Veltir þú því stundum fyrir þér hvort þetta sé allt og sumt? Hvað hafi orðið um draumana, kjarkinn og orkuna? Er fullkomnunaráráttan að sliga þig? Ertu orðin leið á vinnunni og stuttur í þér þráðurinn? Býður menning vinnustaðarins upp á það að allir þori að tjá sig og leggja fram nýjar lausnir? Eða óttast menn að verða sér til skammar? Að það verði hlegið að þeim? Skammast þú þín stundum fyrir að vera „bara“ kennari með erfið vinnuskilyrði og ósanngjörn laun miðað við vinnuálag. Langar þig til að breyta til en treystir þér ekki til þess?
Er ef til vill tímabært að nema staðar og rýna aðeins í sögurnar okkar? Hætta að velta því fyrir sér hver við ættum að vera og finna sátt í eigin skinni? Með því að rýna í sögur okkar af „ósigrum“ fáum við annað tækifæri til að læra af reynslunni og skrifa nýjan, hugrakkan, endi. Námskeiðið er í það minnsta 6 klst. en einnig getum við aðlagað það þörfum þíns hóps.
Námskeiðið byggir á afrakstri vinnu Dr. Brené Brown, sem er félagsráðgjafi og rannsóknarprófessor við Houston háskóla í Texas. Hún er höfundur metsölubókanna The Gifts of Imperfection, Daring Greatly, Rising Strong og Braving the Wilderness. Árið 2010 hélt hún TED fyrirlestur The Power of Vulnerability sem ríflega 25 milljónir hafa hlýtt á. Hún hefur hannað námsefni byggt á fræðum sínum og látið þjálfa fólk upp í að nota það. Dr. Brown hefur unnið með fjölmörgum Fortune 400 fyrirtækjum sem vilja breyta fyrirtækjamenningu sinni og þróa stjórnendur. Fræði hennar nýtast einnig frumkvöðlum, þeim sem vinna við breytingastjórnun og með fólki yfirleitt.
Daring Way™ aðferðafræðin er þróuð til að aðstoða fólk við að „mæta, láta sjá sig og lifa hugrakkara lífi“. Aðferðin byggir á rannsóknum Dr. Brené Brown og gengur út á að rýna í og nýta reynslu þátttakenda. Hægt er að nýta aðferðina með einstaklingum, pörum, fjölskyldum, vinnuhópum og stjórnendum. Á vinnustofunni könnum við þætti eins og berskjöldun, hugrekki, skömm og verðugleika. Við könnum hvaða hugsanir, hegðun og tilfinningar hamla okkur og greinum hvernig nýtt val og nýjar venjur geta hjálpað okkur að lifa betra lífi, sátt við okkur sjálf eins og við erum. Áhersla er lögð á að auka seiglu og viðbrögð við skömm og þróa daglegar venjur sem geta breytt því hvernig við lifum, elskum, ölum upp börnin okkar og styrkjumst sem leiðtogar.
Leiðbeinandi:
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Ragnhildur Vigfúsdóttir sem er Certified Daring Way Facilitator. Hún hefur unnið að flestum sviðum mannauðsmála sem jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrarbæjar, lektor við Nordens Folkliga Akademi, starfsþróunarstjóri hjá Landsvirkjun og sem ráðgjafi hjá Zenter. Ragnhildur er með MA í sögu og safnfræðum frá NYU, kennsluréttindi frá HÍ, með diplóma í starfsmannastjórnun og jákvæðri sálfræði frá EHÍ, alþjóðlega vottaður ACC markþjálfi og NLP master coach. Ragnhildur kenndi einn vetur við grunnskólann á Brúarási (í Jökulsárhlíð) og síðar við framhaldsskólann í Skógum. Hin síðari ár hefur hún kennt á námskeiðum fyrir fullorðna og markþjálfað m.a. ýmsa sem hafa brunnið út í starfi. Ragnhildur hefur búið í Bandaríkjunum og Svíþjóð, verið fararstjóri á Spáni og dvalið í fræðimannsíbúðinni í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Seinna fór hún tvívegis sem fararstjóri í rútuferðir um Bandaríkin – bæði um austur- og vesturströndina. Hún ákvað ung að bjarga heiminum og telur sig gera það með því að aðstoða fólk við að blómstra. Ragnhildur er göngugarpur, enda einn af stofnendum Göngum saman. Hún kýs þó frekar að ganga á láglendi en hálendi en djöflaði sér einu sinni á Hvannadalshnjúk til að geta sagst hafa gert það. Fróðleiksfýsn er einn af styrkleikum hennar enda nýtur hún þess að liggja og lesa.
Hvenær er hægt að fara í ferðina? Þegar þér og hópnum þínum hentar.
Hvað kostar? Kostnaður er breytilegur eftir tímasetningu og lengd ferðar.
Fyrir nánari upplýsingar hafðu samband við Sesselju, Sesselja@mundo.is eða í síma 561-4646.