Skiptinám getur verið stórkostleg reynsla sem hjálpar ungmennum að vaxa undurhratt á skömmum tíma auk þess að ná góðum tökum á nýju tungumáli.
Spænska er mikilvægt tungumál og afar gott að kunna þar sem hún er töluð í yfir tuttugu löndum – auk Spánar, í Rómönsku Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku.
Eva Arenales er meðeigandi Mundo og hefur unnið með okkur frá upphafi. Eva býr á Spáni og hefur góðar tengingar þegar kemur að því að finna fjölskyldur fyrir skiptinema Mundo. Auk þess er hún í góðri tengingu við krakkana, m.a. leigir hún hús fyrir hópinn eina helgi og tekur púlsinn. Að auki er starfsmaður Mundo, Nanna Hlíf, ávallt á línunni reiðubúin til að styðja við krakkana í nýjum og krefjandi aðstæðum.
Fjölskyldurnar sem dvalið er hjá eiga það sameiginlegt að vilja opna heimili sitt fyrir íslensku ungmenni. Sumar hafa alþjóðlega reynslu og skilning, aðrar hafa alist upp í tvítyngdu umhverfi og skilja fullvel hvað menningarmismunur og aðlögun eru. Enn aðrar vilja bjóða börnunum sínum upp á nýja lífsreynslu heima fyrir. Fjölskyldurnar sem við vinnum með eru af öllum stærðum og gerðum, stórar og smáar, barnlausar og barnmargar, þar sem eru giftir og ógiftir einstaklingar. Við vöndum okkur vel við að para saman ungmenni og fjölskyldu. Eigandi Mundo miðar ávallt við spurninguna: Vildi ég setja mitt barn til þeirra? Ef svarið er já þá samþykkjum við fjölskylduna.
Hálft skólaár og heilt skólaár
Skiptinámið er fyrir 15-17 ára krakka (miðað við aldurinn þegar lagt er af stað í skiptinámið) og geta þau valið á milli þess að dvelja þar eina önn eða heilt skólaár.
Rannsóknir sýna að best er að dvelja heilt skólaár því fyrstu mánuðirnir fara í aðlögun og hæpið er að ná tungumáli mjög vel á skemmri tíma.
Undirbúningur
Áður en ungmennin halda til fósturfjölskyldnanna fara þau á undirbúningsfundi með Nönnu Hlíf sem heldur utan um skipulag allt frá umsóknum, undirbúningi og meðan á dvöl stendur.
Þátttökuskilyrði:
1. Vera 14-17 ára þegar skiptinám hefst
2. Vera með lágmark 6,5 í meðaleinkunn í íslenskum skóla
3. Æskilegt er að vera með grunnþekkingu í spænsku en það er ekki nauðsynlegt. Mælt er með að hafa tekið spænsku í eitt ár eða hafa verið í sumarbúðum MUNDO. Ef ekki, þurfa verðandi skiptinemar að taka hraðnámskeið í spænsku fyrir brottför.
4. Hafa nægan þroska og sveigjanleika til að geta tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi.
5. Vera við góða heilsu andlega og líkamlega og laus við alvarlega námsörðugleika. Lesblinda flokkast ekki sem alvarlegir námsörðugleikar.
Einnar annar dvöl hefst í kringum 8. september og lýkur 18. desember eða þá að hún hefst 10. janúar og lýkur í júní, eftir því hvort farið er að hausti eða á vormisseri.
Ársdvöl hefst í september og lýkur í júní ef skiptinemi er skráður á fyrra ár stúdentsprófs. Þeir sem skráðir eru á síðara ár stúdentsprófs eru búnir í lok maí.
31. mars fyrir skiptinám sem hefst að hausti
15. október fyrir skiptinám sem hefst í janúar
hálft skólaár: 1.590.000
heilt skólaár: 2.090.000
Greiðslur fara fram með eftirfarandi hætti:
Umsóknargjald 150 þúsund er óafturkræft og greiðist við afhendingu umsóknar. Fari svo ólíklega að umsókninni verði hafnað úti þá endurgreiðum við 120 þúsund af því fé. 50% af gjaldinu greiðist 31. maí og afgangur þann 15. júlí. Fyrir brottför í janúar greiðist 50% fyrir 31. október og afgangur fyrir 15. desember.
Eigandi Mundo er Margrét Jónsdóttir Njarðvík en hún hefur áratuga langa reynslu af skiptinámi og skiptinemum, Spáni og Spánverjum, sendingu og móttöku af Spánverjum og talar spænsku eins og innfædd. Með skiptinámi á Spáni vinnum við með land sem er öruggt, fjölskyldur sem við þekkjum og með samstarfsaðilum sem við treystum.
Ef þér líst á það sem þú lest hér, þá er næsta skref að panta viðtal. Vinsamlegast hafið samband við Nönnu Hlíf í netfangi nannahlif@mundo.is, eða s. 8504684.