
19. apríl- dagur 5
Eftir morgunverð er siglt aftur til Puerto Maldonado. Þar er farangurinn sóttur, farið á flugvöllinn og flogið til Cusco. Eftir lendingu í Cusco höldum við áfram í Dalinn Helga (e. The Sacred Valley) en stoppum á leiðinni við hinar ótrúlegu saltnámur sem hafa verið í notkun síðan á tímum Inkanna, auk þess sem við skoðum fornleifastaði þar sem Inkarnir beisluðu landið, stunduðu landbúnað og merkar landbúnaðarrannsóknir í manngerðum stöllum. Við höfum okkur annars hæg þennan dag til að venjast lofthæðinni, en dalurinn er í um 3000 m hæð yfir sjávarmáli. Mikilvægt er að borða ekki þungan mat og drekka mikið vatn til að þola lofthæðina. Hópurinn mun gista tvær nætur í Dalnum Helga.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Boutique-hótel í Sacred Valley (4* eða sambærilegt).
20. apríl- dagur 6
Í dag kynnumst við fólkinu í dalnum og í bænum Chinchero, heimsækjum við vefara sem þræða hinn hefðbundna litríka perúíska vefnað. Við skoðum Moray fornminjarnar og Salineras de Maras saltnámurnar. Við kynnumst perúískri matargerð hjá heimamanni og eigum von á mikilli Pachamanca (grillveislu) í Chinchero.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Boutique-hótel í Sacred Valley (4* eða sambærilegt).
21. apríl- dagur 7
Um morguninn heimsækjum við þorpið og Inkaminjarnar í Ollantaytambo, áður en haldið er með lest til bæjarins Aguas Calientes. Þar skoðum við hinn fallega Mandor-foss og kíkjum hugsanlega á hverasvæði við bæinn; aðalatriðið þennan dag er að ná að slaka á og venjast hæðinni því nú er aldeilis farið að styttast í heimsókn til Machu Picchu! Við gistum eina nótt í Aguas Calientes, við snæðum saman kvöldverð á hótelinu El Mapi.
Eins og í Amazon ævintýrinu þá þarf hópurinn að pakka í bakpoka nauðsynjum sem þarf í heimsóknina til Machu Picchu og geyma farangurinn í geymslu á hótelinu. Daginn eftir verður farangurinn sóttur af bílstjóra sem kemur honum til okkar á lestarstöðina eftir Machu Picchu heimsóknina.
Matur innifalinn: Morgunmatur og kvöldverður.
Gisting: El Mapi hótel í Aguas Calientes (4* eða sambærilegt).
22. apríl – dagur 8
Nú er loksins komið að því að heimsækja hinar stórkostlegu rústir Inkanna í Machu Picchu, sem er eitt af undrum veraldar, hin týnda borg Inkanna sem hefur varðveist svo undursamlega – einmitt vegna þess að hún var vel falin fyrir Spánverjunum. Farið er með lest á staðinn og deginum varið í Machu Picchu þar sem við fáum leiðsögn um svæðið. Seinni partinn er svo haldið með lest aftur til Cusco og þar verður gist næstu 3 daga.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Abittare Boutique hótel í Cusco (4* eða sambærilegt).
23. apríl – dagur 9
Við notum fyrripart dagsins í göngu um Cusco, heimsækjum torg, markaði, skoðum byggingar frá Inkunum og nýlenduherrunum. Seinnipart dags er farið í skoðunarferð um fornleifar Inkanna í nágrenni bæjarins líkt og Sacsayhuaman, Tambmachay og Puca Pucara.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Abittare Boutique hótel í Cusco (4* eða sambærilegt).
24. apríl – dagur 10
Við eyðum deginum í og við Cusco, heimsækjum bæinn Andahuaylillas og kirkju staðarins, en San Pedro-kirkjan er frá 16. öld og er oft kölluð Sistínska kapella Andesfjallanna vegna loftmyndanna og barrokksins sem þar er að finna. Auk þess skoðum við Inkaminjarnar í Tipón.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Abittare Boutique hótel í Cusco (4* eða sambærilegt).
25. apríl – dagur 11
Síðasti dagur í Cusco við röltum um hellulögð stræti og kíkjum á markaði þar sem finna má handverk heimamanna. Um kvöldið er hátíðarkvöldverður á Cicciolina veitingastaðnum.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Abittare Boutique hótel í Cusco (4* eða sambærilegt).
26. apríl – dagur 12
Við tökum morgunflug frá Cusco til Arequipa. Farið er í skoðunarferð um Arequipa en margir segja að hún sé fallegasta borg Perú. Við heimsækjum klaustrið Santa Catalina sem er verndað af UNESCO. Þá kíkjum við mögulega á múmíusafnið, torg og markaði, allt eftir því hvernig þreytustigi farþega er háttað. Oft er Arequipa nefnd hvíta borgin því húsin eru byggð úr steini sem er afar ljós. Tignarlegt er að horfa á eldfjallið Misti (rúmlega 5000 metra hátt) gnæfa yfir bæinn en hann liggur í 2300 metra hæð. Í Arequipa eru undurfalleg hús frá nýlendutímanum og iðandi menning.
Matur innifalinn: Morgunmatur.
Gisting: Arequipa 4* hótel á besta stað bæjarins.
27. apríl – dagur 13
Í dag er förinni heitið frá Arequipa til Colca gilsins en aksturinn þangað er ævintýri út af fyrir sig, sér í lagi þegar ekið er upp í þjóðgarðinn Agua Blanca þar sem sjá má hópa af villtum vicuñas-dýrum sem skyld eru lama-dýrunum. Colca gilið er stórfenglegt, um 3850 metrar á dýpt og raunar mun dýpra en Grand Canyon. Við stoppum við hæsta part gilsins, eða í um 4800 m hæð, þar sem við fáum jurtate og snarl áður en haldið er niður í dalinn, gegnum bæinn Chivay og meðfram landbúnaðarminjum frá tímum fyrir Inkana. Förinni er heitið á hótel okkar í Colca-dalnum þar sem er jarðhiti, heitar laugar og eftirsótt spa.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Colca Lodge Spa (4* eða sambærilegt)
28. apríl – dagur 14
Í dag vöknum við snemma til að halda í leiðangur að útsýnisstaðnum Cruz del Condor þar sem við sjáum vonandi þennan tignarlega fugl á flugi. Uppstreymið í gilinu er fullkomið fyrir hinn mikilfenglega fugl kondórinn, sem er stærsti fljúgandi fugl á vesturhveli jarðar. Vænghafið spannar yfir 3 metra og nær hann allt að 11 kg þyngd. Á leiðinni til baka heimsækjum við tvö Inkaþorp og kynnumst lífi Inkanna í dalnum áður en ekið er aftur til Arequipa.
Matur innifalinn: Morgunmatur
Gisting: Arequipa 4* hótel með spa og á besta stað bæjarins.
29. til 30. apríl – dagur 15 og 16
Frjáls dagur í Arequipa. Seinni partinn er flogið til Lima og þaðan rétt eftir miðnætti til New York og er gert ráð fyrir að hópurinn sé að lenda í Keflavík snemma morguns 1. maí.