Í þessari sex daga gönguferð upplifum við náttúrufegurð Færeyja og fáum góða innsýn menningu og sögu nágrannaþjóðar okkar. Gengið verður um áhugaverðar slóðir á Vogey, Straumey, Austurey og Karlsey. Við göngum gamlar þjóðleiðir, svo kallaðar byggðagötur, og á hæsta tind Færeyja, Slættaratind.
Göngurnar eru allar hóflega langar en þátttakendur þurfa að hafa reynslu af göngum í brattlendi og á misgrófu undirlendi. Við gefum okkar góðan tíma í að njóta landslags og umhverfis og rölta um litlu gömlu þorpin með sínum fallegu tjörguðu timburhúsum með torfþaki. Góður tími gefst til að skoða sig um í höfuðstaðnum Þórshöfn og njóta matar og drykkjar á hinum fjölmörgu góðu veitingastöðum sem þar eru.
Gist er allan tímann í Þórshöfn á nýlegu mjög góðu hóteli, hótel Brandan, sem er í um 15 mínútna göngufæri frá miðbænum. Rúta ekur okkur alla daga á upphafsstað göngu og nær í okkur á áfangastað.
Fararstjórar: Þóra Björk Hjartardóttir og Örvar Aðalsteinsson
Ferðatímabil: 14.-20. júní 2025
Verð: 369.000 kr
Aukagjald fyrir einbýli: 120.000 kr
Staðfestingargjald: 89.000 kr
Lokagreiðsla fyrir 1. maí 2025 verður innheimt með greiðsluseðli í heimabanka
Fjöldi farþega: lágmark 12 – hámark 16
D2 Straumey: Kirkjubær, Þórshöfn
Við göngum gömlu alfaraleiðina frá útjaðri Þórshafnar yfir Kirkjubæjarreyn til Kirkjubæjar, sögufrægasta stað Færeyja. Þar skoðum við miðaldakirkjurnar tvær, Ólavskirkju og Magnúsarkirkju, Múrinn sem svo er oft kallaður, og förum svo inn í Reykstofuna í 900 ára gamla kóngsbænum þar sem sama ættin hefur búið í 17 kynslóðir. Rútan ekur okkur til Þórshafnar að hinni einstæðu byggingu, Norðurlandahúsinu, þar sem við fáum okkur hressingu. Síðdegisganga um elsta hluta Þórshafnar, Reyn og Þinganes þar sem Færeyingar stofnuðu þing sitt um 900 og landstjórnin er nú til húsa í ævagömlum byggingum.
Ganga: Yfir Kirkjubæjarreyn 2 tímar, 6,3 km, 150 m hækkun. Létt ganga.
Söguganga í Þórshöfn 2 tímar
D3 Straumey: Saksun, Tjörnuvík
Ekið norður Straumey til byggðarinnar Saksun sem er í sérstöku umhverfi innst í þröngum firði. Göngum þaðan þjóðleiðina yfir fjallaskarð til þorpsins Tjörnuvíkur sem kúrir undir bröttum hlíðum í lítilli vík þaðan sem klettadrangarnir Risinn og Kerlingin sjást vel undan landi. Þau döguðu þar uppi þegar þau voru að draga Færeyjar til Íslands. Eftir áningu í Tjörnuvík ökum við til Þórshafnar.
Ganga: 3,5 tímar, 7,1 km, 480 m hækkun. Miðlungserfið ganga.
D4 Norðureyjar: Karlsey, Klakksvík
Haldið til Klakksvíkur gegnum tvenn neðansjávargöng og þaðan með ferju yfir á Karlsey. Við ökum síðan gegnum fern göng norður eftir hinni löngu og mjóu eyju, sem stundum er kölluð er blokkflautan, út í ystu byggðina Tröllanes. Þaðan göngum við út að vita á bjargbrún þar sem þverhnípið mætir Atlantshafinu. Þarna var tekin upp áhrifamikil sena í James Bond myndinni No Time to Die og er þar að finna minningarstein um kappann. Þegar við komum aftur til Klakksvíkur skoðum við Christianskirkjuna, eina stærstu og glæsilegustu kirkju Færeyja, og fáum okkur svo smörrebröd á kaffihúsi. Komum við í Götu á Austurey á heimleiðinni þar sem Þrándur í Götu, sem sagt er frá í Færeyinga sögu, stendur þrjóskur á veglegu bjargi. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.
Ganga: 2,5 tímar, 4,4 km, 250 m hækkun. Létt ganga.
D5 Austurey: Slættaratindur, Gjógv
Ekið norður með Sundum yfir á Austurey og þar göngum við á hæsta fjall Færeyja, Slættaratind (882 m). Í björtu veðri er glæsilegt útsýni þaðan yfir fjöll, dali og sund. Þegar niður er komið ökum við norður eftir í þorpið Gjógv sem þekkt er fyrir sína einstöku náttúrulegu höfn. Snæðum þar léttan hádegisverð á Gjáargarði og skoðum okkur um í byggðinni áður en haldið er aftur til Þórshafnar.
Ganga: 4 tímar, 5 km, 480 m hækkun. Miðlungserfið ganga.
D6 Straumey: Skælingur, Norðradalur
Ekið til hinnar örsmáu og afskekktu byggðar, Skælings, á vestanverðri Straumey. Þaðan göngum við í hlíðinni með fram sjónum og yfir skörð og dali þar sem áhugaverð gömul mannvirki verða á leið okkar ofan í Norðradal. Rútan bíður okkar þar og ekur okkur á hótelið.
Ganga: 3 tímar, 9 km, 450 m hækkun. Miðlungserfið ganga.
D7 Heimferð
Eftir morgunverð á hótelinu höldum við út á flugvöll þaðan sem brottför er skömmu eftir hádegi. Áætluð lending í Keflavík, um kl. 14.
Nokkrar myndir frá þeim slóðum sem við munum fara á: