Pílagrímaleiðir Spánar eru einstök upplifun og í þessari ferð göngum við ensku leiðina svokölluðu. Þessi leið er fyrir þau sem vilja njóta lífsins og sumarsins í góðum félagsskap, 100 km gengnir á 5 dögum. Lifa og njóta.
Við göngum síðustu rúmlega 100km frá Ferrol til Santiago de Compostela, forna pílagrímaleið og getum fengið sérstök vegabréf. Allir sem ganga meira en 100 km af þessari leið geta fengið aflausn synda sinna eða menningarlega viðurkenningu ef safnað er tveimur stimplum á dag. Það er víða tækifæri til þess að fá stimpla í passann sinn. Vegabréfið er ekki nauðsynlegt til að njóta göngunnar. Einkenni Jakobsvegarins er hörpuskel og þurrkað graskersaldin sem bundið er við göngustafinn. Hvort tveggja fæst víða á leiðinni. Að lokinni göngu verður boðið upp á menningarlegt spjall ef aðstæður leyfa. Við lærum ýmislegt um menningu Gallisíu og Spánar og reynum að feta einhver spor einnig í tungumálinu, þ.e. spænsku. en í Gallisíu er töluð gallisíska, sem er móðurtunga portúgölsku. Það er algjörlega valkvætt að mæta í spjallið.
Við leggjum mikla áherslu á að við séum samhuga á leiðinni og tökum tillit til hver annars. Ef einhver verður þreyttur þá er ekkert mál að stytta ferðina með því að taka leigubíl á áfangastað (á eigin kostnað) eða sleppa göngudegi einhvers staðar. Slíkt er sjálfsagt, ekkert okkar á að ganga of nærri sér. Mottóið er að njóta og láta sér líða vel. Að morgni hvers dags er farið yfir gönguleið dagsins framundan og áður en við göngum af stað gerum við léttar æfingar til að undirbúa okkur fyrir átök dagsins, það gerum við einnig að lokinni göngu til að teygja vel á þreyttum vöðvum.
Fararstjórar: Guðrún Tulinius og Halldór Reynisson
Ferðatímabil: 14.-21. júní 2025
Verð m.v. tveggja manna herbergi: 369.900 kr
Aukagjald fyrir einbýli: 65.000 kr
Staðfestingargjald: 95.500 kr (síðasti dagur til að bóka er 11. febrúar – óendurkræft nema ferð falli niður)
Lokagreiðsla greiðist fyrir 1. maí 2025 – greiðsluseðill kemur í netbanka
Fjöldi farþega: lágmark 10 – hámark 20
Upplýsingar gefur Birna í s. 561 4646 netfang: birna@mundo.is
Ferðatilhögun:
14. júní: Flogið í beinu flugi til Porto. Brottför frá KEF kl 14:50, lent í Porto kl 20:00.
15. júní: Brottför frá hóteli kl 9:00. Ekið í rútu frá Porto til hafnarbæjarins Ferrol, 4-5 klst akstur. Ferrol var á miðöldum upphafsstaður breskra pílagríma sem komu sjóleiðina og þaðan lagði “Flotinn ósigrandi” upp til árásar á Bretland árið 1588. Gengið til Pontedeume, 15 km á láglendi.
16. júní: Pontedeume til Betanzos, sem er gamall hafnarbær frá 13. öld og í dag viðskiptamiðstöð með fjölbreyttu mannlífi og sögu, einn af hápunktum göngunnar. Reynum að koma snemma þangað til að njóta þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Vegalengd 20 km.
17. júní: Betanzons til Bruma. Gengið um fjallendi, 25 km, uppsöfnuð hækkun um 750 m.
18. júní: Bruma til Sigueiro: Gengið um lítil þorp og lifandi sveitir. Vegalengd 25 km.
19. júní: Sigueiro til Santiago de Compostela. Beinn og breiður vegur í hæðóttu landslangi. Stefnt að því að koma til Santiago í eftirmiðdaginn og hafa þar góðan tíma. Vegalengd 16 km.
20. júní: Hvíldardagur í Santiago. Hægt að taka leigubíl á eigin kostnað út á Finisterre (endimörk alheimsins) og/eða njóta þess sem bærinn hefur upp á að bjóða.
21. júní: Tékkað út af hóteli. Ekið á flugvöllinn í Porto. Flug kl 20:55, áætluð lending í KEF kl 23:55.