Hefurðu gaman að því að prjóna og kynnast siðum og menningu í öðrum löndum? Elskarðu að læra nýjar aðferðir og tækni? Viltu verja tíma með fólki með sama áhugamál? Þá er þessi ferð mögulega draumaferðin þín.
Í Lettlandi sköpuðust einstakar hefðir í vettlingaprjóni. Hefðin var að ungar stúlkur prjónuðu fjöldan allan af vettlingum og söfnuðu í kistil til að eiga áður en þær gengu í hjónaband. Konur lögðu gríðarlegan metnað í að hanna mynstur og að prjóna einstaka vettlinga og munstrin voru fjölbreytt og full af táknum. Hefðin var að brúðurin færði brúðgumanum og fjölskyldu hans, presti og þeim sem höfðu hlutverk í athöfninni eða veislunni vettlinga við giftingu. Vettlingar tengdust einnig alls kyns hjátrú og siðum og mismunandi hefðir sköpuðust milli héraða. Vettlingar urðu líka að nokkurs konar gjaldmiðli og voru mikils metnir og gjarna notaðir sem greiðsla fyrir hitt og þetta. Skrautlegir vettlingar voru gjarna hengdir við belti sem skraut og eru mikilvægur hluti af þjóðbúningahefðum Letta. Í Lettlandi hafa því varðveist ótrúlega fjölbreytt og mörg vettlingamunstur. Enn í dag eru vettlingar mikils metnir í Lettlandi og áhersla lögð á að halda þekkingunni við og víða eru starfandi prjónahópar þar sem prjónarar geta lært hver af öðrum.
Í þessari ferð förum við í ævintýralega prjóna- og menningarreisu. Sitjum námskeið á ýmsum stöðum svo sem söfnum, byggðasöfnum, menningarsetrum, handverkshúsum og víðar, lærum af lettneskum prjónakonum, fáum kynningar á siðum, söngvum, menningu og þjóðbúningum auk þess að smakka þjóðlegan mat og mun allt þetta gefa okkur innsýn inn í lettneska menningu. Heimsækjum handverkshús og vinnustofur listamanna og víða gefst tækifæri til að kaupa prjónavörur og annað vandað handverk beint frá handverksfólkinu sjálfu. Ferðirnar eru unnar í samstarfi við þjóðbúningamiðstöðina Senā Klēts í Riga en stofnandi hennar er Maruta Grasmane höfundur ,,Mittens of Latvia“. Verkefnastýra Sena Klets, Ziedite Muzis er með okkur stóran hluta ferðarinnar en hún er sérfræðingur í öllu sem viðkemur lettneskum þjóðbúningum og handverki tengdu þeim. Hótelin eru ekki af verri endanum en bæði í Liepaja og Riga gistum við á nýuppgerðum hótelum í gömlum og fallegum byggingum
Fararstjóri: Dagný Hermannsdóttir. Hún er handavinnukennari að mennt, forfallin handavinnukona og hefur séð um fararstjórn í prjónaferðunum okkar við góðan orðstír.
Ferðatímabil: 7.-13. júní 2025
Verð á mann m.v. tveggja manna herbergi: 329.000 kr
Aukagjald fyrir einbýli: 35.000 kr
Staðfestingargjald: 82.200 kr (vinsamlega skrifið nafn herbergisfélaga í athugasemd þegar bókað er)
Lokagreiðsla fyrir 25. apríl 2025 – greiðsluseðill verður sendur í heimabanka
Fjöldi farþega: lágmark 18 – hámark 24
Laugardagur 7. júní
00:30 Keflavík, Flogið til Riga með Air Baltic
07:15 Áætluð lending í Riga
Rúta á Hotel Konventa Seta í hjarta gamla bæjarins Riga. Þar borðum við morgunverð og skiljum ferðatöskurnar eftir.
Við byrjum daginn á að rölta í Senā Klēts, Ratslaukum 1, en það er þjóðbúningastofa Letta og þar er gullfalleg verslun með vettlingum og öðru handverki er tengist þjóðbúningahefðum.
Frjáls dagur í Riga og mun Dagný fara með áhugasama prjónara í helstu prjóna- og handverksbúðirnar í nágrenninu. Meðal þeirra verslana sem verða heimsóttar er hin skemmtilega HobbyWool en Eigandi hennar er Ieva Ozolina en hún er höfundur bókanna „Knit like a Latvian“. Hún býður okkur 15% afslátt en í búðinni má t.d. fá garn í vettlinga og tilbúna prjónapakka með uppskrift og garni.
Sunnudagur 8. júní
9:00 Rúta á árlegan handverksmarkað á Ethnographic Open-Air Museum í útjaðri Riga þar sem handverksfólk víðs vegar að safnast saman. Markaðurinn hefur verið haldinn árlega á safninu frá árinu 1971 en þangað safnast handverksfólk víðs vegar að og selur og kynnir vörur sínar.
15:00 Rúta til baka á hótelið og eftir það er frjáls tími fram að hátíðarkvöldverði.
18.15 Göngum saman á veitingastaðinn Gutenbergs, Muku Iela 6, en frá honum er frábært útsýni yfir gamla bæinn og alla fallegu turnana í nágrenninu.
Mánudagur 9. júní
10:30 Brottför frá Rīga til Alsunga en þaðan eru margir af fallegustu vettlingum sem varðveist hafa í héraðinu.
13:00 Hádegisverður
Vinnustofa í handverkshúsi Alsunga
17:00 Brottför frá Alsunga til Liepaja og tékkum okkur inn á Art Hotel Roma, Zivju iela 3
19:30 Kvöldverður á veitingastaðnum Teika, Lielā iela 7
Þriðjudagur 10. júní
09:00 Gengið frá hóteli að handverksmiðstöðinni í Kungu stræti.
Vinnustofa: „Fléttuprjón og furunálar“ leiðbeinandi er Rita Pogoska
11:30 Kaffipása undir tónum þjóðlagasveitarinnar Atštaukas
14:00 Hádegisverður
15:00 Heimsókn í list- og handverksmiðstöðina Art & Craft Center „Dārza iela“
16:00 Frjáls tími: hægt að kíkja á ströndina, fara í búðir eða gallerý, rölta um bæinn eða prjóna.
19:30 Kvöldverður á veitingastaðnum Hojere house, address: Kungu iela 24,
Miðvikudagur 11. júní
9:00 Rútuferð til Rucava.
Vinnustofa: „Rucava skeljakanntur“. Leiðbeinandi: Dace Liparte.
14:00 Hádegisverður í Zvanītāji sem er nokkurskonar lifandi sögusafn. Þar er einnig hægt að kaupa vettlinga sem meðlimir í handverkshóps staðarins hafa prjónað. Þátttakendur fá með sér heim garn og uppskrift af litríkum vettlingum í fallegum áprentuðum taupoka frá SENĀ KLĒTS
Frjáls tími, hægt að fara á ströndina eða kíkja í búðir og gallerý eða slaka á og prjóna meira.
19.00 Kvöldverður á veitingastaðnum Oskars, Rigas iela 7/9, Liepāja
Fimmtudagur 12. júní
9:50 Gengið frá hóteli til Liepāja safnsins, Kūrmājas prospekts 16/18 en þar verður vinnustofa dagsins
10:00 Vinnustofa: „Fringes“ (kögur o.fl.). Leiðbeinandi: Sandra Brüna. Á safninu skoðum við sýningu um lettneska þjóðhætti, meðal annars myndarlegt safn af gömlum vettlingum.
Stutt kynning á sokkabókinni „Suiti patterned socks“ eftir Lia Mona Ģibiete.
14:00 Hádegisverður á veitingastaðnum Big Amber, Radio iela 8
Frjáls tími eða farið með fararstjóra í garnbúð í nágrenninu.
19.30 Kvöldverður á veitingastaðnum PIANO, Vecā ostmala 40
Föstudagur 13. júní
9:00 Tékkað út af hóteli og haldið til Kuldiga sem er fallegur miðaldabær og á heimsminjaskrá UNESCO.
Vinnustofa á bókasafni Kuldiga með handverksfólki frá listastúdíóinu „Čaupas“.
14:00 Hádegisverður á veitingastaðnum Bangerts.
Gönguferð um þennan einstaklega fallega bæ, einnig hægt að tylla sér niður og prjóna.
17:30 Brottför frá Kuldiga.
20:30 Áætluð koma á flugvöllinn í Riga
22.45 Flug heim með Air Baltic
23:40 Lending í Keflavík